Sýkingafjöldinn líklegast tilviljun

Listeria monocytogenes í agar.
Listeria monocytogenes í agar. Wikipedia/James Folsom

Ekkert bendir til þess að tengsl séu á milli þeirra sex sýkinga af völdum bakteríunnar Listeria monocytogenes sem greinst hafa á þessu ári. Listeríusýkingar má yfirleitt rekja til neyslu mengaðra matvæla en sóttvarnalæknir segir erfitt að rannsaka uppruna þeirra þar sem langt getur liðið milli sýkingar og þess að þær eru tilkynntar.

Frétt mbl.is: Nýburi lést úr listeríu

Á heimasíðu landlæknisembættisins segir m.a. um Listeriu monocytogenes að bakterían valdi nánast aldrei sjúkdómum hjá fullfrísku fólki en áhættuþættir séu m.a. hár aldur, mikil áfengisneysla og ónæmisskerðing. Þá séu nýfædd börn og fóstur í móðurkviði í aukinni hættu á að sýkjast.

Meðgöngutími sýkingarinnar, þ.e. tíminn sem líður frá smiti til sjúkdómseinkenna, er oftast um 3 vikur en getur verið allt frá 3–70 dagar,“ segir enn fremur á síðunni en helstu matvælategundirnar sem tengst hafi sýkingum séu mjúkir og ógerilsneyddir ostar, og kaldreyktur og grafinn lax.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir smit þó geta borist úr ýmsum matvælum, t.d. vatni, mjólk, grænmeti og kjöti. Sem fyrr segir sé ekkert sem bendi til þess að sýkingartilfellin sex tengist.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

„Það er ekki hægt að segja að það sé mikill samnefnari í þessum sýkingum landfræðilega,“ segir Þórólfur. „Þannig að þetta getur verið tilviljun sem síðan hverfur; við getum fengið svona toppa, þótt þetta sé óvenjulegt. En þetta þýðir bara að það þarf að fylgjast gríðarlega vel með þessu og sjá hvort þetta komi fram aftur og menn þurfa þá að vera tilbúnir til að fara af stað með frekari rannsóknir sem fyrst.“ 

Smitaðist í móðurkviði

Greint var frá sýkingunum í nýjasta tölublaði Sóttvarnafrétta en þar kemur m.a. fram að á árabilinu 1997 til 2016 var tilkynnt um u.þ.b. eitt tilfelli á ári en dreifingin væri ójöfn. Enginn greindist með listeríu á Íslandi árin 2015 og 2016.

Á þessu ári létust hins vegar tveir eldri einstaklingar með undirliggjandi alvarlega sjúkdóma í maí og júní. Þá lést nýburi í ágúst.

Þórólfur segir engar upplýsingar liggja fyrir um uppruna sýkingarinnar hjá nýburanum.

„Móðirin sýkist og veikist og barnið lendir í vandræðum og er tekið með keisara og er þá orðið mjög veikt,“ segir sóttvarnalæknir. Hann segir að á þeim tíma hafi ekki verið vitað hvaða sýking það var sem hrjáði móðurina og þá hafi ekkert í matarræði hennar bent til þess að um listeríu væri að ræða.

Þórólfur bendir á að matarræði fólks sé fjölbreytt og þrátt fyrir að til séu ráðleggingar fyrir þungaðar konur um matarræði þá sé það ekki 100% trygging hvað varðar sýkingar. „Því miður,“ segir hann.

Hann segir „öllu tjaldað til“ þegar nýburar greinast með sýkingar á borð við listeríu en þær geti verið mjög erfiðar viðfangs.

„Þegar þær eru byrjaðar þá getur þetta gerst mjög hratt, sérstaklega hjá börnum sem fæðast fyrir tímann og eru lítil. Stundum er bara sama hvað er gert, þá ræðst ekki neitt við neitt. Þannig er nú gangurinn í ýmsum sjúkdómum og sérstaklega ýmsum sýkingum, að það getur verið erfitt að ráða vð það þegar sýkingin er byrjuð.“

Upplýsingar um Listeria monocytogenes á vef Matvælastofnunar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert