„Við idjótin höfum leyft honum að gera þetta“

Á myndinni flytur Kári Stefánsson erindi sitt á fundi BSRB …
Á myndinni flytur Kári Stefánsson erindi sitt á fundi BSRB í dag. mbl.is/Golli

„Við búum í tiltölulega ríku samfélagi. Í þessu samfélagi höfum við efni á því að reka gott heilbrigðiskerfi. [...] Það sem þarf er viljann til að skattleggja þann auð sem er í íslensku samfélagi - í þeim vösum sem hann er,“ sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar á fundi sem haldinn var á vegum BSRB í hádeginu.

Yfirskrift fundarins var „Einkavæðing í heilbrigðiskerfinu - Hver er hagur sjúklinga?“ Birgir Jakobsson landlæknir flutti erindi, ásamt Kára. Birgir sagði að heilbrigðisþjónusta ætti að stærstum hluta að vera rekin af opinberum aðilum og að opinber rekstur hefði sannað yfirburði sína þegar kæmi að skilvirkni fyrir hverja krónu.

Margt bendir til oflækninga

Hann sagði að á Íslandi væri einkarekin þjónusta í heilbrigðiskerfinu rekin á allt öðrum forsendum en til dæmis í Svíþjóð, þar sem hann þekkti til. „Greiðslukerfið er hvetjandi fyrir einkarekna heilbrigðisþjónustu en letjandi fyrir opinbera þjónustu. Afköstin til langs tíma hér eru ekki nógu mikil. Kerfið hvetur til oflækninga.“

Hann benti á að Ísland væri á toppnum þegar kæmi að fjölda alls kyns aðgerða, sem hann sagði að að sumar skiluðu litlum árangri og væru jafnvel skaðlegar. Þá væru Íslendingar á toppnum þegar kæmi að lyfjaneyslu. Þetta benti til oflækninga.

Birgir sagði óæskilegt að sérgreinalæknir væru aðeins í hlutastarfi á Landspítalanum og sagði að hann efaðist um að sérgreinalæknar, sem jafnframt ynnu á stofum úti í bæ, sinntu störfum sínum af heilum hug á Landspítalanum. „Það er víða pottur brotinn um að þessir læknar séu heilshugar með hagsmuni Landspítalans í huga. Ekki heilshugar,“ áréttaði hann.

Birgir Jakobsson landlæknir sagði að víða væri pottur brotinn í …
Birgir Jakobsson landlæknir sagði að víða væri pottur brotinn í heilbrigðiskerfinu. Styrkja þyrfti innviði svo um munaði. mbl.is/Golli

Hagsmunir sjúklinga stýri einkavæðingu

Hann sagði að einkavæðingin hefði nánast gerst stjórnlaust og einkarekna þjónustan stýrðist af aðgengi að sérgreinalæknum en ekki þörf þeirra sem þyrftu þjónustuna. „Það er nauðsynlegt að Íslendingar geri hlé á vegferð einkavæðingar og að menn geri alvöru úr því að styrkja innviði opinberrar heilbrigðisþjónustu.“ Einkavæðingu, síðar meir, yrði að stýra út frá hagsmunum sjúklinga en engra annarra.

Engum einum flokki að kenna

Kári Stefánsson steig í pontu og sagði að grunnurinn að hverju samfélagi væri að hlúð væri að þeim sem væru meiddir og lasnir. Hann sagði að Íslendingar hefðu vanrækt heilbrigðiskerfið og hlutfall vergrar landsframleiðslu til heilbrigðismála hefði minnkað. Á sama tíma hefði það aukist í nágrannalöndunum. „Það er engum einum flokki eða ríkisstjórn að kenna,“ sagði Kári og bætti við að það væri afleiðing þess að hér hafi ekki verið unnið eftir neinni heildarstefnu í heilbrigðismálum um langa hríð.

Kári sagði að Sjúkratryggingar Íslands, með Steingrím Ara Arason við stjórnvölin, hafi ráðið því hvernig einkavæðingin í heilbrigðiskerfinu hafi farið fram. „Steingrímur Ari er mikill frjálshyggjumaður,“ sagði hann og bætti við að Steingrímur hefði gert það sem hann teldi best og að hann hefði hlúð að einkavæðingunni í góðri trú. „Við idjótin höfum leyft honum að gera þetta. Við höfum ekki haft neina heildarstefnu.“ Einkavæðingin hefði orðið að veruleika á tilviljunarkenndan hátt.

Hann sagði skort á gæðastjórnun í íslenskri heilbrigðisþjónustu og þess vegna fylgdist enginn með því þegar læknar beittu börn því „ofbeldi“ að rífa úr þeim hálskirtla í miklu meiri mæli en þörf krefði.

Spekileki af spítalanum

Heilbrigðisþjónustu á Íslandi á að byggja í kring um Landspítalann, að mati Kára. Hann það að flóknar aðgerðir á einkareknum stofum utan Landspítalans myndi koma í veg fyrir að hægt væri að viðhalda og auka þekkingu heilbrigðisstarfsfólks á Landspítalanum, auk þess sem í kring um einkastofurnar væri ekki þétt net sérfræðinga þegar eitthvað kæmi upp á í flóknum aðgerðum - svo sem þegar fólk í aðgerð lenti í hjartaáfalli. „Við þurfum að mennta næstu kynslóð heilbrigðisstarfsmanna. Til þess þarf fólkið á Landspítalanum að taka þátt í þessum aðgerðum. Með því að flytja svona út í bæ minnkum við þann möguleika að viðhalda þessari þekkingu og bæta hana,“ sagði Kári.

Spurður hvort hann teldi að byggja ætti nýjan spítala á öðrum stað en í Vatnsmýri svaraði Kári því til að undirbúningur að byggingu nýs spítala í Vatnsmýri væri allt of langt kominn til að hægt væri að hugsa um aðrar hugmyndir í þeim efnum. Það myndi einungis tefja málið enn frekar.

Útiloka að reka nútíma heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni

Kári sagði aðspurður að útilokað væri að halda úti flókinni heilbrigðisþjónustu, svo sem skurðlækningum og fæðingarstofum, á landsbyggðinni. Til þess værum við of fá. „Það er enginn möguleiki að búa til nútíma heilbrigðisþjónustu á Húsavík eða Akureyri,“ sagði hann, þegar fyrirspyrjandi úr sal nefndi þessa byggðakjarna.

Kári sagði að endingu að það væri með ólíkindum að Íslendingar sættu sig við að greiðsluþátttaka fólks væri um 30 milljarðar árlega. „Það er dapurlegt að hugsa til þess að fólk sé að fresta því að taka út lyfin sín eða fara í aðgerðir því það hefur ekki efni á því. Það er ekki hægt að leyfa slíkt í íslensku samfélagi. Það er fyrir neðan allar hellur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert