Arion banki greiði húsfélagi 162 milljónir í bætur

Dæmt var í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag.
Dæmt var í málinu í Héraðsdómi Reykjaness í dag. mbl.is/Ómar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í dag Arion banka til að greiða húsfélaginu Löngulínu 2 í Garðabæ, tæplega 162 milljónir króna í skaðabætur vegna galla á fasteigninni. Ekki hafi verið byggt samræmi við skipulags- og byggingarlög, lög um brunavarnir og lög um mannvirki.

Húsfélagið stefndi einnig Garðabæ og byggingarstjóra fasteignarinnar og krafðist skaðabóta af þeirra hálfu, en sýknað var af þeim kröfum.

Upphaflegur húsbyggjandi var Ris ehf. sem seldi flestar íbúðir til Riss fjárfestingar ehf. en nafni þess félags var síðar breytt í Löngulínu 2 ehf. Eftir hrun bankana í október 2008 yfirtók forveri aðalstefnda, Nýi Kaupþings banki hf., Löngulínu 2 ehf., en þá var fasteignin fokheld, og hélt Langalína 2. ehf. áfram byggingu hússins uns byggingu þess lauk haustið 2010. Forveri Arion banka veitti lán til byggingar hússins. Í desember 2008 var þinglýst þeirri kvöð á húsið að veðsetning væri óheimil án samþykkis forvera bankans.

Krafa húsfélagsins á hendur Arion banka byggðist á því að bankinn hefði í raun verið aðaleigandi byggingarframkvæmdanna og húsbyggjandi að Löngulínu 2. Hann hefði ráðið öllu við framkvæmdirnar eftir að hann yfirtók Löngulínu 2 ehf. haustið 2008.

Af hálfu stefnanda var á því byggt að fasteignin að Löngulínu 2, hefði ekki verið byggð í samræmi við skipulags- og byggingarlög, lög um brunavarnir og lög um mannvirki. Við byggingu þess hefði heldur ekki verið farið eftir byggingarreglugerðum. Þá hefði húsið ekki verið byggt samkvæmt viðurkenndum aðferðum og verið haldið verulegum göllum þegar lokaúttekt þess fór fram.

Frágangur óviðunandi og ekki farið eftir leiðbeiningum 

Dómkvaddur matsmaður var fenginn til að meta tjónið á fasteigninni og voru niðurstöður hans í samræmi við það sem húsfélagið hafði haldið fram.

Helstu niðurstöður matsmanns voru þær að verktaki hefði við klæðningu hússins notast við brennanlega plasteinangrun í stað steinullareinangrunar, glertrefjanet í stað stálnets og að þykkt múrskeljar væri víðast hvar of lítil. Múrkerfi hússins væri ekki hannað af viðurkenndum burðarþolshönnuði og væri í algjöri andstöðu við teikningar aðalhönnuðar sem samþykktar hefðu verið af varastefnda, Garðabæ.

Þannig þyrfti að fjarlægja allt efni klæðningarinnar og setja nýtt múrkerfi á útveggi í samræmi við samþykkta aðaluppdrætti aðalhönnuða hússins. Þá var það einnig niðurstaða matsmanns að frágangur í kringum glugga hússins væri óviðunandi. Þannig kom fram að engar þéttingar væru frá ytra byrði gluggakarma yfir á yfirborð steypu. Þannig hafi ekki verið farið eftir leiðbeiningum hönnuðar. Gluggar hefðu auk þess verið steyptir í, í stað þess að vera settir í eftir á. Þéttikant hafi alfarið vantað á samskeyti múrs og glugga sem aftur hafi leitt af sér leka. Matsmaður mat viðgerðarkostnað upp á rúmlega 190 milljónir króna.

Dómurinn mat það svo, að frádregnum nokkrum atriðum, að tæpar 162 milljónir króna væru réttmætar bætur. Þá er bankanum jafnframt gert aðgreiða húsfélaginu 4 milljónir króna í málskostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert