Bíður eftir að fá að fara heim

Talið er að í það minnsta 1.500 heimili hafa brunnið …
Talið er að í það minnsta 1.500 heimili hafa brunnið til kaldra kola í Santa Rosa AFP

„Okkur var gert að yfirgefa húsið okkar um þrjú leytið á sunnudagsnótt og höfum verið á hóteli sem er nokkuð langt frá heimilinu okkar síðan þá. Við vitum ekki enn og vonum bara að við fáum að fara heim sem fyrst,“ segir Lára Magnúsdóttir sem býr norðan við bæjarmörk Santa Rosa í Kalíforníu. 

Lára var í slæmu símasambandi þegar mbl.is heyrði í henni en fjölskyldan heldur til á hóteli í Cloverdale sem er um 50 kílómetra norður af Santa Rosa. Að sögn Láru eru brotnar gasleiðslur og rafmagnslíður út um allt og öll hótel full. „Við þurftum að ferðast frekar langt af því að það eru öll hótel full. Það eru líka langar biðraðir á bensínstöðvum en það gengur allt vel fyrir sig. Það er mikil umferð þar sem götur eru opnar og mikill reykur í loftinu,“ segir Lára. 

Staðan breytist hratt

„Þetta er allt að breytast og það er verið að loka nýjum svæðum þar sem eldarnir eru enn að breiðast út. Ég er bara alltaf að heyra af fleiri vinum sem hafa misst húsin sín,“ segir Lára. Hægt er að að fylgjast með stöðu skógareldanna á heimasíðu slökkviliðsins í Kaliforníu.

Neyðarástand

Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, lýsti í gær yfir neyðarástandi í Napa, Sonoma og Yuba sýslu og víðar en að sögn Láru þýðir það að fólk komi til með að fá aðstoð frá ríkinu. 

Þegar mbl.is náði tali af Láru var hún á leið til vinnu en hún starfar sem stjórnandi hjá fyrirtæki sem rekur tólf leikskóla á svæðinu. „Við ætlum að koma saman nokkur sem hafa tök á því til að meta aðstæður. Við þurfum að vera í sambandi og láta fólk vita af stöðunni hvað leikskólana varðar,“ segir Lára. 




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert