Skýrslan ekki stóra svarið við lyktarvandanum

Rannsókninni á lyktarvanda kísilverksmiðju United Silicon er ekki lokið.
Rannsókninni á lyktarvanda kísilverksmiðju United Silicon er ekki lokið. mbl.is/RAX

Rannsókn á lyktarvanda kísilverksmiðju United Silicon í Helguvík er hvergi nærri lokið og skýrsla NILU, norsku loftgæðastofnunarinnar, er aðeins fyrsta skrefið í því ferli segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðamálum hjá Umhverfisstofnun.

Umhverfisstofnun birti í morgun skýrslu NILU, þar sem fram kemur að um 200 efnasambönd hafi mælst í rannsókninni. Ekki sé hins vegar hægt að benda með óyggjandi hætti á að eitthvað eitt efnið hafi valdið lyktinni, en mælt er með frekari mælingum á formaldehýði og anhýdríðum.

„Þessar niðurstöður breyta því ekki að lyktin er stórt viðfangsefni og það þarf að vinna úrbótaáætlun í samræmi við það,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, sviðsstjóri hjá Umhverfisstofnun. Ákvörðun Um­hverf­is­stofn­un­ar um stöðvun rekst­urs kísilverksmiðjunar standi því óbreytt og rekstr­araðila sé ekki heimilt að end­ur­ræsa ofn verk­smiðjunn­ar nema með skrif­legri heim­ild frá stofn­un­inni að lokn­um full­nægj­andi end­ur­bót­um og ít­ar­legu mati.

Getur verið um samlegðaráhrif að ræða

„Skýrslan gefur okkur ekki stóra svarið um hvaða efni hafi valdið þessu,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðamálum hjá Umhverfisstofnun. „Við erum kannski búin að útiloka einhver efni en við erum ekki komin með endanlegt svar við hvaða efni þetta séu.“ Ekki sé heldur öruggt að einungis sé um eitthvað eitt efni að ræða, mögulega geti lyktarvandinn verið til komin vegna samlegðaráhrifa tveggja eða fleiri efna sem magni hvert annað upp. „Rannsókn á þessu er hvergi nærri lokið og þetta er í raun bara fyrsta skrefið,“ segir Þorsteinn.

Mælingar NILU byggðu á svo nefndri „wide screening“ aðferð sem er notuð til að skanna fyrir öllu mögulegu. Þorsteinn segir að að lokinni slíkri rannsókn sé mögulega hægt að beina athygli nánar að einu eða fleirum efnum sem þá séu tekin til frekari mælinga, líkt og NILU mælir með að verði gert með formaldehýð og anhýdríðum.

„Gallinn við þessa aðferð [sem beitt var] er að þá er maður ekki með góða tímaupplausn,“ segir Þorsteinn. Fyrir vikið sé ekki hægt að útiloka að styrkur efnanna hafi ekki á einhverjum tímapunkti farið upp í styrk sem valdið hafi þeim óþægindum í augum og öndunarfærum sem íbúar í Reykjanesbæ hafa kvartað yfir.

Valda ertingu sem gæti passað við lýsingu íbúa

„Sýnunum var safnað yfir rúmlega vikutímabil,“ útskýrir hann. „Þeim er safnað í lítil hylki sem safna öllu í sig frá þeim tíma sem þau eru opnuð og þar til þeim er svo lokað og þau send í greiningu. Við vitum því ekki hvort efnin voru öll að berast í hylkin yfir allt tímabilið, eða hvort einhver efni komi kannski úr einum topp sem stóð mjög stutt.“

Þá hafi einnig komið fram í skýrslu NILU að mælitækin sem stofnunin notaði ráði ekki vel við formaldehýð sem fannst við grein­ing­ar­mörk í síuhúsi (reyksíu) verksmiðjunnar, en ekki í íbúabyggð. Eru taldar ákveðnar vísbendingar um að formaldehýð gæti verið til staðar í útblæstri frá verksmiðjunni, en um er að ræða lífrænt efnasamband sem er mjög rokgjarnt.

Formaldehýð og anhýdríðum, sem NILU mældi með frekari mælingum á, eru bæði rokgjörn efni sem valdið geta ertingu í augum og öndunarfærum. „Lýsingar íbúar varðandi sviða í augum og öndunarfærum  gætu passað við einkenni frá báðum þessum efnum,“ segir Þorsteinn.

Stóri vandinn eftir sem áður sé hins vegar enn óstöðugleiki ljósbogaofns kísilverksmiðjunnar. „Þessi lykt er ekki þegar ofninn er á réttu álagi, en þegar hitastigið lækkar þá ná þessi efni ekki að brenna,“ segir Þorsteinn. „Þessi skýrsla gefur okkur ekki stóra svarið um hvaða efni hafi valdið þessu. Við erum þó kannski búin að útiloka einhver efni, en við erum ekki komin með svar endanlega hvaða efni þetta séu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert