Sakfelldur fyrir að millifæra af netbanka annars manns

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. Ófeigur Lýðsson

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær karlmann í tveggja mánaða óskilorðsbundið fangelsi og til greiðslu skaðabóta fyrir að hafa stolið 363 þúsund krónum af bankareikningi í Landsbankanum með því að millifæra í gegnum heimabanka átta sinnum inn á eigin reikning í sama banka.

Maðurinn komst inn á netbanka annars einstaklings með tölvuveiru og komst þannig yfir upplýsingar og millifærði átta sinnum 49 þúsund krónur á eigin reikning. 

Ákærði mætti ekki fyrir dóm og boðaði ekki forföll þrátt fyrir að hafa verið birt fyrirkall. Málið var því dæmt á grundvelli framlagðra gagna en samkvæmt þeim var færð fram sönnun fyrir sekt mannsins og var hann því sakfelldur samkvæmt ákærunni. Hann á að baki talsverðan sakaferil og hefur ítrekað hlotið refsingu fyrir auðgunarbrot, nú síðast 60 daga fangelsi fyrir þjófnað og akstur undir áhrifum fíkniefna og sviptum ökuréttindum. 

Við ákvörðun refsingarinnar var sérstaklega litið til þess að ásetningur mannsins var einbeittur og að um verulega fjármuni hafi verið að ræða sem ekki tókst að endurheimta. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert