Lætur lögmennina um uppsagnarfrestinn

Hvati, Logi og Rikka.
Hvati, Logi og Rikka. K100

„Ég er ekkert að fara að blanda mér í þetta,” segir Logi Bergmann Eiðsson fjölmiðlamaður um kröfu 365 miðla að hann virði uppsagnarfrest og samkeppnisákvæði í samningi hans við félagið, en tilkynnt hefur verið um ráðningu Loga til Árvakurs.

Morgunþáttur á K100

Logi mun meðal annars vinna við morgunþátt á útvarpsstöðinni K100 sem er í eigu Árvakurs, en hann var gestur Magasínsins. Í viðtali við Hvata og Rikku rifjaði Logi upp að ákvæði um uppsögn og vinnu fyrir keppinauta megi rekja til samnings sem var gerður þegar hann flutti sig frá RÚV yfir til Stöðvar 2 fyrir tólf árum.

„Þetta var ákveðin trygging á þeim tíma, svo voru settar einhverjar aðrar tryggingar og svo skrifaði maður bara undir. Ég held það reyni aldrei á svona,“ sagði Logi og bætti við að hlutir hafi tilhneigingu til að reddast.

Fjölmiðlavinnan það eina eftir Hafskip

„Þetta er það eina sem ég hef gert síðan ég hætti á kajanum hjá Hafskip þegar ég var 17 ára,” segir Logi Bergmann um fjölmiðlaferilinn sem hófst á Þjóðviljanum fyrir hátt í þremur áratugum.

Aðspurður um viðbrögð við útspili 365 miðla í dag þar sem forsvarsmenn fyrirtækisins segja hann vera með árslangan uppsagnarfrest og að auki tólf mánaða samkeppnisákvæði sem hann þurfi að virða segir Logi að fólk sé að vinna í málinu og sjálfur sé hann pollrólegur. „Það eru bara einhverjir lögmenn að skoða þetta, þeir eru örugglega á fínum launum við þetta og ég er að hugsa um að hafa það bara þannig.“

Skilur sáttur við 365

Logi segist skilja sáttur við þann góða tíma sem hann átti með frábæru fólki á 365 miðlum, honum þyki vænt um sinn fyrrverandi vinnustað. Logi telur ólíklegt að það reyni á þessi tilteknu ákvæði í samningnum og bætir við að það sé þó sannarlega ánægjulegt að fólk sjái eftir honum og segi ekki bara: „Loksins ertu farinn.”

Sjáðu viðtalið og óvænt söngatriði Loga

Að neðan má sjá viðtalið við Loga í Magasíninu á K100 þar sem hann fer yfir fjölmiðlaferilinn. Hann ræðir um upphafsárin á Þjóðviljanum og Morgunblaðinu, sjónvarpsfréttirnar, ósýnda spurningaþáttinn á Stöð 2 og útvarpsbakteríuna sem hann fékk eftir að hafa stýrt útvarpsþættinum Bakaríinu á Bylgjunni á laugardagsmorgnum með vini sínum Rúnari Frey Gíslasyni leikara.

Að endingu komu Hvati og Rikka Loga á óvart með sjaldséðri upptöku frá Eurovision keppni starfsmanna RÚV frá 1986, þar sem Logi söng ásamt fleirum lagið Gleðibankinn í keppnisbúningi ICY tríósins sem flutti lagið í söngvakeppnini það sama ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert