Mikið verk enn óunnið hjá United Silicon

Kísilverksmiðja United Silicon. Ræsa þarf verksmiðjuna á ný til að …
Kísilverksmiðja United Silicon. Ræsa þarf verksmiðjuna á ný til að hægt sé að ráðast í þær mælingar sem NILU mælir með.

Niðurstöður mælinga Norsku loftrannsóknarstofnunarinnar (NILU) á rokgjörnum lífrænum efnasamböndum vegna kísilverksmiðju United Silicon og segir í fréttatilkynningu frá United Silicon að í engum sýnum hafi efni frá verksmiðjunni mælst í skaðlegum mæli.

Alls hafi 200 efni verið mæld, en meðal þeirra 35 efna sem voru með hæst gildi hafi „ekkert þeirra verið á þeim kvarða sem þyki óeðlilegur í úthverfi eða þéttbýli.“

„Við teljum þetta mikilvægt gagn í vinnu við að koma verksmiðjunni í rekstrarhæft horf. Enn er þó mikið verk óunnið. Mikilvægast er að vera viss um að öryggi íbúa á svæðinu og starfsmanna sé ekki ógnað og er því niðurstöður mælinga sem þessara forgangsatriði. Við munum halda þeirri vinnu áfram, fyrir liggja tillögur frá NILU um frekari mælingar en það er ekki hægt að ráðast í þær nema leyfi fáist á því að ræsa verskmiðjuna á ný,“ er haft eftir Karen Kjartansdóttur, talsmanni United Silicon í fréttatilkynningunni.

Mælingarnar voru gerðar á sýnum sem tekin voru tímabilinu 21. maí til 23. júní í ár. Sýnin voru tekin í íbúðabyggð í námunda við verksmiðjuna, á lóð verksmiðjunnar og í ofnhúsi og síuhúsi verksmiðjunnar.

Í frétt Umhverfisstofnunnar um málið segir að sýn­um hafi verið safnað yfir 10 daga tíma­bil og því gefi niðurstaðan meðal­inni­hald efn­anna fyr­ir allt tíma­bilið. Styrk­ur efn­is kunni því að hafa verið hár í stutt­an tíma en lægri á öðrum tím­um.

Þá hafi kvartanir til Umhverfisstofnunar vegna lyktar verið fremur fáar á því tímabili sem sýni voru tekin í íbúabyggð.

United Silicon segir það niðurstöðu rannsókna NILU „að engin skaðleg efni finnist í sýnunum í þeim styrk að þau gætu haft skaðleg áhrif á íbúa nærliggjandi svæða„. Í samantekt með skýrslunni komi m.a. fram að „efnamælingarnar þyki dæmigerðar fyrir það sem þekkist utandyra yfir sumartíma í íbúðabyggð. Efnastyrkur í ofnhúsi var fremur lágur miðað við það sem þekkist í samskonar iðnaði.“

Í síuhúsi verksmiðjunnar hafi þó verið vísbendingar um lífrænt anhýdríð sem gæti valdið lykt og tímabundinni ertingu í öndunarvegi og augum,  en tekið skuli fram að síuhús er hluti hreinsibúnaðar verksmiðjunnar.

„Í skýrslunni kemur fram að ekki hafi reynst unnt að mæla formaldehýði á umræddu tímabili. Tekið skal þó fram að Umhverfisstofnun óskaði í sumar eftir greiningu á formaldehýði í nágrenni United Silicon og í útblæstri síuhúss fyrirtækisins ásamt mælingu á öðrum gastegundum. Umsjón mælinga var í höndum Efnagreiningar Keldnaholti/Nýsköpunarmiðstöð,“ segir í tilkynningunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert