Þroskahjálp skora á stjórnvöld

Kópavogshæli
Kópavogshæli mbl.is/Ómar Óskarsson

Landssamtökin Þroskahjálp skora á Alþingi og stjórnvöld að tryggja að fullnægjandi fjármagn verði til ráðstöfunar til að framkvæma stefnu og áætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017 - 2021 sem félags- og jafnréttismálaráðherra samþykkti í þingsályktunartillögu. Einnig er skorað á Alþingi að standa við allar skuldbindingar ríkis og sveitarfélaga samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og öðrum mannréttindasamningum. 

Þetta var á meðal ályktanna sem voru samþykktar á landsþingi Landssamtakanna Þroskahjálpar sem var haldinn 7. október. 

„Skorað er á íslensk stjórnvöld og Alþingi að taka samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í íslensk lög, án ástæðulauss dráttar og tryggja þannig að fatlað fólk njóti allra þeirra mannréttinda sem hann mælir fyrir um.“ Þetta verði gert fyrir árslok 2017 segir jafnframt í ályktuninni. 

Verða að tryggja fötluðum skólavist í framhaldsskóla

Skorað er einnig á menntamálayfirvöld að grípa án tafar til nauðsynlegra ráðstafana til að öll fötluð ungmenni sem lokið hafa grunnskóla geti nú og framvegis innritast í viðurkennda framhaldsskóla og stundað nám við þá, eins og þau eiga rétt til samkvæmt lögum. Þess er einnig krafist að atvinnutækifæri verði aukin fyrir fólk með skerta starfsgetu sem og að að úrbætur verði gerðar í húsnæðismálum fatlaðs fólks. „Ástandið í húsnæðismálum fatlaðs fólks er algjörlega óásættanlegt eins og það er í dag.“ Segir jafnframt í tilkynningu.

Sanngirnisbætur vegna Kópavogshælis

„Skorað er á Alþingi og stjórnvöld að láta tafarlaust fara fram greiningu á vistun fatlaðra barna annars staðar en á Kópavogshæli sem og á vistun fatlaðra einstaklinga sem náð höfðu 18 ára aldri þegar þeir voru vistaðir á Kópavogshæli eða á öðrum sambærilegum stöðum og tryggja að þeir einstaklingar sem í hlut eiga fái sanngirnisbætur ef niðurstaða greiningarinnar styður að það sé sanngjarnt. Landsþingið skorar einnig á stjórnvöld að fara að tillögum í skýrslu vistheimilanefndar og hrinda þeim í framkvæmd án ástæðulauss dráttar.“ Þetta kemur einnig fram í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert