Við erum að tala um fólk

Unni Krishnan Karunakara er fræðimaður við Jackson Institute for Global …
Unni Krishnan Karunakara er fræðimaður við Jackson Institute for Global Affairs við Yale og fyrrum forseti samtakanna Læknar án landamæra. Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson
Fólk á flótta er ekki eitthvað sem bara Evrópa stendur frammi fyrir heldur allur heimurinn og við megum ekki horfa á flóttafólk sem vandamál eða óskilgreindan sæg fólks (sw­arm of people - orðið sw­arm er oft notað um sveim­ur af fugl­um eða flug­um) heldur sem manneskjur sem þurfa á aðstoð að halda.
Þetta er meðal þess sem kom fram í erindi Unni Krishnan Karunakara fræðimanns við Yale-háskóla og fyrrverandi forseta samtakanna Læknar án landamæra (MédecinsSansFrontières, MSF) á alþjóðlegri ráðstefnu Höfða friðarseturs í gær.
Karunakara hefur meðal annars unnið í Eþíópíu, Azerbaijan, Bangladess og Austur-Kongó auk þess að hafa sinnt rannsóknum og kennt í fjölmörgum háskólum víða um heim. Í byrjun erindisins ræddi hann um áhyggjur sem hann hefði af stöðu mála í heiminum eftir að hafa verið Washington og á Indlandi að undanförnu. Hann var nýverið við störf í Austur-Kongó.
AFP

Hryðjuverkaógn ræður för

Hann segir mikilvægt að hafa manngæsku í huga því allir eigi sama rétt til lífs hvar sem viðkomandi býr. Í dag sé staðan sú að hryðjuverkaógn eða hræðsla við hryðjuverk er látin réttlæta mannréttindabrot víða um heim. 
Karunakara tók landamæri Evrópu sem dæmi þar að lútandi. Þar sé fólk sem er fórnarlömb hörmunga glæpavætt. Til að mynda á landamærum Bretlands og Danmörku. Þegar hann hafi unnið fyrir MSF hafi verið litið upp til ríkja Evrópu, svo sem Danmörku og Noreg, varðandi mannréttindamál en í dag er því ekki þannig farið. Stjórnvöld þessara ríkja sem og annarra á evrópska efnahagssvæðinu megi ekki gleyma því að þau eigi aðild að flóttamannasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Flóttamenn eru þeir sem sæta ofsóknum í heimalandi sínu eða eiga þar hættu á dauðarefsingu, pyntingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

Heimurinn hefur brugðist þessu fólki

„Þetta er ekki bara vandamál Evrópu heldur alls heimsins og þrátt fyrir að þetta sé að gerast í Evrópu þá tel ég að allur heimurinn hafi brugðist,“ segir Karunakara og bætir við að nausynlegt sé, ef tala eigi um frið, að veita fólki stöðu sem manneskjur ekki ópersónulegs fjölda. Því þetta sé fólk sem er að reyna að lifa af.

Ekki sægur heldur manneskja.
Ekki sægur heldur manneskja. AFP

Unni Krishnan Karunakara segir að margt hafi breyst á undanförnum árum og nefndi sem dæmi að flest þeirra ríkja sem eigi aðild að öryggisráði Sameinuðu þjóðanna taki þátt í að sprengja sjúkrahús í Sýrlandi og víðar. Stofnanir SÞ séu ekki að gegna skilgreindu hlutverki sínu og þær standi ekki vaktina fyrir mannréttindi í heiminum í dag. Genfarsáttmálinn sé virtur að vettugi og enginn bregðist við af fullri alvöru þrátt fyrir að svo sé. 

Frá sjúkrahúsinu í Kunduz
Frá sjúkrahúsinu í Kunduz AFP

Fyrir tveimur árum var sjúkrahús MSF í Kunduz í Afganistan sprengt upp af Bandaríkjaher en þar létust um 40 manneskjur. Skipti þar engu að MSF starfar án þess að taka afstöðu til stríðandi fylkinga og hafi áður notið sérstöðu fyrir hlutleysi sitt. Nú sé enginn óhultur. Flóttamenn úr hópi rohingja séu sendir aftur til Búrma af nágrannaríkjum sem þeir hafa flúið til vegna ofsókna í heimalandinu.

„Hvernig er hægt að réttlæta endursendingu rohingja til Búrma ég bara spyr?“ segir Unni Krishnan Karunakara.

Á meðan er endalaust verið að ræða viðbrögð við hinu og þessu hjá alþjóðlegum stofnunum Sameinuðu þjóðanna en ekkert gert til þess að komast að rót vandans og vinna á honum, segir hann. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert