Heimilt að innheimta gatnagerðagjald

Akureyri
Akureyri mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hæstiréttur sýknaði í dag Akureyrabæ af kröfu SS Byggir ehf. og Hálanda ehf. sem lutu að skaðabótaskyldu vegna breytinga á aðalskipulagi Akureyrar sem færðu land aðilanna inn fyrir þéttbýlismörk. 

Aðilar málsins deildu um það hvort að Akureyrarbæ hafi verið heimilt að innheimta gatnagerðargjald á grundvelli breytingar á aðalskipulagi þar sem gerð var breyting á þéttbýlismörkum bæjarins og tók gildi í apríl 2013. 

Með breytingunni féll landspilda sem SS Byggir ehf. keypti í september 2010 og seldi Hálöndum ehf. í þremur árum innan þéttbýlismarka bæjarins, en árið 2011 hafði Akureyrarbær samþykkt deiliskipulagstillögu SS Byggir ehf. þar sem gert var ráð fyrir fyrsta áfanga frístundabyggðar á spildunni. 

Í málinu krafði SS Byggir Akureyrarbæ um greiðslu tiltekinnar fjárhæðar sem nam fjárhæð þess gatnagerðargjalds sem félagið hafði innt af hendi með fyrirvara um lögmæti gjaldsins en Hálönd ehf. kröfðust þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda Akureyrarbæjar vegna tjóns félagsins sem leiddi af breytingunni á aðalskipulaginu. 

Sökuðu bæinn um misbeitingu valds.

Byggðu félögin á því að breytingin á aðalskipulaginu hefði ekki verið reist á lögmætum og málefnalegum forsendum, skipulagslegs eðlis, heldur hefði búið þar að baki misbeiting valds á grundvelli þeirrar forsendu einnar að Akureyrarbær hæti innheimt gatnagerðargjöld af félögunum og væri innheimta gjaldanna því ólögmæt.

Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að ekki væri annað í ljós leitt en að stjórnsýslumeðferð við undirbúning og samþykkt breytingarinnar á aðalskipulaginu hefði verið í samræmi við skipulagslög og ennfremur að bærinn hefði sýnt fram á að breytingin næði ekki einungis til landsvæðis félaganna heldur einnig svæða í eigu annarra þar sem til stæði að reisa frístundabyggð. Að því virtu taldi Hæstiréttur að félögin hefðu ekki sýnt fram á að breyting þéttbýlismarkanna hefði verið ólögmæt þannig að efni væru til að hnekja gildi hennar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert