Kynnir aðgerðaráætlun um kynferðisbrot

Sigríður Andersen.
Sigríður Andersen. mbl.is/Eggert

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra mun í næstu viku leggja fram aðgerðaráætlun um bætta meðferð kynferðisbrota. Þetta tilkynnti hún á málþingi á vegum Femínistafélags Háskóla Íslands í dag. 

„Aðgerðaráætlunin er afrakstur vinnu samstarfshóps sem innanríkisráðherra setti á laggirnar í mars á síðasta ári. Starfshópnum var falið að taka til skoðunar ábendingar sem hafa komið fram almennt um það sem betur má fara varðandi kynferðisbrot og leggja fram tillögur til að koma til móts við ábendingarnar. Ég er búin að fá í hendurnar drög að áætluninni en hún lítur að rannsakendum, ákæruvaldi, dómstólunum, fórnarlömbum og sakborningum,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is

Hafði hugsað sér að gefa endanlega áætlun út í nóvember

„Ég ætla að kynna drögin í næstu viku, hún verður lögð fram til umsagnar til að byrja með og síðan hafði ég hugsað mér að gefa áætlunina út í nóvember. Þá myndi hún fara í kostnaðarmat þannig að ég sá fyrir mér að það væri hægt að leggja fram endanlegt plagg í nóvember eða desember. Aðgerðirnar skiptast í tvo flokkar, annars vegar aðgerðir sem hægt verður að fara í strax þar sem að þær kosta ekki mikið og lúta að verklagi og hins vegar aðgerðir sem krefjast meiri vinnu og verður hægt að fara í á næstu árum.“

Vill skýra hlutverk réttargæslumanna

Aðspurð um það hvort að breyta þurfum lögum er varða málaflokkinn segir Sigríður að aðgerðaráætlunin snúist um aðgerðir sem hægt er að fara í innan þeirra laga sem við höfum. „Það þarf ekki alltaf að breyta lögum, en það þarf kannski að endurskoða vinnu innan laganna. Ég get tekið sem dæmi samræmt verklag við móttöku fórnarlamba á spítölum. Ég veit til þess að það er kominn vísir af slíku verklagi á neyðarmóttöku Landspítalans en ég hugsa að það sé að einhverju leyti sjálfsprottið. En það þurfa auðvitað að vera til staðar svona verkferlar á öllum heilbrigðisstofnunum landsins þannig að sama þjónusta sé veitt allstaðar. Eins mætti nefna réttargæslumenn, það er kveðið á um það í lögum að þolendur kynferðisbrota eigi rétt á réttargæslumanni en það er mismunandi hvernig störfum réttargæslumanna er háttað og það þyrfti að samræma störf þeirra og setja verklag sem þeir vinna eftir til að tryggja það að þolendur fái raunverulega eitthvað út úr því að vera með réttargæslumenn.“

Afgreiðsla kynferðisbrota allt önnur í dag en fyrir tíu árum

„Það var mikil samstaða um það á fundinum að málaflokkurinn ætti að vera í forgangi en það komu jafnframt ábendingar um að ekkert hefði gerst í málaflokknum. Það verður að hafa í huga hvað þær ábendingar varðar að það hefur orðið mikil breyting í kerfinu undanfarinn áratug og gífurleg viðhorfsbreyting. Afgreiðsla kynferðisbrota í dag er allt önnur en hún var bara fyrir tíu árum, forgangur hjá lögreglu, það er komin sérstök deild fyrir rannsókn á kynferðisbrotum sem var ekki til staðar áður og það er verið að gera mjög mikið. Menn mega ekki missa sjónar á því að það þarf líka að trygga landsbyggðina hvað þetta varðar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert