Leitar gulls og silfurs

Kaupskipið Porta, systurskip Minden.
Kaupskipið Porta, systurskip Minden.

Umhverfisstofnun hefur fengið það staðfest, frá lögmanni breska fyrirtækisins Advanced Marine Services, að fyrirtækið er á eftir gulli og/eða silfri sem það telur vera um borð í þýska flutningaskipinu SS Minden, sem liggur á sjávarbotni suður af Íslandi.

Frá þessu greinir stofnunin í skriflegu svari við fyrirspurn Fiskifrétta, en þar kemur fram að staðfestingin hafi fengist í maí síðastliðnum.

„Umbjóðandi minn telur að inni í þeim kassa sem hífður verður upp gæti verið að finna verðmæta málma, líklega gull eða silfur. Þetta muni þó ekki koma í ljós fyrr en að kassinn er opnaður,“ segir í svari lögfræðings AMS til Umhverfisstofnunar og er dagsett 23. maí.

Frestur til athugasemda runninn út

Fiskifréttir greina enn fremur frá því að enginn þeirra umsagnaraðila, sem Umhverfisstofnun leitaði til, sér nokkra meinbugi á því að AMS verði veitt starfsleyfi og geti því fjarlægt verðmæti úr skipinu.

Slík beiðni mun hafa verið send meðal annars á Landhelgisgæsluna, Minjastofnun Íslands, Samgöngustofu, Hafrannsóknastofnun og utanríkisráðuneytið.

Frestur til athugasemda er nýrunninn út og þykir því líklegt að fyrirtækið fái, að öllu óbreyttu, leyfi til að fjarlægja kistuna úr póstherbergi skipsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert