Pírati mætir með lepp í kappræður

Eva Pandóra Baldursdóttir með leppinn.
Eva Pandóra Baldursdóttir með leppinn. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta er ekki grín. Þetta gerðist í alvörunni,“ segir Eva Pandóra Baldursdóttir, oddviti Pírata í Norðvesturkjördæmi, sem mætir með lepp í sjónvarpsumræður leiðtoga í Norðsvesturkjördæmi á Stöð 2 í kvöld. Eva greinir frá því á Facebook að hún sé með leppinn að læknisráði.

Þannig var að dóttir hennar kastaði upp í rúmið sitt í fyrrinótt svo Eva ákvað að leyfa henni að gista uppi í hjónarúminu það sem eftir lifði nætur.

„Við tókum hana upp í til okkar. Svo var hún að baða út höndunum þannig að hún klóraði mig þvert yfir augað,“ útskýrir Eva í samtali við mbl.is.

Hún þarf fyrir vikið að vera með sáraumbúðir á auganu fram að helgi, og lepp að auki, til að vernda það. Hún segist þó ekki hafa áhyggjur af sjóninni, enda hafi hornhimnan sloppið. Hún muni hins vegar fylgja ráðum læknis.

Eva sér kómísku hliðina á atvikinu enda er augnleppur, rétt eins og páfagaukur og staurfótur, eitt af einkennismerkjum sjóræningja – pírata. „Þetta er svo sannarlega kómískt. Ég vissi ekki hvort ég ætti að hlægja að gráta,“ segir Eva hlægjandi við mbl.is, og hefur greinilega gert það upp við sig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert