„Staðráðin í að ná enn betri árangri“

Fullt hús var á rakararáðstefnunni í Kaupmannahöfn.
Fullt hús var á rakararáðstefnunni í Kaupmannahöfn. Ljósmynd/Utanríkisráðuneytið

Ísland, í samstarfi við Norrænu ráðherranefndina og UN Women, stóð að fjölmennri rakarastofuráðstefnu í Kaupmannahöfn í dag og opnaði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra ráðstefnuna sem fór fram hjá Sameinuðu þjóðunum í Kaupmannahöfn. 

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins.

Þar segir, að utanríkisráðherra hafi sagt að það væri bæði sjálfsagt og ánægjulegt að hvetja karla hvarvetna til að taka þátt í umræðu og hugarfarsbreytingu í þágu kynjajafnréttis og vekja athygli á þeim góða árangri sem náðst hefur á Íslandi, samfélaginu öllu til hagsbóta.

„Norrænu ríkin eru leiðandi á heimsvísu þegar kemur að jafnréttismálum. Við þekkjum það frá fyrstu hendi að aukin virðing fyrir réttindum kvenna og aukin þátttaka þeirra á vinnumarkaði eiga stóran þátt í þeirri velferð sem á svæðinu ríkir. Við erum enn staðráðin í því að ná enn betri árangri en lokatakmarkið er ekki að leiða áfram heldur að öll ríki heims nái fram jafnrétti kynjanna,“ er haft eftir Guðlaugi Þór.

Ísland hefur fengið það hlutverk að leiða fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar verkefni um karla og jafnrétti. Markmið verkefnisins er að standa fyrir svokölluðum rakarastofuráðstefnum á vettvangi norræns samstarfs til að virkja karla í baráttunni fyrir auknu jafnrétti kynjanna. Áður hefur Ísland staðið fyrir rakarastofuráðstefnum í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York og Genf, hjá NATO og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu enda er það markmið íslenskra stjórnvalda að halda slíkar ráðstefnur í öllum helstu alþjóðastofnunum sem Ísland á aðild að. Ráðstefnurnar sækja menn og konur í áhrifastöðum sem geta haft áhrif á viðamiklar ákvarðanir á vettvangi alþjóðamála en þar hallar mjög á konur og því þarf að breyta, að því er segir á vef ráðuneytisins. 

Nánar hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert