4 vikna varðhald vegna hnífstunguárásar

Maðurinn er sagður vera á góðum batavegi.
Maðurinn er sagður vera á góðum batavegi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Einn maður er nú í gæsluvarðhaldi vegna hnífstunguárásar í Æsufelli í Breiðholti á þriðjudagskvöld í síðustu viku. Alls hafa þrír setið í varðhaldi vegna málsins, en tveimur mönnum hefur nú verið sleppt. Sá þriðji, sem handtekinn var síðastur þremenninganna, var í gær úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns hjá greiningadeild Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

„Við teljum okkur búna að upplýsa málið að stórum hluta, en rannsókn er þó ekki lokið,“ segir Grímur og kveður mennina tvo sem sleppt hefur verið hafa verið ágætlega samstarfsfúsa. Tvímenningarnir voru báðir úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald á miðvikudaginn í síðustu viku, en sá sem enn er í haldi var handtekinn síðasta föstudag.

Mennirnir eru ungir að árum, en hafa áður komið við sögu lögreglu þó ekki vegna mála sem þessara, en hnífsstungan er rannsökuð sem manndrápstilraun.

Sá sem fyrir stungunni varð gekkst strax undir aðgerð og var ekki í lífshættu að henni lokinni. Hann er nú á góðum batavegi, að sögn Gríms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert