Öllum boðið í Eldborg

Bergþór Pálsson heldur upp á afmælið sitt í Eldborg.
Bergþór Pálsson heldur upp á afmælið sitt í Eldborg. Kristinn Magnússon

„Þegar ég varð fimmtugur var veislan í Salnum í Kópavogi, en skemmtiatriðin fólust í því að ýmsir söngvinir mínir komu og tóku með mér dúetta. Margir höfðu á orði að þetta þyrfti að endurtaka á opinberum vettvangi. Þá strax ákvað ég að biðja vini mína að gera þetta aftur með mér á sextugsafmælinu og bjóða öllum vinum mínum í veisluna, líka þeim sem ég þekkti ekki vel,“ segir Bergþór Pálsson söngvari sem verður sextugur 22. október næstkomandi. 

Það er alveg í hans anda hvernig hann ætlar að halda upp á sextugsafmælið sitt; hann býður á tónleika í Hörpu, sjálfri Eldborg en hann segist þannig vilja þakka þjóðinni fyrir síðastliðin þrjátíu ár. „Ég hefði gjarnan viljað vera í Egilshöll, en svo fannst mér meira við hæfi að vera í Eldborg. Fjörið verður sunnudaginn 22. október, kl. 16, á afmælisdeginum en miðarnir hurfu á nokkrum mínútum. Það væri kannski ágætt að biðja þá sem náðu í miða að láta vita í miðasölu Hörpu ef eitthvað kemur upp á sem veldur því að þeir geti ekki notað miðana. Það væri leitt ef einhver sæti væru auð, fyrst svo margir vildu koma,“ segir Bergþór en í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem birtist um helgina fer Bergþór yfir líf og störf.

Undirrituð var 13 ára þegar hún heyrði Bergþór Pálsson fyrst syngja og það er satt best að segja mjög eftirminnilegt. Bergþór kom í skólann til að kynna Mozart fyrir gagnfræðaskólanemum og allur gangur getur verið á því hvort slíkar kynningar halda nemendum og falla í kramið. Það sem gerðist var að Bergþór fékk unglingadeild eins stærsta grunnskóla Reykjavíkur alla með sér; hálfvaknaðir unglingar töluðu eftir á um ótrúlega skemmtilega söngvarann með útgeislunina. Þetta var nýlega eftir að Bergþór kom heim eftir að hafa sungið í Þýskalandi í um þrjú ár. Síðan eru liðin 27 ár en Bergþór varð á þessum tíma fljótlega þjóðþekkt andlit og hefur alla tíð vakið athygli fyrir söng sinn en ekki síður hvernig hann fær fólk með sér og nær til áhorfenda. 

Bergþór Pálsson.
Bergþór Pálsson. Kristinn Magnússon


Það er þriðjudagur, pása á milli kennslu og æfinga á Toscu, sem frumsýnd er í Íslensku óperunni daginn fyrir stórafmælið, en þar fer Bergþór með hlutverk Sagrestanos. Nú býður Bergþór upp á kaffi og sætabrauð í stofunni sinni í Skuggahverfinu, sem sökum flygils, konunglegra rauðra gluggatjalda, kristals og málverka minnir á salarkynni í lítilli höll. Þessi blettur þarna á Lindargötu er líka svolítið „erlendis“, hinum megin við húsið er til dæmis danska sendiráðið og talið berst að því að Bergþór syngur alltaf í jólamessu fyrir Dani búsetta hérlendis í Dómkirkjunni og syngur þar jólasálmana, að sjálfsögðu á dönsku.
„Þetta er svo erfitt tungumál, maður veit aldrei hvort maður á að segja a, e eða ö. Ég syng þarna sálm sem er reyndar skírnarlag á Íslandi, Ó blíði Jesú blessa þú, en þeir eru með það sem jólasálm. Þar er sungið um Jesú sem fór ýmist í kofa og hallir því hann fór náttúrlega ekki í manngreinarálit. Og ég syng þarna um Jesú sem til „lave hytter steg“ og ber fram sem „stæj“. Eitt skiptið komu tvær gamlar konur til mín á eftir og sögðu: Bergþór minn, þetta var mjög fallegt hjá þér. En sko, Jesús, hann er ekki steik!“ Núna syng ég þetta alltaf rétt; sti, og sé þær tvær þá niðri líta upp og senda mér þumalinn upp, ánægðar með mig.“
Bergþór og Albert Eiríksson hafa verið saman frá 1989 en nú er Albert í London á enskunámskeiði sér til gamans. Bergþór segir að þetta sé sniðugt og vel skipulagt hjá Alberti að velja akkúrat þennan tíma; síðustu tvær vikurnar fyrir frumsýningu séu hálfbrjálaðar og Albert geti því haft það náðugt meðan Bergþór er á þönum. Raunar er húsið á Lindargötu svolítið fjölskylduhús; á efri hæðinni býr Bragi sonur Bergþórs með fjölskyldu sinni og þar eru tvö barnabörn, tíu og sex ára. Samgangurinn er mikill og börnin koma niður og kalla „afi og afi“.

Kynntust á Hverfisgötunni 

Þið Albert virðist vera mjög samrýndir, gleði í kringum ykkur og fólk sækir í félagsskap ykkar. Sumir vildu ykkur hér um árið jafnvel á Bessastaði. Hvert er límið í sambandinu og hvernig kynntust þið?
„Þegar ég tala mikið segir Albert stundum í gríni að ég sé konan í sambandinu, en þegar við erum að ferðbúast og ég bíð eftir honum segi ég að hann sé konan í sambandinu. Þetta er auðvitað tómt bull, enda erum við bara tveir gaurar, að mörgu leyti líkir en samt ólíkir. Hann hefur gott nef fyrir því að lifa lífinu lifandi og ég held að ég fylgi meira í kjölfarið í uppátækjum hans. Við kynntumst á Hverfisgötunni, þar sem ég var að bíða eftir því að komast yfir götuna. Það er gott dæmi um hvað hann er laus við að vera óframfærinn, að hann sagði einfaldlega: „Nei sko, er þetta ekki Bergþór Pálsson? Mig hefur alltaf langað til að kynnast þér.“ Ég held að ég hafi vitað samstundis að þarna var kominn maður sem mig langaði að deila lífinu með. Að minnsta kosti hef ég setið uppi með hann!
Albert hefur sérstakt lag á því að gera lífið skemmtilegt og lifa því lifandi, elskar að tala við fólk og skemmta því. Þrátt fyrir að vinda sér svona að mér hafði Albert ekki einu sinni farið á tónleika með mér. Þannig að það hófst mikil uppfræðsla í klassísku tónlistinni. Ég fór með hann á nútímatónleika, sem voru reyndar þrír tímar, fljótlega eftir að við kynntumst. Eins og gengur á nútímatónleikum voru tónar á stangli úti um allt, uppi og niðri til skiptis, og Albert skrifaði á prógrammið: „Bergþór, þetta eru leiðinlegustu tónleikar sem ég hef farið á.“ Hann sagðist ætla að vera heima að hlusta á ABBA næst þegar ég færi á nútímatónleika. 
Það er talsvert meiri fart á Alberti en mér; ef hann sér einhverja eyðu í dagbókinni tilkynnir hann mér að þarna sé tilvalið að fá þennan eða hinn í kaffi. Ég segi bara jájá. Sameiginlegi grundvöllurinn er hvað okkur finnst gaman að fá fólk í veislur, undirbúa viðburði, búa til mat og stemningu.“

Bergþór Pálsson.
Bergþór Pálsson. Kristinn Magnússon


Hvernig umhverfi ólstu upp í? Hvað hafði mótandi áhrif á þig í æsku?
„Ég var svo heppinn að búa við mikið ástríki og umhyggju í uppvexti, ekki bara af því að ég átti bestu mömmu og pabba í heimi heldur tengdist ég líka ömmu minni sterkt og mínar bestu stundir voru að stússa í eldhúsinu hjá henni, búa til kakó, kveikja á kerti og spjalla svo um landsins gagn og nauðsynjar. Oft finnst mér ég heyra hana hvísla að mér: Hóf er best í öllu, vinur minn. Það hafði mikil áhrif á mig að hún umgekkst mig eins og fullorðna manneskju í samtali. Seinna hafði ég mjög gaman af að keyra hana í efnabúðir og fylgjast með því hvernig hún handlék efnin af tilfinningu.“
Hljómar eins og hjá blóma í eggi!
„Ég bjó við mikið öryggi og það voru sérstök forréttindi. Ég var yngstur þar að auki. Mamma sagði alltaf: „Það er alveg nægur tími til að kynnast því hvað veröldin getur verið vond.“ Það er að mörgu leyti jákvætt; að kynnast því þegar maður er kominn með nægilegan þroska til þess.“
Bergþór ólst upp í Hlíðunum en foreldrar hans eru Páll Bergþórsson fyrrverandi veðurstofustjóri og Hulda Baldursdóttir, læknaritari og veðurstofuritari. Páll er nú 94 ára en Hulda lést fyrir fjórum árum.
Var aldrei spurning að feta í fótsporin og verða veðurfræðingur?
„Ég var mikið með pabba og fór með honum í vinnuna, fékk að teikna þrýstilínur og svona og ósjaldan heyrðist: „Verður hann ekki veðurfræðingur þessi?“ Mér fannst pabbi hins vegar verða svo oft fyrir óvæginni gagnrýni að ég lagði ekki í það að verða veðurfræðingur. „Þeir spá alltaf vitlaust þessir veðurfræðingar,“ var viðkvæðið og fáir gerðu sér grein fyrir hvað þetta voru stór spásvæði og erfiðara í þá daga að vinna með spárnar. En ég hafði áhuga á náttúrunni, keypti mér bók um íslenskar lækninga- og drykkjarjurtir og lá í Elliðaárdalnum og rannsakaði.“

Tók ekki eftir því sem lá fyrir

Kom þá fljótt í ljós að tónlistin var þín hilla?
„Það lá alveg ljóst fyrir þótt ég tæki ekki eftir því. Ég leit á þetta sem tómstundagaman og hélt því að það gæti varla verið framtíðarstarf. Ég held því að ungt fólk ætti einmitt að taka eftir því hvað það sækir í, hvað því finnst gaman. Það sem brennur á manni er yfirleitt rétta hillan og oft miklu augljósara en við gerum okkur grein fyrir. En talandi um áhrifavalda og það sem mótar mann þá hefur allt samferðafólk vissulega haft áhrif á mig, mismikil. Í tónlistinni held ég að mitt fyrsta átrúnaðargoð hafi verið píanóleikarinn Svjatoslav Richter. Þegar ég komst í kynni við Vald örlaganna með Renötu Tebaldi og Franco Corelli vissi ég að þetta var heimur sem átti hug minn allan. Halldór Hansen, barnalæknir og mannvinur, lét sér annt um unga söngvara og hann var mikill áhrifavaldur, enda var hægt að drekkja sér hjá honum í 10.000 platna safni. Þar átti ég margar tónlistarstundir og svo var alltaf kaffi með rjóma og dönsk formkaka úr Víði.
Svo fór ég í tíma til Sigursveins D. Kristinssonar sem stofnaði tónskólann sinn og hann hafði líka mjög mikil áhrif á mig. Þar var ég í tímum þar sem tónfræði, hljómfræði, tónheyrn, hljómborðsleikur og lestur af blaði var sett saman í einn tíma. Við útsettum og sungum í röddum og þetta hafði þau áhrif á mig að mér fór að finnast svo auðvelt að setja tónlistina í samhengi, hvernig hún er búin til, og það efldi mjög áhuga minn. Ég settist alltaf strax við píanóið þegar ég kom heim úr tímunum og var byrjaður að syngja í röddum eitthvað, upp úr fjárlögunum eða hvað sem var, og svo söng ég dúetta með sjálfum mér, spilaði á fiðluna eina rödd og söng hina.“ 

Hefurðu almennt gaman af því að hafa áhrif á fólk og hugsarðu mikið um það í vinnu þinni?
„Það er svo merkilegt að í mér búa tveir persónuleikar. Í mér bærist íhugull, feiminn, varfærinn hæglætismaður – stundum óttast ég sviðið skelfilega, þó að sá ótti hafi vissulega þynnst út með reynslu – og hins vegar svokallað sviðsdýr og það kemur reyndar fyrir að dramað brýst út í einkalífinu. En þegar ég er kominn upp á svið er eins og lifni við einhver persóna sem þykir óumræðilega vænt um fólkið í salnum. Mig grunar að það sé lykillinn í þessu öllu saman. Það skiptir ekki máli hvort um er að ræða grín eða hlutverk illmennis; þessi innsýn í margslungnar víðáttur mannlegs eðlis, sem ég fæ að deila, er mér innblástur og verkar á mig eins og orkuhringrás. Eftir því sem lifi mig betur inn í verkefnið eykst mér þróttur. Kannski er ég næmur á fólk, en mér finnst þessi þróttur alltaf koma frá áhorfendum.“

Viðtalið birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »