Náttúran njóti vafans

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, á Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu. mbl.is/Hanna

Bjarni Benediktsson flutti í morgun ræðu við opnunarathöfn Arctic Circle fyrir fullum sal í Silfurbergi Hörpu. Bjarni byrjaði ræðu sína á að þakka Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir frumkvæðið að Arctic Circle og þrotlausa vinnu við ráðstefnuna undanfarin ár. „Við vitum það öll að loftslagsbreytingar eru áskorun sem virðir ekki landamæri eða fullveldi ríkja. Við vitum það einnig að það getur ekkert eitt ríki barist við loftslagsbreytingar heldur þarf til þess alþjóðlegt samstarf.“

Forsætisráðherrann vísaði til þess að stórum áfanga hefði verið náð þegar Parísarsáttmálinn var samþykktur og að stefnt væri að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda um 30% fyrir árið 2030. Ísland væri nú þegar leiðandi á sviði endurnýjanlegrar orku, sérstaklega hvað varðar hitun húsa, en við gætum gert betur í mengunarmálum, til að mynda varðandi orkugjafa farartækja. Þá sagði Bjarni að stefnt væri að því að innleiða Parísarsáttmálann á metnaðarfullan hátt.

Frétt mbl.is: Bjarni ræddi við Sé­golè­ne Royal

Mikilvægt að huga að jafnvægi

Bjarni vísaði jafnframt til þess að Ísland fyndi nú þegar fyrir loftslagsbreytingum, til dæmis væru jöklarnir að hopa og ísinn á landinu gæti horfið á næstu hundrað árum ef ekkert yrði að gert. Þó væri ekki víst að verstu afleiðingar loftslagsbreytinga væru komnar fram og því væri afar mikilvægt að bregðast við. Bráðnun íss og hækkandi yfirborð sjávar gæti haft áhrif á alla jörðina með breyttum vistkerfum og alvarlegum náttúruhamförum. „Nýjar spurningar hafa vaknað varðandi nýtingu náttúruauðlinda og skipaleiða sem hafa opnast svo fátt eitt sé nefnt. Eitt stærsta verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er að ná jafnvægi á milli verndunar náttúrunnar og nýtingar náttúruauðlinda án þess að skerða gæði náttúrunnar, viðkvæm vistkerfi og lífsgæði frumbyggja og annarra þjóðflokka á norðurslóðum. Við þurfum að nálgast málefnið á metnaðarfullan hátt en um leið verðum við að leyfa náttúrunni að njóta vafans við ákvarðanatöku.“

Að lokum gerði Bjarni formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu að umfjöllunarefni og sagði að hagsmunir Íslands á norðurslóðum væru margvíslegir. Ríkisstjórnir undanfarinna ára hefðu nú þegar hafið undirbúning að formennskunni og greint helstu atriði sem Ísland mun leggja áherslu á í ráðinu.

Frétt mbl.is: Und­ir­bún­ing­ur haf­inn und­ir for­mennsku í Norður­slóðaráði

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert