Niður Þjórsár myndi hljóðna

Náttúrufræðingurinn Anna Sigríður Valdimarsdóttir skammt frá þeim stað í Þjórsá …
Náttúrufræðingurinn Anna Sigríður Valdimarsdóttir skammt frá þeim stað í Þjórsá þar sem inntakslón Hvammsvirkjunar yrði. Hekla skartar sínu fegursta í baksýn. mbl.is/Golli

„Eitt það fallegasta sem ég veit er að vera hér við bæinn og heyra niðinn úr Þjórsá,“ segir Anna Sigríður Valdimarsdóttir sem býr að Stóra-Núpi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. „Það er svo róandi, upplífgandi og gefandi.“

Með Hvammsvirkjun, sem fyrirhugað er að byggja í ánni skammt frá bænum, mun þessi niður hljóðna. „Já, ég veit að ég get verið væmin en ég er nú samt enginn kjáni,“ segir hún og brosir í fallega haustveðrinu í sveitinni sinni. „Ég er að berjast gegn virkjuninni því hér þekki ég vel til og hef kynnt mér málið mjög ítarlega í mörg ár.“

Anna Sigríður býr ásamt stórfjölskyldunni að Stóra-Núpi. Þar er hún uppalin og þó að hún hafi búið um skemmri tíma annars staðar segir hún Stóra-Núp ávallt hafa verið sitt heimili. „Ræturnar mínar eru mjög sterkar og hér líður mér alltaf best,“ segir hún.

„Þangað til ég vissi betur“

Líkt og margir aðrir íbúar Skeiða- og Gnúpverjahrepps vann Anna áður hjá Landsvirkjun í sumarvinnu. Fyrirtækið hefur lengi verið með mikla starfsemi á svæðinu, m.a. vegna Búrfellsvirkjunar. Hún vann um tíma meðal annars við að kynna Kárahnjúkavirkjun sem hluta af stöðvakynningum á Þjórsársvæðinu. „Á ákveðnum tímapunkti var ég nokkuð jákvæð fyrir henni. Þangað til að ég vissi betur. Þetta er alltaf spurning um hvaða upplýsingar maður hefur til þess að taka ákvörðun og mynda sér skoðun. Til að svo megi verða mega upplýsingarnar ekki vera einhliða.“

Anna Sigríður er náttúrufræðingur að mennt og í því námi öðlaðist hún meiri skilning á mikilvægi náttúrunnar og vistkerfum hennar. „Það breytti afstöðu minni verulega.“

Frá túninu heima við bæinn Stóra-Núp má heyra í Þjórsá …
Frá túninu heima við bæinn Stóra-Núp má heyra í Þjórsá ærslast um flúðirnar í fjarska. mbl.is/Golli

Og hver er afstaða hennar til virkjanaframkvæmda í dag?

„Mér finnst komið nóg af virkjunum almennt. Við þurfum að draga skýrar línur einhvers staðar og það er núna. Stefna síðustu áratuga hefur hamlað annarri þróun hér í sveitinni og víðar. Við höfum lengi getað reitt okkur á virkjanirnar og á meðan erum við ekki að leita á önnur mið.“ Hún bendir einnig á að orkuvinnsla sé öll í þróun og mótun þessi árin. „Og við erum farin að ganga ansi djarflega á þessa möguleika sem framtíðarkynslóðir gætu haft áhuga og þörf á að nýta á annan hátt en nú er gert.“

Virkjanaáformin tekið breytingum

Á annan áratug hefur Anna barist gegn fyrirhuguðum virkjunum í Þjórsá. Hún er 36 ára í dag og hefur baráttan því varað stóran hluta ævi hennar. „Vissulega tengist barátta mín að ákveðnu leyti búsetu minni hér. En ég er líka í þessu út af náttúruverndar- og menningarlegum sjónarmiðum. Ég styð baráttu þjáningarsystkina minna víðar um landið en ástæðan fyrir að ég beini sjónum mínum að fyrirhugaðri Hvammsvirkjun er að hér þekki ég best til.“

Frá því snemma á fyrsta áratug aldarinnar voru hugmyndir uppi um svokallaða Núpsvirkjun, sem samanstóð í raun af Hvamms- og Holtavirkjun, auk Urriðafossvirkjunar í neðri hluta Þjórsár. Umhverfismat á þeim virkjanakostum var gert árið 2003. Mikil andstaða var við hugmyndirnar og árið 2013 voru allir þessir kostir settir í biðflokk rammaáætlunar um nýtingu og vernd lands og auðlinda.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

„Ég tel að virkjanirnar hafi verið færðar í biðflokk til að koma að einhverju leyti til móts við þá gagnrýni sem hafði komið fram nokkrum árum áður,“ segir Anna.

Árið 2015 var hins vegar Hvammsvirkjun, ein þriggja virkjana sem umhverfismatið náði til, sett í nýtingarflokk.

Lítil þekking á orkuframleiðslu í byggð

Anna telur að fólk sé of gjarnt á að samþykkja að þörf sé á virkjunum eða öðrum framkvæmdum. „Það virðist vera sem að við séum ekki nógu dugleg að gagnrýna það sem sett er fram, hvort sem það varðar orkumál eða annað.“

Hún segir því að farið sé af stað með sum verkefni án þess að aðrar leiðir, t.d. að draga almennt úr neyslu og orkufrekum iðnaði, séu skoðaðar.

Lítil reynsla og þekking er að mati Önnu Sigríðar á áhrifum orkuframleiðslu niðri í byggð. „Þó að fólk búi ekki alveg við stíflugarðinn eða mannvirkin þá hefur þetta klárlega áhrif á fólk og sálarlíf þess.“ Sjálf segir hún sárt til þess að hugsa að þurfa mögulega að fá virkjun í túnfótinn á bænum.

Rannsakaði hina einstöku Viðey

Lónið sem myndast verði Hvammsvirkjun byggð verður 4 km2 að stærð. Stíflan yrði reist rétt fyrir ofan Viðey, gróinn hólma í Þjórsá sem nýtur nú verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. Anna fékk það starf í tengslum við lokaverkefni sitt í háskóla að kortleggja gróðurfar hólmans en þar má finna sjaldgæfar plöntur á landsvísu sem og náttúrulegan birkiskóg. Hvorki menn né dýr mega dvelja í hólmanum af verndarsjónarmiðum. Verði stíflan reist mun rennsli í kringum Viðey minnka verulega hluta árs. Þá verður auðveldara að fara út í hana. Landsvirkjun segir að girt yrði í kringum Viðey til að hefta umferð manna og dýra. Náttúrufræðingurinn Anna hefur þó ekki aðeins áhyggjur af slíkum ágangi. „Þetta kann að hafa í för með sér breytingu á framburði í ánni og grunnvatnsstöðu fyrir neðan stíflu. Slíkt gæti haft áhrif á þann merkilega og fágæta gróður sem er að finna í Viðey.“

Áður hafi mikið verið virkjað á hálendinu eða í jaðri þess en með Hvammsvirkjun yrði virkjað í blómlegri byggð. Sömu rökin gegn framkvæmdunum eigi því ekki alltaf við en markmiðið er það sama: Að skoðað verði frá öllum hliðum hver áhrifin verði, til skamms eða langs tíma og hvort þörfin sé raunveruleg, hvort sem gengið er á ósnortin víðerni eða gróin svæði í byggð.

Ójafnt gefið

Að mati Önnu er sérstaklega mikilvægt að fólk geti nálgast allar upplýsingar um virkjanaáform, ekki aðeins þær sem framkvæmdaaðili setur fram og kynnir. En ójafnt sé gefið hvað það varðar. Orkufyrirtækin séu öflug, bæði hvað varðar fjármagn og mannafla, en slíku sé ekki að fagna hjá þeim sem leggjast gegn frekari framkvæmdum fyrirtækjanna. „Við sem stöndum í þessari baráttu höfum engan veginn sama bolmagn og framkvæmdaaðilar. Við erum að harka mikið, þetta er mikil vinna og hún tekur mikið á.“

Viðey er gróin eyja í Þjórsá sem nýtur sértakrar verndar …
Viðey er gróin eyja í Þjórsá sem nýtur sértakrar verndar vegna náttúrufars. Hún yrði neðan stíflu Hvammsvirkjunar og vatnsrennsli í kringum hana myndi minnka verulega. mbl.is/Golli

Þúsundir blaðsíðna af skýrslum hafi verið lesnar og tugum athugasemda skilað inn í öllu ferlinu. Þegar ákveðnum stað í því sé náð komi svo yfirleitt eitthvað nýtt upp sem þurfi að skoða gaumgæfilega og svara. „Þetta er einfaldlega ósanngjarnt. Það á ekki aðeins við núna, þannig hefur það verið í gegnum áratugina.“

Nokkrir íbúar hreppsins hafa stigið fram fyrir skjöldu og barist gegn fyrirhugaðri virkjun. Fleiri eru á sömu skoðun en margir leggja einfaldlega ekki í baráttuna. Hún tekur tíma og getur verið hatrömm. „Ég barma mér ekki yfir þessu. Ég ræði þetta oft og við marga, ekki vegna þess að mér finnist það gaman heldur af því að það er nauðsynlegt. En það er rosalega sorglegt að heyra að fólk þurfi að sætta sig við persónulegar árásir og jafnvel upplifa sig útskúfað úr samfélaginu.“

Anna hefur farið á marga fundi, m.a. með ráðamönnum, til að koma sjónarmiðum sínum og annarra andstæðinga virkjunarinnar á framfæri. Hún segist oftast fá áheyrn en að þó sé ekki beinlínis hlustað eða tekið tillit til athugasemdanna. Sjónarmiðin njóti þó stuðnings meðal margra í sveitinni og einnig á landsvísu. Gagnrýnin hefur m.a. verið á þann veg að andstæðingar virkjana í Skeiða- og Gnúpverjahreppi séu aðeins að hugsa um eigin hagsmuni og þá hagsmuni fárra. „Þó að við séum ef til vill ekki stór hópur sem erum í framlínunni í baráttunni þá erum við fulltrúar fleira fólks sem treystir sér ekki, eða hefur einfaldlega ekki tíma, til að taka slaginn,“ segir Anna. „Og hér þekkjum við einfaldlega vel til og þess vegna berjumst við.“

Getur ekki staðið hjá

 Ertu bjartsýn á að barátta ykkar skili þeim árangri að ekki verði virkjað?

„Ég er hæfilega bjartsýn,“ segir Anna og bætir ákveðin við: „Það hefði aldrei komið til greina annað en að taka þátt í þessari baráttu og tjá skoðanir mínar. Ég hefði aldrei getað fyrirgefið sjálfri mér það að hafa ekki reynt. Ég hef einbeitt mér að því að vera málefnaleg í mínum málflutningi og tel mér oftast hafa tekist það vel. Ég get ekki staðið hjá og beðið eftir því að einhver annar taki slaginn eða horft upp á að enginn geri það.“

Mörg ár eru síðan Anna Sigríður vann við það að kynna framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Hefur umræðan um virkjanir og skoðanir fólks almennt breyst frá þeim tíma?

„Ég hef breyst og mínar skoðanir,“ byrjar hún á að svara. „Ég held að það hafi líka orðið ákveðin breyting almennt. Við erum kannski orðin örlítið meðvitaðri um að stjórnvaldsákvarðanir um byggingu virkjana eða álvera eða hvað það nú er séu ekki eitthvað náttúrulögmál. Þeim er hægt að andmæla og fá jafnvel breytt. En mér finnst við sem samfélag enn stundum gleyma því, og þar er ég ekkert undanskilin, að við erum að tala um takmarkaðar auðlindir og oftast framkvæmdir sem eru óafturkræfar. Það mun koma að því að við rekum okkur rækilega á það og slíkt er þegar tekið að gerast. Það er þægilegt að afneita því en við græðum alls ekkert á því.“

Inntakslónið sem þarf fyrir Hvammsvirkjun yrði 4 ferkílómetrar að stærð. …
Inntakslónið sem þarf fyrir Hvammsvirkjun yrði 4 ferkílómetrar að stærð. Með því myndu eyjar, hólmar og flúðir í ánni fara á kaf. mbl.is/Golli

Loka iðjuverum frekar en að fjölga þeim

Það myndi engu breyta um afstöðu Önnu Sigríðar til virkjunarinnar ef tryggt yrði að orkan færi ekki til stóriðju. Hún segir látið eins og stóriðjan sé einhver fasti sem þurfi alltaf að vaxa. „Er ekki alveg jafneðlilegt og líklegt að við förum að loka iðjuverum frekar en að fjölga þeim? Þá væri hægt að byggja upp aðrar atvinnugreinar og sækja orkuna sem stóriðjan notaði.“

Anna er einnig óróleg vegna framhaldsins, verði Hvammsvirkjun að veruleika. Fólk hafi áhyggjur af því  að hún yrði aðeins fyrsta skrefið í virkjanasamstæðu í neðri hluta Þjórsár. „Þetta óttumst við að muni gerast en hvort sem það er hugmyndin eða ekki þá á ekki að reisa Hvammsvirkjun. Mér finnst komið gott af virkjunum yfir höfuð, hvort sem það er hér í anddyri hálendisins, eða annars staðar.“

Hún minnir á að aðeins nýverið hafi Búðarhálsvirkjun verið tekin í gagnið og Búrfell II sé í byggingu. „Þarf að reisa Hvammsvirkjun? Einhvers staðar verðum við að draga mörkin.“

mbl.is