Sinnum með réttarstöðu sakbornings

Hjúkrunarfyrirtækið Sinnum er með réttarstöðu sakbornings í máli Ellu Dísar …
Hjúkrunarfyrirtækið Sinnum er með réttarstöðu sakbornings í máli Ellu Dísar Laurens, átta ára stúlku sem lést árið 2014. Málið er komið til embætti Héraðssaksóknara. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Hjúkrunarfyrirtækið Sinnum er með réttarstöðu sakbornings í máli Ellu Dísar Laurens, átta ára stúlku sem lést árið 2014. Þetta staðfestir Kolbrún Benediktsdóttir varahérasaksóknari við mbl.is, en málið barst embætti Héraðssaksóknara í gær að lokinni rannsókn lögreglu.

Áður hefur verið greint frá því að starfsmaður Sinnum hefði réttarstöðu sakbornings í rannsókn lögreglu á málinu.

Ella Dís var átta ára göm­ul þegar hún lést eft­ir að hafa orðið fyr­ir heilaskaða í um­sjón fyr­ir­tæk­is­ins. Það var Reykja­vík­ur­borg sem keypti þjón­ust­una af Sinn­um, en borg­in hef­ur ekki skipt fyr­ir­tækið síðastliðin tvö ár.

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi Sinnum í síðustu viku til að greiða Rögnu Er­lends­dótt­ur, móður Ellu Dís­ar, þrjár millj­ón­ir króna í bæt­ur vegna and­láts dótt­ur henn­ar.

Andlátið rakið til stórfellds gáleysis

Ragna hafði stefnt fyr­ir­tæk­inu og Reykja­vík­ur­borg vegna stór­fellds gá­leys­is sem hafi valdið dauða Ellu Dísar. Var það mat Héraðsdóms að and­lát Ellu Dís­ar yrði rakið til stór­fellds gá­leys­is stjórn­enda Sinn­um ehf., sem hefðu sett ófag­lærðan starfs­mann í aðstæður sem hann gat ekki ráðið við, en Ella Dís var með sjald­gæf­an tauga­sjúk­dóm og var háð önd­un­ar­vél. 

Skóla- og frí­stunda­svið Reykja­vík­ur­borg­ar gerði samn­ing við Sinn­um vegna skóla­göngu Ellu Dís­ar, en fyr­ir­tækið gef­ur sig út fyr­ir að bjóða upp á fjölþætta vel­ferðarþjón­ustu til ein­stak­linga. Á grund­velli samn­ings­ins sinnti fyr­ir­tækið sér­tæk­um stuðningi við Ellu Dís í skól­an­um, en henni fylgdi m.a. þroskaþjálfi sem aðstoðaði hana í þar. Ella Dís var með sér­stak­an vinnu­stól í skól­an­um og út­bú­in var aðstaða inni af skóla­stof­unni fyr­ir hana og henn­ar tæki, auk sjúkra­rúms ef hún yrði of þreytt og þyrfti að hvíla sig. Hún var tengd við önd­un­ar­vél gegn­um barka­túbu í hálsi og mett­un­ar­mæli sem sýndi súr­efn­is­mett­un í blóði og hjart­slátt.

Þroskaþjálf­ar­inn sem að staðaldri fylgdi Ellu Dís í skól­ann for­fallaðist einn dag­inn vegna veik­inda og var ófag­lærður starfsmaður Sinn­um ehf. feng­inn til að fylgja henni í skól­ann. Sá þekkti Ellu Dís og hafði sinnt henni í af­leys­ing­um, en aldrei án aðstoðar.

Hafði ekki fengið næga fræðslu um umönnun barna í öndunarvél

Þegar starfsmaður­inn flutti Ellu Dís úr hjóla­stól henn­ar í vinnu­stól­inn í skól­an­um féll súr­efn­is­mett­un og hjart­slátt­ur hækkað. Starfsmaður­inn reyndi þá án ár­ang­urs að nota sog- og hósta­vél, auk þess að hringja í Neyðarlín­una eft­ir aðstoð. Sjúkra­flutn­inga­menn komu á staðinn sex mín­út­um síðar og var Ella Dís þá kom­in í önd­un­ar- og hjarta­stopp.

End­ur­lífg­un­ar­til­raun­in bar ár­ang­ur og var Ella Dís flutt á bráðamót­töku barna og þaðan á gjör­gæslu­deild. Ragna sagði Ellu Dís hafa orðið fyr­ir mikl­um heilaskaða við at­vikið og hafi hún aldrei hafa sýnt eðli­leg viðbrögð eft­ir það og þar til  hún lést  5. júní árið 2014. 

Í dómi Héraðsdóms segir að samkvæmt tilkynningu Sinnum til Landlæknis þá hafi starfsmaðurinn verið sérþjálfaður, en dómurinn komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að ekkert benti til að starfsmaðurinn hefði fengið nægilega fræðslu um umönnun barna í öndunarvél.

Segir RÚV rannsókn lögreglu og saksóknara m.a. beinast að því hvort Sinnum hafi ekki greint rétt frá í tilkynningunni til Landlæknis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert