Stefnt að virkjanaþrennu í blómlegri byggð

Með Hvammsvirkjun yrði til 4 ferkílómetra inntakslón og með því …
Með Hvammsvirkjun yrði til 4 ferkílómetra inntakslón og með því myndu flúðir og hólmar í Þjórsá fara undir vatn. mbl.is/Golli

Lengsta á landsins, Þjórsá, rennur í öllu sínu veldi á flúðum meðfram bæjunum Stóra-Núpi, Fossnesi og Haga í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Á þessum hluta árinnar, sem og víðar, er að finna grösugar eyjur og lítið eitt neðar er sú sérstæðasta þeirra allra; Viðey sem var friðuð árið 2011 vegna einstaks náttúrufars.

Nú stefnir Landsvirkjun á að virkja á þessu svæði. Með Hvammsvirkjun yrði til fjögurra ferkílómetra manngert stöðuvatn, Hagalón, og með tilkomu þess myndi fjölbreytt landslag við ána og bakka hennar breytast. Eyjur, hólmar og flúðir færu á kaf ofan stíflunnar og á um þriggja kílómetra kafla neðan hennar, þar sem Viðey er að finna, myndi vatnsrennsli minnka verulega þar sem því yrði að mestu veitt um aðrennslisgöng. Vatnið mun þá ekki vernda Viðey í sama mæli og nú fyrir ágangi manna og dýra. Verði af virkjun stendur til að girða Viðey af í samræmi við friðlýsingarskilmála.

Ef flúðirnar hverfa mun árniðurinn, sem ábúendur á bújörðunum í nágrenni hennar hafa alist upp við kynslóðum saman, hljóðna. Ásýnd landsins í næsta nágrenni virkjunarinnar myndi auk þess breytast verulega. Í stað þess að geta horft á Þjórsá veltast um klappirnar með Heklu í baksýn væri komið lón, eins og Edda Pálsdóttir læknir orðar það en hún dvelur oft í húsi fjölskyldu sinnar á jörðinni Hamarsheiði í nágrenni þess staðar þar sem Hvammsvirkjun myndi rísa.

Hingað til hefur oftast verið virkjað á hálendinu eða í jaðri þess en með Hvammsvirkjun yrði reist virkjun í blómlegri byggð. Hún yrði neðsta virkjunin í Þjórsá og sú sjöunda á vatnasviði Þjórsár og Tungnaár og stæði fimmtán kílómetrum neðan Búrfellsstöðvar.

En þessi staðsetning er einmitt ástæða þess að Hvammsvirkjun er álitin góður virkjunarkostur.

Álitinn góður virkjunarkostur

„Almennt séð tel ég þetta skynsamlegan kost af því að þarna yrðu nýttir mjög mikið innviðir sem eru þegar til staðar; uppistöðulón, háspennulínur og vegir,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar. „Raddir um að vernda ósnortin víðerni heyrast meira en áður og endurspeglast í nýjum náttúruverndarlögum. Hvað Hvammsvirkjun varðar eru langmestu áhrifin nú þegar komin. Þannig að þetta er mjög skynsamlegur næsti kostur ef samfélagið þarf orku.“

Hugmynd um virkjun á þessu svæði er langt í frá ný af nálinni. Hún hefur verið í umræðunni í um tvo áratugi og að mati margra, m.a. Gjálpar – félags um atvinnuuppbyggingu við Þjórsá, hefur það valdið stöðnun í nærsamfélaginu.

Athuganir á hagkvæmni virkjana í neðanverðri Þjórsá hófust árið 1999. Ýmist tvær eða þrjár virkjanir voru þá nefndar; Núpsvirkjun og Urriðafossvirkjun eða Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun. Árið 2003 kom út skýrsla um mat á umhverfisáhrifum allra þessara kosta. Metin voru áhrif virkjunar við Núp í einu skrefi (Núpsvirkjun) og í tveimur skrefum (Holta- og Hvammsvirkjun).

Hugmyndir á ís um hríð

Mikil andstaða var við þessi áform og að auki breyttust ýmsar forsendur í þjóðfélaginu sem urðu til þess að Landsvirkjun setti þau á ís. Nokkru síðar hófst vinna við áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, svonefnda rammaáætlun, þar sem virkjanakostir voru flokkaðir í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Árið 2013 var tekin ákvörðun á Alþingi um að Hvamms-, Holta- og Urriðafossvirkjun færu í biðflokk, m.a. vegna óvissu um áhrif á laxfiska í Þjórsá. „Ég tel að þær hafi verið settar í þann flokk til að koma að einhverju leyti til móts við þá gagnrýni sem hafði komið fram nokkrum árum áður,“ segir Anna Sigríður Valdimarsdóttir, íbúi að Stóra-Núpi í Skeiða- og Gnúpverjahreppi, sem barist hefur gegn virkjunum á svæðinu árum saman.

Sama ár var svokölluð Norðlingaölduveita, sem reisa átti í – og með síðari breytingum við þröskuldinn að – náttúruperlunni Þjórsárverum, sett í verndarflokk rammaáætlunar.

Andstæðingar virkjananna önduðu léttar. Áralöng barátta fyrir verndun Þjórsárvera hafði ekki síst tekið á og almenn ánægja var meðal íbúa á svæðinu að virkjunarhugmyndin var slegin út af borðinu.

En tveimur árum síðar, í byrjun sumars 2015, samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um að færa Hvammsvirkjun eina og sér í orkunýtingarflokk. Þá þegar hafði Landsvirkjun hafið undirbúning að byggingu hennar að nýju. „Það kom nokkuð aftan að mörgum,“ segir Anna María Flygenring, bóndi á bænum Hlíð í nágrenni Þjórsár. „Á því höfðum við ekki átt von.“

Og nú hefur verið lagt til að hinar tvær virkjanahugmyndirnar, Holta- og Urriðafossvirkjun, verði einnig færðar úr biðflokki í orkunýtingarflokk. Þingsályktunartillaga þar um bíður enn afgreiðslu Alþingis.

Allar þrjár aftur á dagskrá

Þar með yrðu allar virkjanirnar, sem svo umdeildar voru í upphafi aldarinnar, aftur komnar á dagskrá. Samanlagt afl þeirra yrði 290 megavött (MW) en til samanburðar er Búrfellsstöð, næststærsta vatnsaflsvirkjun landsins, 270 MW.

Hörður segir að Hvammsvirkjun sé nú algjörlega óháð hinum tveimur virkjanakostunum. Verði hún að veruleika þýði það ekki að Holta- og Urriðafossvirkjun fylgi sjálfkrafa í kjölfarið. „Hver þessara þriggja virkjana einar og sér eru arðbærir kostir, Urriðafoss hvað arðbærastur. En sú virkjun yrði alltaf síðust, m.a. vegna umhverfisáhrifa. En það er ekki þannig að Hvammsvirkjun myndi á einhvern hátt kalla á að ráðist yrði í hinar tvær.“

 Þarf að reisa Hvammsvirkjun?

Anna Sigríður á Stóra-Núpi segir sig og fleiri hafa óttast að áformin í heild yrðu dregin fram í dagsljósið á ný. „En hvort sem það er hugmyndin eða ekki þá á ekki að reisa Hvammsvirkjun. Mér finnst komið gott af virkjunum yfirhöfuð, hvort sem það er hér í anddyri hálendisins, eða annars staðar.“

Hún minnir á að aðeins nýverið hafi Búðarhálsvirkjun verið tekin í gagnið og Búrfell II sé í byggingu. „Þarf að reisa Hvammsvirkjun? Einhvers staðar verðum við að draga mörkin.“

Þessari sömu spurningu veltir nú Björgvin Skafti Bjarnason, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, fyrir sér. Virkjanirnar þrjár myndu allar hafa umhverfisáhrif í sveitarfélaginu en engar beinar tekjur af þeim eða störf þó skapast. Mannvirki tengd Hvammsvirkjun yrðu handan Þjórsár og þar með í Rangárþingi ytra. Því fengju Skeiðamenn og Gnúpverjar ekkert fyrir sinn snúð. „Þetta er mjög óheppilegt,“ segir Hörður og bætir við að Landsvirkjun hafi mjög litla möguleika til að bæta sveitarfélögum slíkt misrétti upp. „Þetta er ekki sanngjörn skipting og stjórnvöld þyrftu að skoða þessa löggjöf.“

Fórn fyrir þjóðhagslega hagsmuni

Fleiri sveitarfélög hafa lent í þeirri stöðu að hagnast ekki á virkjunum innan sinna landamerkja. Gott dæmi um það er Kárahnjúkavirkjun. Stífla og lón eru á Fljótsdalshéraði en stöðvarhúsið í Fljótsdalshreppi. Landsvirkjun greiðir Fljótsdalshreppi fasteignagjöld en Fljótsdalshérað fær ekkert í sinn hlut.

„Við lítum á þetta sem fórn. Það er alveg klárt mál,“ segir Björgvin oddviti, spurður hvers vegna Skeiða- og Gnúpverjahreppur ætti að samþykkja Hvammsvirkjun. Hann segir að ákvörðunina þurfi að byggja á þjóðhagslegri hagkvæmni. „Ef það er þörf á virkjun þá virkjum við, ef það er ekki þörf þá virkjum við ekki. Svo er það matsatriði hvað er þörf.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

En er þessi þörf til staðar núna varðandi Hvammsvirkjun? Björgvin telur svo ekki vera, hvort sem miðað er við orkuspá Orkustofnunar eða litið til stóriðjuverkefna sem eru í óvissu eða hafa verið slegin út af borðinu. „Það er allur vindur úr þessu í augnablikinu.“ Hann telur það sameiginlegan skilning sveitarstjórnarinnar og Landsvirkjunar „að það liggi ekkert rosalega á [að byggja Hvammsvirkjun]“.

Í frummatsskýrslu vegna framkvæmdarinnar sem kom út í maí á þessu ári kom fram að gert væri ráð fyrir að útboðsferli vegna Hvammsvirkjunar myndi hefjast í ár og að framkvæmdir gætu mögulega hafist í byrjun næsta árs. Þá var stefnt að því að virkjunin yrði tekin í rekstur árið 2021.

Nú er hins vegar ljóst að þessi áætlun hefur breyst nokkuð. Að sögn Harðar er enn útlit fyrir að Hvammsvirkjun verði næsta virkjun Landsvirkjunar, „en það er ekki þannig að þetta sé alveg að bresta á“. Ekki sé búið að taka ákvörðun um nákvæmlega hvenær ráðist verði í byggingu hennar og „ljóst er að ekki verður farið í framkvæmdir á næsta ári“.

Nokkur atriði skýra þetta að sögn Harðar. Enn er eftir að afgreiða ákveðin skipulagsmál og sækja um ýmis leyfi. Það ferli er tímafrekt. „Eftir að tekin hefur verið ákvörðun um að ráðast í byggingu virkjunarinnar mun það taka að minnsta kosti þrjú og hálft ár að bjóða út framkvæmdir, byggja virkjunina og koma henni í fullan rekstur.“

Þá er Landsvirkjun nú að ljúka framkvæmdum við Búrfell II og Þeistareyki. „Landsvirkjun hefur aldrei áður byggt tvær virkjanir í einu. Svo hefur efnahagsástandið einnig mikil áhrif, nú er óhagstætt að fá tilboð í stór verk, þau gætu verið 20-30% dýrari en í meðalári.“

Krafa um sjálfbæra notkun

Björgvin oddviti segir fyrir sitt leyti að líkur séu á því að Hvammsvirkjun verði byggð einhvern daginn, „en við hljótum að gera þá kröfu að rafmagnið sé notað í eitthvað sem fari á okkar svæði, að minnsta kosti að hluta, og að starfsemin sé sjálfbær, umhverfisvæn og þjóðhagslega hagkvæm“.

Hann er nefnilega á þeirri skoðun að velja eigi kaupendur orkunnar vel, ekki síst í ljósi þess sem á undan er gengið varðandi rekstur kísilversins í Helguvík. „Einhverra hluta vegna töldu menn að kísilframleiðsla væri allt öðruvísi en álframleiðsla. Svo kemur í ljós að hún er að minnsta kosti jafn vafasöm umhverfislega.“

Fyrir um tveimur áratugum hafi um helmingur raforkunnar hér á landi farið til stóriðju en nú sé hlutfallið orðið um 80%. Fyrir utan þá áhættu sem fylgi því að leggja mörg egg í sömu körfuna og til verkefna í svipaðri starfsemi, sé raforka á Íslandi umhverfisvæn. „Og við þurfum að skoða það vel og vandlega að hún fari í umhverfisvæna starfsemi.“

Læknirinn Edda Pálsdóttir hefur stefnt að því að setjast að …
Læknirinn Edda Pálsdóttir hefur stefnt að því að setjast að á jörðinni Hamarsheiði sem afi hennar og amma áttu. Hún segir að Hvammsvirkjun myndi hafa áhrif á þá ákvörðun. mbl.is/Golli

Björgvin telur vakningu hafa orðið í þessa veru, ekki aðeins meðal almennings heldur einnig hjá Landsvirkjun og öðrum orkufyrirtækjum. Umræðan í samfélaginu sé nú á annan veg en áður.

Anna María bóndi í Hlíð telur að ef tryggt yrði að rafmagnið úr Hvammsvirkjun færi ekki til stóriðju heldur til dæmis í uppbyggingu fyrir rafbílaflotann yrði væntanlega meiri sátt um hana. Slíkt myndi þó ekki breyta hennar persónulegu afstöðu, „því mér finnst alltof miklu fórnað. Sumir segja að það sé til nóg orka í landinu, henni sé bara ekki rétt dreift. Mér þætti forvitnilegt að fá svör við því.“

Edda á Hamarsheiði segir að vissulega yrði það skárra ef orkan færi ekki til stóriðju, „en mér finnst ótímabært að ræða það. Í mínum huga snýst málið um að við erum að byrja á vitlausum enda. Það er engin áætlun á landsvísu um hvernig við viljum nýta orkuna. Við gætum bætt ýmislegt ef við skoðuðum það. Við erum algjörir orkusóðar og eins og staðan er þá er einfaldlega ekki þörf á meiri orku. Það er til nóg af henni. Við þurfum að endurskoða það hvernig við notum hana.“

Virkja þyrfti fyrir Thorsil

Í frétt sem birtist á vef Landsvirkjunar fyrir tveimur árum kom fram að fyrirtækið hefði komist að samkomulagi um drög að samningi við Thorsil um afhendingu á raforku til fyrirhugaðs kísilvers í Helguvík. Miklar tafir hafa orðið á því verkefni og hefur fjármögnun þess ekki enn verið tryggð. Í fréttinni kom fram að síðari áfangi orkuafhendingar til Thorsil yrði við gangsetningu Hvammsvirkjunar sem þá var áætluð um mitt ár 2020.

Landsvirkjun gerði síðar raforkusamning við Thorsil um afhendingu 55 megavatta. Félögin eru enn í samstarfi þrátt fyrir tafirnar og óvissuna sem ríkir um framhaldið.

En hver er staðan nú, myndi orkan sem fengist úr Hvammsvirkjun fara í rekstur kísilvers Thorsil í Helguvík?

„Það var alltaf gert ráð fyrir að Thorsil færi í gang áður en Hvammsvirkjun yrði byggð,“ segir Hörður. „Og Hvammsvirkjun yrði byggð hvort sem Thorsil kæmi með sitt kísilver eða ekki. Vissulega mun Thorsil kalla á frekari virkjanir en þarna er þó ekki bein tenging á milli.“

Það myndi engu breyta um afstöðu Önnu Sigríðar á Stóra-Núpi til virkjunarinnar ef tryggt yrði að orkan færi ekki til stóriðju. Hún segir að látið sé eins og stóriðjan sé einhver fasti til allrar framtíðar sem þurfi alltaf að vaxa. Hún veltir fyrir sér hvort ekki sé komið að því að fækka stóriðjuverum frekar en að fjölga þeim. „Þá væri hægt að byggja upp aðrar atvinnugreinar og sækja orkuna sem stóriðjan notaði.“

Anna María Flygenring bóndi í Hlíð telur að Hvammvirkjun myndi …
Anna María Flygenring bóndi í Hlíð telur að Hvammvirkjun myndi hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu. Hún segir of miklu fórnað með virkjun í neðri hluta Þjórsár. mbl.is/Golli

Hörður bendir á að í hagvexti og fólksfjölgun aukist orkunotkun. Orkuspá Orkustofnunar, sem að hans mati er heldur varfærin, geri ráð fyrir að almenni markaðurinn, þ.e. aðrir en stórnotendur, muni vaxa um 10-12 MW á ári. „Það þýðir að á 4-5 ára fresti þarf nýja 50 megavatta virkjun að því gefnu að allir notendur sem eru núna haldi áfram.“ Hann segir að sá möguleiki sé fyrir hendi að einhver stórnotandi hætti starfsemi. „Það er eðli allra verksmiðja að þær hætta einhvern tímann rekstri. En eftir því sem ég best veit gengur starfsemi okkar stórnotenda vel og er fullur hugur hjá þeim að starfa hér áfram.“

Í athugasemdum félagsins Gjálpar við frummatsskýrslu Hvammsvirkjunar segir að virkjunin yrði afturför fyrir sveitina og myndi draga úr möguleikum á fjölbreyttri atvinnuuppbyggingu og innihaldsríku samfélagi. Félagið benti ennfremur á gildi náttúrunnar fyrir ferðaþjónustu sem er vaxandi á Suðurlandi sem og annars staðar á landinu. „Manngert umhverfi Hvammsvirkjunar og Hagalóns vinna bæði gegn þessari mikilvægu atvinnugrein og þeim hughrifum sem erlendir ferðamenn sækja í á svæðinu.“

Forstjóri Landsvirkjunar segir að sé það vilji samfélagsins að nýta náttúruna til orkuvinnslu þá hafi það allt umtalsverð áhrif á umhverfið. Hann bendir á að öll orka sem er nýtt á Íslandi fari í þörf verkefni samkvæmt mati samfélagsins á hverjum tíma, hvort sem er til að mæta almennum hagvexti, til orkuskipta, stækkun álvera, kísilvera eða annarrar stóriðju, vexti í rekstri gagnavera eða aukningu í ferðaþjónustu. „Það mat getur hins vegar breyst, jafnvel á byggingartímanum. Forsendur geta breyst hratt, efnahagur vænkast og atvinnuleysi minnkað. Það er alveg öruggt að þær kröfur sem gerðar eru til orkunotkunar í dag eru aðrar en gerðar voru fyrir tíu árum. Og eftir tíu ár verða þær aðrar en þær sem við gerum í dag.“

Anna Sigríður Valdimarsdóttir náttúrufræðingur rannsakaði lífríki Viðeyjar á sínum tíma. …
Anna Sigríður Valdimarsdóttir náttúrufræðingur rannsakaði lífríki Viðeyjar á sínum tíma. Eyjan var friðuð árið 2011 og girða þyrfti hana af ef Hvammsvirkjun yrði að veruleika þar sem vatnsrennsli myndi skerðast verulega við eynna. mbl.is/Golli

Aðeins ágangur og ánauð

Anna María, bóndi í Hlíð, segist ekki sjá neinn hag af Hvammsvirkjun fyrir samfélagið í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. „Ég sé ekki að það verði neitt nema ágangur og ánauð af þessu. En svo spyrja allir, viljið þið ekki rafmagn? En hvað verður gert við rafmagnið? Ég vil ekki stuðla að því að það fari í kísilverksmiðjur eða aðra stóriðju.“

Björgvin oddviti á því í ljósi nýjustu frétta ekki von á því að þurfa að taka ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Hvammsvirkjun á næstu vikum og mánuðum. „Það verður komin ný sveitarstjórn þegar kemur að því.“

Útlit er því fyrir að enn um sinn verði virkjanirnar í neðanverðri Þjórsá til umræðu. Edda á Hamarsheiði segir fólk orðið mjög þreytt, margt hreinlega uppgefið. „Þetta hefur hangið yfir okkur síðan um 2003 og um virkjanirnar hefur verið stapp síðan þá. Það tekur á lítið samfélag.“

mbl.is