„Þetta er skemmtileg áskorun“

Frá Norðurfirði.
Frá Norðurfirði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Nýr kaupfélagsstjóri tekur til starfa í Norðurfirði í Árneshreppi 1.nóvember. Þar sem kaupfélag KSH á Hólmavík ákvað að leggja niður útibúið í Norðurfirði auglýsti hreppsnefnd nú í september eftir nýjum rekstraraðila.

Þetta er fallegur staður og verður skemmtilegt,“ segir dýralæknirinn Ólafur Valsson sem tekur við starfinu. Hann bætir því við að hann hafi ákveðið að taka við rekstrinum af áhuga á því að prófa eitthvað nýtt.

Þetta er annað en ég hef gert hingað til og það er gaman að því.

Kaupfélagið.
Kaupfélagið. Ljósmynd/Jón Guðbjörn

Ólafur gerir sér fyllilega grein fyrir því að það gæti verið lítið að gera í svartasta skammdeginu. „Þetta er pínulítið yfir vetrartímann. Það þarf að finna út úr því en það á eftir að koma í ljós,“ segir Ólafur en hann er bjartsýnn og veit að það verður mun meira gera yfir sumartímann.

„Við ætlum að reyna þetta og ég býst við því að framundan sé skemmtileg áskorun.“ 

Í tilkynningu vegna málsins kemur fram að Ólafur hafi hug á því að brydda upp á nýjungum í byggðarlaginu og stuðla jafnvel að framleiðslu matvæla í heimabyggð sem er áhugasvið hans. 

mbl.is