Um 20 þúsund íbúðir á prjónum borgarinnar

Dagur B. Eggertsson kynnti fyrirætlanir borgarinnar í byggingu íbúða og …
Dagur B. Eggertsson kynnti fyrirætlanir borgarinnar í byggingu íbúða og úthlutuna lóða á fundi í morgun. Myndin er úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúmlega þrjú þúsund íbúðir eru í byggingu í Reykjavík en í samþykktum deiliskipulagsáætlunum er heimild fyrir á fimmta þúsund íbúðir. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri kynnti þau verkefni sem eru í gangi og fyrirhuguð í erindi á fundi í ráðhúsinu í morgun. Í erindi hans kom fram að borgin hafi rúmlega 19 þúsund íbúðir á prjónunum á komandi árum.

„Þau staðföstu áform sem við erum með eru á við þrjú Breiðholtsverkefni,“ sagði Dagur til að setja fyrirætlanir í samhengi. Hann sagði að munurinn væri sá að framkvæmdirnar væru nú dreifðar um alla Reykjavík, en væru ekki bundnar við eitt hverfi eins og þegar Breiðholtið var byggt upp. Framkvæmdirnar sem væru í gangi og áformaðar ættu það sameiginlegt að miða að þéttingu byggðar. Gert er ráð fyrir því í aðalskipulagi borgarinnar að 90% allra nýrra íbúða á tímabilinu 2010-2030 rísi innan núverandi þéttbýlismarka.

Hér má sjá á gagnvirku korti hvar byggingasvæðin eru.

Ríflega 4.000 íbúðir án hagnaðarsjónarmiða

Dagur greindi frá því í kynningu sinni að stefnt hefði verið að uppbyggingu 2.500 til 3.000 leigu- og búseturéttaríbúða fyrir félög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða, á árunum 2014-2019 en að mun fleiri íbúðir í það væru í byggingu.

Hann sagði að efnt hafi verið til samvinnu við verkalýðshreyfinguna, húsnæðissamvinnufélög, félög eldri borgara, námsmenn og einkaaðila um aðgerðir. Afrakstur þeirrar samvinnu sé að nú liggi fyrir staðfest áform um byggingu 4.100 íbúða af þessum toga. Þar af væru um eitt þúsund verkalýðsíbúðir, 1.340 námsmannaíbúðir, 450 búseturéttaríbúðir, annað eins af íbúðum fyrir eldri borgara, 105 hjúkrunarrými, yfir 100 sértæk búsetuúrræði fyrir fatlað fólk og yfir 700 íbúðir Félagsbústaða, sem er í eigu borgarinnar.

Hér sést hvar til stendur - eða verið er - …
Hér sést hvar til stendur - eða verið er - að byggja.

Dagur sagði að í uppfærðri áætlun yfir uppbyggingarsvæði í Reykjavík væru 3.100 íbúðir á framkvæmdastigi og að samþykkt deiliskipulag væri fyrir 4.302 íbúðir. Því til viðbótar væru 3.045 íbúðir í formlegu skipulagsferli. „Enn fremur eru 8.805 íbúðir til viðbótar í undirbúningsferil eða í skoðun á þróunarsvæði. Alls gerir þetta 19.252 íbúðir, sem er ríflega 2.000 íbúðum meira en reiknuð íbúðaþörf aðalskipulagsins til 2030 gerði ráð fyrir,“ segir í bæklingi um uppbyggingu íbúða í borginni.

Í erindi sínu gagnrýndi Dagur önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu fyrir sinnuleysi þegar kæmi að uppbyggingu félagslegra íbúða og benti á að aðeins Hafnarfjörður væri með um 50 slíkar íbúðir á prjónunum.

Byggingarsvæði á framkvæmdastigi - Fjöldi íbúða

Efstaleiti 360
Hlíðarendi 780
Smiðjuholt 203
Bryggjuhverfi II 280
Grandavegur 142
Hljómalindarreitur 35
Hverfisgata 92-96+ 60
Hafnartorg-Austurhöfn 178
Brynjureitur 77
Frakkastígsreitur 68
Tryggvagata 13 40
Mánatún 44
Borgartún 28 21
Nýlendurreitur 20
Suður-Mjódd 130
Reynisvatnsás 50
Höfðatorg I 94
Mörkin 74
Barónsreitur-Hverfisgata 85-93 70
Sogavegur 73-77 45
Sigtúnsreitur 108
Keilugrandi 1 78
Skógarvegur 20
Úlfarsárdalur – núverandi hverfi 100
Laugavegur 59 11
Hverfisgata 61 12
Samtals: 3.100 íbúðir 

Samþykkt deiliskipulag - Fjöldi íbúða

Kirkjusandur 300
Vesturbugt 176
Spöngin-Móavegur 156
Barónsreitur-Skúlagata 105
Vísindagarðar 210
Hraunbær 103-105 60
Sætúnsreitur 100
Höfðatorg II 126
Vogabyggð II 776
Nauthólsvegur 440
Borgartún 34-36 86
Sléttuvegur 307
KHÍ-lóð 160
Sóltún 2-4 30
Elliðabraut 200
Steindórsreitur 70
Vigdísarlundur 20
Vogabyggð I 330
Úlfarsárdalur - núverandi hverfi 290
Úlfarsárdalur - Leirtjörn 360
Samtals: 4.302 íbúðir

Að auki eru 3.045 íbúðir í skipulagsferli. Stærstu svæðin eru þar þriðji áfangi Bryggjuhverfis (800 íbúðir), Skeifan (750 íbúðir), fyrsti áfangi Gufuness (450 íbúðir) og Heklureitur (400 íbúðir). 

Þá eru tæplega 9 þúsund íbúðir fyrirhugaðar á svokölluðum þróunarsvæðum. Þar munar mestu um 4.500 íbúðir í Elliðaárvogi og þúsund í Skerjabyggð. Þá er gert ráð fyrir 800 íbúðum í þriðja og fjórða áfanga Vogabyggðar. Í þróun eru líka 500 íbúðir við Kringluna og áþekkt magn bæði á Keldum og í Gufunesi.

Hér má finna 40 síðna bækling þar sem farið er ofan í byggingaráform og framkvæmdir á hverjum reit fyrir sig.

Stöplaritið er úr kynningu Dags. Súlurnar sýna hversu margar íbúðir …
Stöplaritið er úr kynningu Dags. Súlurnar sýna hversu margar íbúðir til stendur að byrja að byggja á hverju ári.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert