Snerist hugur um Hvalárvirkjun

„Ég sé ekki af hverju Árneshreppur ætti að samþykkja þessa …
„Ég sé ekki af hverju Árneshreppur ætti að samþykkja þessa virkjun,“ segir Ingólfur Benediktsson, bóndi og varaoddviti í Árneshreppi um fyrirhugaða Hvalárvirkjun. mbl.is/Golli

Ingólfur Benediktsson, bóndi að Árnesi II í Árneshreppi á Ströndum var fyrir nokkrum árum hlynntur fyrirhugaðri Hvalárvirkjun. Þá var rætt um að heilsársstörf myndu fylgja henni að framkvæmdatíma loknum. Slíkt er ekki lengur raunin og eftir að málin hófu að skýrast fyrir nokkrum misserum fór Ingólfur, sem er varaoddviti hreppsins, að afla sér margvíslegra og viðamikilla upplýsinga um verkefnið. Í kjölfarið komst hann að annarri niðurstöðu. „Ég sé ekki af hverju Árneshreppur ætti að samþykkja þessa virkjun,“ segir hann þar sem hann situr við hlið eiginkonu sinnar, Jóhönnu Óskar Kristjánsdóttur, í eldhúsinu að Árnesi II. „Ég var kannski alltof lengi fylgjandi þessu, ég viðurkenni það. En svo fór ég að kynna mér þetta allt saman miklu betur og skipti um skoðun.“

Ingólfur er uppalinn í Árneshreppi og eru börn hans og Jóhönnu einnig alin upp í hreppnum þó þau séu nú uppkomin og hafi flust þaðan, að minnsta kosti um hríð. Hann hefur verið í hreppsnefnd, sem valin er með persónukjöri vegna mannfæðarinnar, frá árinu 2006. Stuttu eftir að hann tók þar sæti komst hreyfing á virkjanaáformin. Fyrirtækið VesturVerk á Ísafirði hafði þá samið um vatnsréttindi við landeigendur í Eyvindarfirði og Ófeigsfirði og málið kom inn á borð hreppsnefndar vegna óska framkvæmdaaðilans um breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins.  

 „Það var beinlínis orðað þannig þá að forsendur fyrir því að setja Hvalárvirkjun inn á aðalskipulag væru að það myndu fylgja henni atvinna og samgöngubætur,“ segir Ingólfur. Virkjuninni áttu að fylgja 2-3 heilsársstörf og gert var ráð fyrir nýjum íbúðarhúsum á virkjanasvæðinu. „Á þetta lagði hreppsnefndin gríðarlega áherslu.“

Átti að skapa störf

Þegar nýtt aðalskipulag var svo samþykkt af hreppsnefnd árið 2013, og svo staðfest af skipulagsyfirvöldum snemma árs 2014, var Ingólfur hlynntur framkvæmdinni á þessum forsendum. Hann sá fyrir sér að nokkur störf gætu haft heilmikið að segja í þessu fámennasta sveitarfélagi landsins þar sem fólksfækkun hefur verið viðvarandi síðustu ár og er nú svo komið að í hreppnum hafa aðeins 46 manns lögheimili. Þar af eru rétt um 30 sem hafa þar vetursetu.

Fjölskrúðugt dýralíf er í Trékyllisvík. Þar má oft sjá seli …
Fjölskrúðugt dýralíf er í Trékyllisvík. Þar má oft sjá seli og stundum hvali. mbl.is/Golli

En nú, um fjórum árum eftir að skipulagið var samþykkt, eru forsendur breyttar. Engin heilsársstörf myndu fylgja Hvalárvirkjun eftir að hún tæki til starfa. Það skýrist af hraðri tækniþróun. Virkjanir eru tengdar ljósleiðara í dag og þeim er hægt að stýra nánast hvaðan sem er.

Fjórða júní árið 2015 mættu fulltrúar VesturVerks og HS Orku, sem þá hafði keypt meirihluta í ísfirska fyrirtækinu, á fund hreppsnefndar. „Hreinskilningslega þá hafði fólk á þessum tímapunkti einfaldlega ekki trú á að þetta yrði að veruleika, það var búið að ræða þessa virkjun svo lengi, áratugum saman. Það hafði alltaf verið talað um hversu óhagkvæm þessi staðsetning væri, upp á heiði langt frá öllum tengingum við flutningskerfið.“

Á fundinum spurðu Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, og Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, hvaða mál það væru sem sveitarstjórnin legði áherslu á að fylgdu hinni fyrirhuguðu framkvæmd. Sem fyrr voru það atvinnumál og samgöngubætur sem helst brunnu á hreppsnefndarmönnum.

Þróaðist í aðra átt

Síðar þetta sumar var haldinn fundur í félagsheimilinu í Árnesi sem á mættu fulltrúar framkvæmdaaðilans og Vegagerðarinnar, þingmenn og fleiri. „Þá kom nú í ljós að þessari virkjun myndi ekkert fylgja af hálfu ríkisins, engin áform um bættar samgöngur eins og við höfðum lagt aðaláherslu á,“ segir Ingólfur.

Einu samgöngubæturnar sem munu beinlínis fylgja virkjuninni felast í vinnuvegi sem VesturVerk hyggst leggja frá Melum í Trékyllisvík, yfir í Ingólfsfjörð og þaðan inn á virkjanasvæðið í Ófeigsfirði. Þann veg á að nýta til þungaflutninga, fyrst til frekari rannsókna áður en sótt verður um framkvæmdaleyfi og síðar í tengslum við virkjanaframkvæmdina sjálfa. „Það er nú það eina hvað samgöngumálin varðar. En þetta breytir engu um vetrareinangrun sveitarfélagsins sem okkar áherslur hafa alltaf snúist um,“ segir Ingólfur. Að auki er rætt um línuveg yfir Ófeigsfjarðarheiði og niður í Djúp sem yrði aðeins fær að sumarlagi en ófær níu mánuði á ári.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Vegabætur þegar á samgönguáætlun

Ingólfur segist ekki telja að virkjanaframkvæmdirnar muni þrýsta á ríkið að bæta samgöngur milli Bjarnarfjarðar og Norðurfjarðar eins og íbúar Árneshrepps hafa ítrekað óskað eftir árum og áratugum saman. Nýr vegur um Veiðileysuháls er inni á samgönguáætlun og þó þeirri framkvæmd hafi verið frestað nokkrum sinnum er útlit fyrir að í hana verði ráðist á næstu árum. Slíkt komst á áætlun í kjölfar fundar hreppsnefndarmanna með samgöngunefnd Alþingis í mars 2012.  „Þær vegabætur eru alls ekkert tengdar fyrirhugaðri virkjunarframkvæmd. Sá sem heldur því fram er að búa það til til að réttlæta þetta.“

Þær beinu tekjur sem Árneshreppur mun hafa af virkjuninni yrðu í formi fasteignagjalda vegna mannvirkjanna. Framkvæmdaaðilinn hefur reiknað það út að þau gætu numið 20-30 milljónum árlega. Hreppsnefndin hefur ekki sjálf lagst yfir þessa útreikninga. Ingólfur telur að þetta sé eitt af fjölmörgum atriðum sem liggja þurfi skýrt fyrir áður en málið fer lengra hjá hreppsnefndinni.

Þegar Hvalárvirkjun var sett í nýtingarflokk í öðrum áfanga rammaáætlunar árið 2013 var talað um að virkjunin yrði 30-37 MW. Þrjár ár yrðu virkjaðar: Hvalá, Rjúkandi og Eyvindarfjarðará. Í dag er gert ráð fyrir að aflið verði 55 MW.

Að stærstum hluta skýra frekari vatnamælingar og önnur rannsóknargögn þennan mismun sem og tækniframfarir. Áhrifasvæði virkjunarinnar er enn það sama en þó er eitt sem hefur breyst að sögn Ingólfs. Upphaflega hugmyndin gekk út á að taka vatn úr Efra-Eyvindarfjarðarvatni í svonefndri Eyvindarfjarðarveitu og halda þannig rennslinu í fossunum fyrir neðan. Nú stendur hins vegar til að stífla Neðra-Eyvindarfjarðarvatn og veita þannig stórum hluta vatnsrennslisins inn í aðrennslisgöng og þar með úr farvegi Eyvindarfjarðarár sem og þverár ofarlega í henni. Þetta mun skerða verulega vatnsrennslið í ánni  þar sem finna má fjölda fossa.

Að mati Ingólfs er álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu umhverfisáhrifa virkjunarframkvæmdarinnar afdráttarlaust. Áhrif á þá þætti sem voru til skoðunar yrðu öll neikvæð, jafnvel verulega. Í álitinu hafi  verið bent oftsinnis á þá vernd sem óbyggð víðerni, fossar og stöðuvötn njóta samkvæmt nýjum náttúruverndarlögum. Þeim má ekki raska nema að brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi.

Enginn veit hvað átt hefur

 Ingólfur segir að gagnlegt sé fyrir alla að umræðan um Hvalárvirkjun hafi eflst síðustu mánuði þó að málið sé langt komið í skipulagsferli. Álit Skipulagsstofnunar og stofnun Rjúkanda, náttúruverndarsamtaka á svæðinu, hafi hreyft við fólki. „Það er eðlilegt í þessari umræðu allri að sýna svæðið, eins og læknarnir tveir hafa gert,“ segir Ingólfur og á þar við Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlækni og Ólaf Má Björnsson, augnlækni. „Því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“

Ingólfur segir að virkjanahugmyndir á Vestfjörðum séu langt í frá …
Ingólfur segir að virkjanahugmyndir á Vestfjörðum séu langt í frá bundnar við Hvalárvirkjun eina. Þegar þeim helstu sem nú eru í umræðunni er safnað saman kemur í ljós að þær eiga að framleiða samtals 137 MW. mbl.is/Golli

Eftir að ljóst varð að engin heilsársstörf myndu skapast með virkjuninni eins og um hafði verið talað, breytti umræðan um stefnu. Í stað þess að tala um jákvæð áhrif Hvalárvirkjunar á atvinnusköpun fór hún yfir í það að virkjunin væri nauðsynleg til að tryggja raforkuöryggi Vestfjarða. „Þá ætti nú að horfa til ríkisins sem hefur ekki staðið sig í því að bæta flutningsleiðirnar inn á svæðið og innan þess,“ segir Ingólfur. „Og það á að nota virkjun þessara þriggja ára til að þrýsta á það.“

Reyndar segir Ingólfur að virkjanahugmyndir á Vestfjörðum séu langt í frá bundnar við Hvalárvirkjun eina. Þegar þeim helstu sem nú eru í umræðunni er safnað saman kemur í ljós að þær eiga að framleiða samtals 137 MW. „Það á að nota þessar fyrirhuguðu virkjanir, nokkrar eða allar, til að setja þrýsting á ríkið til að fara í uppbyggingu á flutningskerfinu.“

Ingólfur bendir á að engin stóriðja sé á Vestfjörðum og þetta afl sé langt umfram það sem Vestfirðingar þarfnist í framtíðinni, hvort sem litið sé til lengri eða skemmri tíma. Augljóst sé að orkuna eigi að flytja út af svæðinu að mestu. Fórnarkostnaður bætts afhendingaröryggis er því keðja virkjanna.  

Ingólfur segir það líklega rétt að Hvalárvirkjun myndi bæta raforkuöryggi á Vestfjörðum að einhverju leyti. En það gætu aðrir virkjunarmöguleikar, og jafnvel smærri, gert. „Það liggur þá beinna við að virkja nær Súðavík þar sem einfaldara yrði að tengja inn á flutningskerfið. En orkufyrirtækin sjá sér ekki hag í svo litlum virkjunum. Það væri hægt að anna raforkuþörf Vestfjarða með lítilli virkjun en slíkt borgar sig ekki að sögn orkufyrirtækjanna.“

Hagkvæmni stærðarinnar leiðir því uppbygginguna.

„Það er eðlilegt í þessari umræðu allri að sýna svæðið, …
„Það er eðlilegt í þessari umræðu allri að sýna svæðið, eins og læknarnir tveir hafa gert,“ segir Ingólfur og á þar við Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlækni og Ólaf Má Björnsson, augnlækni. „Því enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.“ mbl.is/Golli

Átti að afgreiðast með hraði

Ingólfur segist ekki kunna við þá aðferðafræði sem viðhöfð hefur verið við meðferð málsins. Framkvæmdaaðilarnir hafi tvisvar sótt um framkvæmdaleyfi fyrir veglagningu. Vorið 2016 sendu þeir bréf til oddvita Árneshrepps þar sem beðið var um framkvæmdaleyfi fyrir samtals 24 kílómetra löngum vegum um virkjanasvæðið. „Þetta átti að afgreiðast með hraði,“ segir Ingólfur. Svo fór að leyfið var veitt án þess að það væri tekið fyrir í sveitarstjórn þrátt fyrir að óskað væri eftir því. Ekkert varð úr veglagningunni það árið og það rann að lokum út. Þá þurfti að sækja um aftur. „Þeir reyndu aftur að fara þessa leið, viku áður en álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar lá fyrir í vor,“ segir Ingólfur. Þá voru þeir komnir með rannsóknarleyfi frá Orkustofnun.

Fjórir hreppsnefndarmenn mættu á fund þar sem umsókn um framkvæmdaleyfi var tekið fyrir. Ekki var meirihluti fyrir að veita leyfið og eins var óskað eftir að kannað væri hvort þessi framkvæmd þyrfti  að fara í umhverfismat. „Þá snéru framkvæmdaaðilar algjörlega við blaðinu og ákveðið var að gera þetta með skipulagsbreytingum. Ef þessar vendingar hefðu ekki orðið hefði þetta sem fyrr verið unnið í hljóði.“ Það var á þessum tímapunkti sem Ingólfur ákvað að hætta að styðja virkjanahugmyndirnar.

Hreppsstjórn beitt þrýstingi

Að mati Ingólfs beitir framkvæmdaaðilinn hreppstjórn ákveðnum þrýstingi vegna málsins og reki á eftir afgreiðslu þess. Það hafi skapað tortryggni milli hreppsnefndarmanna. Það þyki honum verst.

Hins vegar eigi enn svo margt enn eftir að koma í ljós, til dæmis varðandi línulögnina. „Þetta er alltof stórt og viðamikið mál fyrir svona lítið sveitarfélag að glíma við,“ segir Ingólfur. „Þetta er mjög flókið og þess vegna er best að flýta sér hægt í öllum ákvarðanatökum. Enda liggur ekkert á.“

Skipulagsstofnun mælist til þess í áliti sínu á matsskýrslu á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að framkvæmdaleyfi fyrir virkjun og línulögn verði gefin út samhliða. Báðar þessar framkvæmdir eru taldar hafa áhrif á óbyggðu víðernin á Ófeigsfjarðarheiðinni. Enn er ekki búið að ákveða hvar rafstrengur eða loftlína frá virkjuninni muni liggja og því nokkuð í að mat verði gert á umhverfisáhrifum þeirrar fyrirhuguðu framkvæmdar. 

Ingólfur er efins um að farið verði að ráðum stofnunarinnar í þessu efni. „Miðað við þann þrýsting og þá áherslu sem sett er á málið af hálfu framkvæmdaraðilanna sem mun móta afstöðu sveitarstjórnar þá á ég ekki von á því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert