„Bara akkúrat ekki nein“ neikvæð áhrif

Guðlaugur Ágústsson, bóndi í Steinstúni, fyrir miðri mynd. Hann er …
Guðlaugur Ágústsson, bóndi í Steinstúni, fyrir miðri mynd. Hann er hlynntur virkjanaframkvæmd á Ófeigsfjarðarheiði. mbl.is/Golli

„Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að það væri verið að tala um að virkja Hvalá,“ segir Guðlaugur Ágústsson, bóndi í Steinstúni í Árneshreppi á Ströndum. Hann er uppalinn í hreppnum og hefur búið þar mestan hluta ævi sinnar. Hann er nú 52 ára og yngsti bóndinn í sveitinni. „Þegar fara á í svona framkvæmd eru menn ekkert að gera það að gamni sínu,“ bendir Guðlaugur á um fyrirhugaðar virkjanaframkvæmdir í Ófeigsfirði, eyðifirði norðan Steinstúns, þar sem virkja á vatnsrennsli þriggja áa af Ófeigsfjarðarheiði; Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár.

Síðustu ár hefur hugmyndin þó orðið nokkru raunverulegri en áður að mati Guðlaugs. Aðalskipulagi hreppsins hafi verið breytt fyrir nokkrum árum og ráð gert fyrir fyrirhugaðri virkjun. Guðlaugur situr nú í hreppsnefnd og hefur gert um árabil. Það er hans skoðun að þegar skipulagsmálum sleppir eigi afskiptum hreppsins af málinu að ljúka. „Þetta er einkaframkvæmd í landi sem er í einkaeign. Ég skil ekki af hverju hreppsnefnd Árneshrepps þarf að gefa út framkvæmdaleyfið.“

Þung byrði að bera

Guðlaugur segir að slík ákvörðun sé auk þess frekar þung byrði að bera. „Ég átta mig ekki alveg á því af hverju fimm manna hreppsnefnd í fimmtíu manna samfélagi á að gefa út framkvæmdaleyfi á svona verkefni.“

Engu að síður er það nú raunveruleikinn sem hreppsnefndin stendur frammi fyrir. Og Guðlaugur segir það mikla ábyrgð, hvort sem hreppsnefndarmenn segi nei eða já.

Hann segist ekki sjá að virkjun gæti haft nokkur neikvæð áhrif á samfélagið í Árneshreppi. Nú byggist atvinnulífið fyrst og fremst upp á sauðfjárrækt, sjómennsku og ferðaþjónustu. „Ég sé ekki að þessi framkvæmd gæti haft neikvæð áhrif á þessa þætti, bara akkúrat ekki nein.“

Hvað ferðaþjónustuna varðar er Guðlaugur sannfærður um að virkjun og vegir og slóðar sem henni myndu fylgja myndu opna svæðið betur fyrir ferðamönnum og fleiri þar með leggja leið sína í hreppinn.

Myndi nýtast ferðaþjónustunni

Meðal þess sem hreppsbúar horfa til er línuvegur yfir Ófeigsfjarðarheiði og niður í Djúp. Guðlaugur segir að slík tenging myndi bæta aðgengi ferðamanna að svæðinu yfir sumarmánuðina. Rætt hefur verið um að vegurinn, eða slóðinn, verði ófær mestan hluta ársins. Guðlaugur bendir á að ferðaþjónustan sé nú fyrst og fremst yfir sumarmánuðina og vegurinn gæti eflt hana á þeim tíma. Að auki bendir hann á að vegur norður í Árneshrepp sé hvort eð er ekki mokaður yfir helstu vetrarmánuðina og ferðamenn komist því ekki á svæðið þegar mikill snjór er.

Fólkið í Árneshreppi vill standa jafnfætis öðrum landsmönnum þegar grunninnviðir eru annars vegar, s.s. hvað varðar samgöngur, fjarskipti, rafmagn og hitaveitu. Guðlaugur brosir þegar hann er spurður um þetta og segir glettnislega að „það væri gaman“ að hafa þessa innviði, sem flestir aðrir líta á sem sjálfsagðan hlut, í lagi.

Í fyrsta lagi bendir hann á að vegurinn milli Bjarnarfjarðar og Árneshrepps sé þannig í dag að hann sé einfaldlega ekki þjónustuhæfur yfir vetrarmánuðina. Vegagerðin sinnir þar engum snjómokstri frá því í byrjun janúar og til marsloka. Á þessum tíma er flogið tvisvar í viku milli Gjögurs og Reykjavíkur. Guðlaugur segir að síðustu fimmtán ár hafi „afskaplega lítið verið gert í því“ að bæta þar úr. Fyrir nokkrum árum hafi kafli af veginum verið byggður upp en svo ekki söguna meir. „Það er það sem ergir mig mest, að það skuli ekki hafa verið haldið áfram að laga veginn og gera hann þjónustuhæfan.“

Samgöngubótum ítrekað frestað

Guðlaugur, eins og fleiri hreppsbúar, segir að oftast hafi Árneshreppur mætt afgangi hvað viðvíkur samgöngubótum. „Það fyrsta sem er gert þegar það vantar klink í ríkiskassann er að hætta við samgöngubætur hér,“ segir Guðlaugur.

Tugir fossa eru í ánum ofan af Ófeigsfjarðarheiði. Rennsli í …
Tugir fossa eru í ánum ofan af Ófeigsfjarðarheiði. Rennsli í sumum þeirra mun skerðast verulega hluta úr ári, verði Hvalárvirkjun að veruleika. mbl.is/Golli

Síðustu ár hafa þó náttúruöflin séð til þess að vegurinn hefur oft verið fær. „Þjónustan við hann hefur ekki batnað en snjórinn hefur verið minni,“ útskýrir Guðlaugur. Á slíkt sé þó ekki hægt að stóla.

En þessi vegkafli, milli Bjarnarfjarðar og Norðurfjarðar, hefur ekkert með virkjunarframkvæmdir að gera. Hann verður ekki byggður upp sérstaklega vegna þeirra. „En ég er sannfærður um að þegar svona framkvæmdir fara af stað hljóti þær að kalla á aðgerðir í þessum vegamálum.“

Hann segist þó engin loforð hafa heyrt um að slíkt verði gert. „Ég hef enga fullvissu fyrir þessu en ég er sannfærður um þetta. Maður getur ekki annað gert en að vinna eftir sannfæringu sinni, þótt maður hafi ekkert á blaði.“

Guðlaugur bendir á að eftirspurn eftir rafmagni sé alltaf að aukast, sérstaklega eftir því sem framleitt er á þennan hátt.

Hefur ríkan skilning á náttúruverndarsjónarmiðum

Guðlaugur líkt og svo margir fleiri segist skilja öll sjónarmið sem sett hafa verið fram í umræðunni um fyrirhugaða virkjun á svæðinu. Hann hafi því einnig ríkan skilning á þeim náttúruverndarsjónarmiðum sem fram hafa komið. „Ég veit í hjarta mínu að þessi á verður virkjuð einn daginn, ég hef alist upp við það alla tíð. Og er þá ekki bara best að drífa í því?“

Hann bendir á að gera verði ráð fyrir því að verkefnastjórn rammaáætlunar, sem setti Hvalárvirkjun í nýtingarflokk fyrir nokkrum árum, hafi unnið faglega að því mati sínu. „Ég vil treysta á það ferli. Þetta er góður virkjanakostur þó að þarna verði færðar ákveðnar fórnir og ég skrifa alveg undir að það sé leiðinlegt.“

Eftir að hafa skoðað svæðið m.a. úr lofti segist Guðlaugur hafa sannfærst enn frekar um að þarna ætti að virkja. „Þarna flæðir vatn um urð og grjót,“ segir hann. Þó að nokkur vötn verði stækkuð og einhver sameinuð séu enn hundruð vatna á heiðinni.

„Hér í Norðurfirði mun ekkert sjást sem minnir á þessa virkjun. Þegar komið er í Ingólfsfjörð mun ekkert minna á þessa virkjun. Við bæinn í Ófeigsfirði minnir ekkert á virkjunina. Það er ekki fyrr en komið yrði að Hvalá sem þú færir að sjá eitthvað,“ segir Guðlaugur um möguleg áhrif virkjunarinnar á ferðamennsku.

Tvö börn í skólanum

Samfélagið í Árneshreppi hefur breyst mikið frá því að Guðlaugur var að alast þar upp. Fólki hefur fækkað verulega. Þegar Guðlaugur gekk í Finnbogastaðaskóla voru 20-30 börn í skólanum. Í dag eru þau tvö. Hreppsnefndin og starfsfólk skólans; skólastjórinn, kennarinn og matráðurinn, hafa lagt mikinn metnað í skólann þó að nemendurnir séu fáir. „Það leggja allir áherslu á að börnunum líði vel þarna.“

Þrír bændur fluttu úr Árneshreppi í fyrra. Þar fóru yngstu bændur hreppsins og fimm börn að auki. Fólksfækkunin er ekki Guðlaugi að skapi og hann vonar að íbúum taki aftur að fjölga. Sjálfur er hann ákveðinn í því að búa áfram í Norðurfirði. „Ég hef fest kaup á þessari jörð og langar til að búa hér áfram og vinna.“

Guðlaugur segist hafa mikla trú á auknum umsvifum í hreppnum á framkvæmdatímanum, m.a. að það gæti stutt við verslun á svæðinu en rekstur hennar er í mikilli óvissu í augnablikinu.

Þá er góður flugvöllur á Gjögri sem Guðlaugur telur að hljóti að nýtast í að ferja starfsmenn inn á svæðið á framkvæmdatímanum. Höfnin á Norðurfirði sé einnig góð og þar geti lagst að stór skip.

Í nógu var að snúast hjá Guðlaugi Ágústssyni í Steinstúni …
Í nógu var að snúast hjá Guðlaugi Ágústssyni í Steinstúni í haust í kringum smalamennskuna. Hann er 52 ára og yngsti bóndinn í Árneshreppi. mbl.is/Golli

Samhent samfélag

Spurður um áhrif umræðunnar um virkjunarframkvæmdirnar, sem skiptar skoðanir eru um í þessum fámenna hreppi, á samfélagið segir Guðlaugur að hún hafi engin áhrif haft. „Mér finnst hún ekki hafa haft nein áhrif á nærsamfélagið okkar. Við erum samhent samfélag og leysum í sameiningu öll mál sem upp koma. Ef einhver þarf að smala þá koma allir.“ Það hafi ekki breyst. „Ég hef ákveðna skoðun á þessu máli en ég er ekkert að hugsa um þetta alla daga frekar en aðrir. Þetta er mál sem er í einhverju ferli og ég finn engan mun á okkur sem samfélagi dagsdaglega. Bara alls ekki. Þetta litar ekki samskipti okkar í öðrum málum.“

Mörg mál eru í óvissu í hreppnum í augnablikinu. Óttast var að einu versluninni í hreppnum, Kaupfélaginu á Norðurfirði, yrði lokað í vetur en því tókst að bjarga á elleftu stundu. Þá verður grunnskólinn á Finnbogastöðum ekki starfræktur eftir áramót. „Ef maður sér fram á að á þriggja til fimm ára framkvæmdatíma gæti þetta haldið áfram þá verður maður bara að gjöra svo vel að vera jákvæður fyrir því. Það er ekkert betra í boði. Ég hef mikla trú á að þessi framkvæmd geti skipt heilmiklu máli.“

Kaupa olíu fyrir milljón á mánuði

Höfnin er aðdráttarafl fyrir strandveiðimenn og líflegt er við hana á meðan veiðarnar eru stundaðar. Heimamenn hafa einnig tekið þátt í þeim. Það sem stendur þeirri starfsemi m.a. fyrir þrifum er að samgöngur eru erfiðar á vetrum og ekkert þriggja fasa rafmagn, sem þarf til að keyra t.d. frystigáma, er í boði. Dísilvél er notuð til að framleiða allan ís fyrir höfnina. Keypt er olía fyrir um milljón á hverju sumri til framleiðslunnar. Hins vegar hafi framkvæmdaaðilinn boðist til að leggja hönd á plóg við að koma þriggja fasa rafmagni á í Árneshreppi. Orkubú Vestfjarða er þegar búið að leggja þriggja fasa strengi í jörð að hluta um hreppinn. Hvalárvirkjun gæti flýtt þeirri uppbyggingu að mati Guðlaugs.

Árneshreppur er dreibýll og á vetrum er snjór ekki ruddur …
Árneshreppur er dreibýll og á vetrum er snjór ekki ruddur af löngum köflum í margar vikur. mbl.is/Golli

Guðlaugur segir að best væri að rafmagnið úr Hvalárvirkjun yrði nýtt innan Vestfjarða til að efla þar atvinnulíf. Í hans huga skiptir það máli hver verður kaupandi rafmagnsins. Enn sem komið er sé ekki vitað hver hann verður en Guðlaugur er ekki áhugasamur um að rafmagnið fari til stóriðju. Hann segir að þegar að þessu komi verði íslenskt samfélag að ákveða hvernig atvinnulíf verður byggt upp, hvort áhugi sé á að fá hingað til lands meira af mengandi starfsemi. „Ósnortnum víðernum hefur hingað til verið sökkt undir vatn til að framleiða ál,“ bendir hann á.

Fólk en ekki draugar

Guðlaugur segir að það sé blekking að halda að Árneshreppur verði eins og hann er ef heilsársbúseta leggst af. Það sé misskilningur að halda að sumarbúseta sé nóg til þess að halda flestu í horfinu, s.s. höfninni, félagsheimilinu og þar fram eftir götunum. „Ef fólk vill koma hingað 1. júní og búa yfir sumarið þá getur það ekki ætlast til þess að allt sé til reiðu og eins og það er núna. Það er fáránlegur misskilningur. Það má ekki gera lítið úr því sem við sem hér búum allt árið erum að gera hérna til að halda ákveðnum hlutum gangandi. Það er raunverulegt fólk sem sér um þetta, ekki draugar.“

mbl.is