Ein ljósmynd ýtti umræðunni af stað

Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir birti þessa mynd á Facebook snemmsumars. Hún …
Tómas Guðbjartsson hjartaskurðlæknir birti þessa mynd á Facebook snemmsumars. Hún vakti gríðarlega athygli og á eftir fylgdi mikil umræða um fyrirhugaða Hvalárvirkjun í samfélaginu.

„Viljum við fórna svona perlu fyrir megavött til stóriðju? Slíkt væri brjálæði. [...] Við þurfum að skila svona perlum til næstu kynslóða, ekki til HS Orku eða Vesturverks.“

Þetta skrifaði hjartaskurðlæknirinn, fjallamaðurinn og náttúruunnandinn Tómas Guðbjartsson í facebookfærslu fyrripart sumars. Í færslunni birti hann mynd af sér við Rjúkandafoss í ánni Rjúkanda sem fellur af Ófeigsfjarðarheiði ofan í Ófeigsfjörð á Ströndum og út í hafið.

 

Færslunni var deilt tæplega 1.800 sinnum. Það er kannski einföldun að segja að þessi myndbirting hafi hrundið andmælum við fyrirhugaða Hvalárvirkjun af stað, ýmislegt annað kom til, en ljóst er að hún vakti fólk alls staðar á landinu til umhugsunar og hafði mikil áhrif á umræðuna sem á eftir fylgdi. „Í kjölfarið varð allt vitlaust,“ segir Tómas sjálfur spurður um þau tímamót sem hann stóð á eftir að hafa vakið athygli á fossinum og virkjanahugmyndunum með þessum hætti. Hann hefur síðan þá komið í tugi viðtala og skrifað fjölda greina og facebookfærslna um málið. Tómas vill að hætt verði við fyrirhugaða vatnsaflsvirkjun á svæðinu og að mannlífið á Ströndum og hin óbyggðu víðerni verði virkjuð með öðrum hætti.

Tómas á ættir að rekja til Vestfjarða. Faðir hans ólst upp í Arnarfirði og þar á hann enn skyldfólk sem m.a. vinnur við búskap og fiskeldi. Tómas vann einnig sem læknir á Ísafirði og Suðureyri á námsárum sínum. „Þetta landsvæði togar mikið í mig og þar höfum ég og konan mín, Dagný Heiðdal, eytt hvað mestum okkar frítíma frá því að við fluttum heim til Íslands eftir nám ytra.“

Nánast stigið á hvern blett landsins

Friðlandið á Hornströndum er í miklu uppáhaldi hjá Tómasi sem og Snæfjallaströndin, Kaldalón og svo Strandirnar að norðanverðu. „Þetta er dálítið hrátt svæði en heillaði mig strax og ég kom þar fyrst. Það er ákveðin dulúð sem liggur yfir Ströndunum; Ingólfsfirði og Ófeigsfirði. Þarna endar vegurinn eins og Hrafn Jökulsson skólabróðir minn skrifaði í samnefndri bók.“

Tómas hefur ferðast mjög víða um Ísland, á fáfarna sem fjölfarna staði. „Það má segja að ég hafi komið nánast á hvern einasta blett á Íslandi,“ segir hann brosandi. Oft ferðast hann í félagi við vin sinn, Ólaf Má Björnsson augnlækni. Saman hafa þeir síðustu ár birt myndir og skrifað um víðerni Íslands og verndun þeirra og gert sig gildandi í umræðunni um náttúruvernd.

Fossinn Drynjandi í Hvalá er sjötíu metra hár. Vatnsrennsli í …
Fossinn Drynjandi í Hvalá er sjötíu metra hár. Vatnsrennsli í honum mun minnka verulega verði af Hvalárvirkjun. Myndin er tekin í haust þegar frekar lítið vatn var í fossinum. mbl.is/Golli

Þegar verið var að vinna frummatsskýrslu á fyrirhugaðri Hvalárvirkjun Vesturverks var Tómas fenginn til álits sem náttúruunnandi og stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands. „Ég sagði eins og var að mér hugnuðust þessi virkjunaráform afar illa, þarna væru bæði einstök náttúrufyrirbæri en líka merkilegar menningarminjar. En ég viðurkenni alveg að í þessu viðtali var ég ekki almennilega búinn að átta mig á stórfengleika þessa svæðis. Enda hafði ég þá ekki gengið upp með öllum þremur ánum og aðeins séð neðstu fossana í Hvalá.“

Niðurstaða frummatsskýrslunnar var sú að áhrif á flesta þætti yrðu neikvæð. „Því hélt ég satt best að segja að þetta hefði verið slegið út af borðinu.“ Auk þess hafi lengi verið rætt að Hvalárvirkjun væri óhagkvæmur virkjanakostur vegna gríðarlega hás kostnaðar við rafmagnslínur frá virkjuninni og tengingu við landsnetið.

Hvattur til að kynna sér málið

En allt í einu varð breyting á. Virkjanahugmyndin fékk byr í seglin er HS Orka keypti meirihluta í Vesturverki. Í kjölfarið var farið að ræða um nýjan tengipunkt í Ísafjarðardjúpi og umræðan fór að snúast um að virkjunin gæti þannig aukið raforkuöryggi Vestfjarða.

Í apríl var álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu framkvæmdarinnar gefið út og þrátt fyrir að niðurstaðan væri neikvæð að mörgu leyti fyrir framkvæmdaaðilann var verkefnið skyndilega komið á fleygiferð. „Svo var það í vor að ég fór að heyra að kurr væri í fólki á Ströndum,“ segir Tómas. „Ég var þá hvattur til að koma norður og kynna mér þetta betur.“

Tómas ákvað að taka áskoruninni og snemma í sumar fór hann á Strandir ásamt Dagnýju eiginkonu sinni. „Við gengum þá frá Ófeigsfirði og alveg inn í Reykjarfjörð nyrðri í stórkostlegu veðri og stöldruðum við hjá þessum mikilfenglegu fossum sem eru í þeim ám sem til stendur að virkja.“ Það var í þeirri ferð sem Tómas birti myndina af sér á Facebook við Rjúkandafoss.

Þetta var fyrsta ferð Tómasar af þremur um fyrirhugað virkjanasvæði í sumar. Síðustu ferðina fór hann um miðjan ágúst með hópi fólks sem hafði margt hvað aldrei komið þangað áður og hafði enga tengingu við svæðið og ekki myndað sér skoðun á virkjanahugmyndunum. „Það var nokkuð merkilegt að sjá þetta fólk upplifa þetta svæði og horfa á fossana í fyrsta skipti. Þeim fannst þeir mikilfenglegir. Það var ágætt að fá staðfestingu á því að þetta væri ekki aðeins sérviska í mér,“ segir Tómas brosandi.

Einstaklega vinalegt samfélag

Í sumar hefur Tómas því kynnst svæðinu vel og íbúum á Ströndum. „Þetta er auðvitað stórmerkilegt fólk sem þarna býr við ysta haf. Það er einstaklega vinalegt og þá skiptir engu máli hvort það er með eða á móti virkjuninni.“

Tómas og Ólafur Már, sem farið hafa mjög víða um Ísland fótgangandi, eru sammála um að á heiðunum ofan Ófeigsfjarðar og Eyvindarfjarðar sé sennilega að finna fjölbreyttasta fossalandslag Íslands. Tómas segir nokkuð einfalt að skoða svæðið og á tveimur dögum sé hægt að berja hátt í 100 fossa augum. „Þeir eru ólíkir hver öðrum og allir einstakir á sinn hátt. Þetta eru Gullfossar Stranda.“

Tómas segir auðvelt að byggja þarna upp betri aðstöðu þannig að fleiri geti notið hennar.„Berglögin á svæðinu eru hörð svo að það væri hægt að gera þarna ágætar gönguleiðir með einföldum hætti og sáralitlu raski.“

Bendir hann á að það taki innan við tvo tíma að ganga upp að Drynjanda frá göngubrúnni yfir Hvalá og um tvo tíma upp að Rjúkandafossi.

Einn foss á dag

Í umræðunni hefur ítrekað verið bent á að fáir komi á þetta svæði. Tómas segir það rétt, enda sé það illa kynnt. Að auki búi fáir í Árneshreppi og því eigi fáir leið þar um. „Þegar við Ólafur Már fórum að skoða þetta komumst við fljótt að því að það eru til dæmis ekki til myndir af flestum þessara fossa og afar fáar góðar myndir af náttúruperlum eins og Rjúkandafossi og Drynjanda.“ 

Þegar þeir félagar voru á ferð um svæðið í sumar, og Ólafur fór að taka myndir af öllum fossunum, fæddist hugmyndin að fossadagatalinu sem þeir birtu svo á Facebook, einn foss á dag, nú í haust.

„Það hefur verið gengið hratt á ósnortin víðerni síðustu áratugi og þótt þau sé enn að finna á Íslandi og svæðið umtalsvert í ferkílómetrum talið má ekki gleyma því að hvert og eitt þeirra hefur sína sérstöðu. Fossalandslagið á Ófeigsfjarðarheiði er einstakt og því ber að vernda það. Þetta er auk þess við dyr Hornstranda.“

Tómas hefur verið gagnrýndur fyrir að segja að fossar muni þurrkast upp vegna framkvæmdanna fyrirhuguðu. Hann bendir hins vegar á að ljóst sé að í ofanverðri Hvalá og Eyvindarfjarðará muni rennsli verða 1/50 af því sem það er í dag. Hluta ársins verði farvegirnir nánast þurrir. „Svo er ég ekki að kaupa það að vatn verði sett á fossana fyrir ferðamenn eins og haldið hefur verið fram, jafnvel þó að það sé tæknilega gerlegt.“

Stórbrotið landslag

Fyrir utan rennslið sem verður verulega skert segir Tómas að rask myndi fylgja stöðvarhúsinu, m.a. veglagning, þó svo að húsið yrði sprengt inn í fjallið. Þá yrði einnig sjónmengun að stíflunum sem yrðu þrjár og allt að 33 metra háar. Á heiðinni yrði svo risastórt uppistöðulón sem myndi sjást víða að. „Ég mótmæli því ekki að það sé lítill gróður á heiðinni, þarna á ekki að sökkva stórum gróðurlendum. En þarna er engu að síður áhugavert lífríki og landslagið stórbrotið. Það er engin ástæða til að tala svæðið niður og segja að það megi virkja því þar sé „ekki stingandi strá“ eins og það hefur verið orðað. Fegurð og mikilfengleiki getur verið margskonar og neðar eru heiðarnar mjög grónar með fallegum tjörnum.“

Tómas segir að auka megi aðgengi ferðamanna á svæðið með því að bæta veginn frá Trékyllisvík og inn í Ófeigsfjörð svo hann verði fær fólksbílum yfir sumarmánuðina. Honum hugnast hins vegar engan veginn sú hugmynd að veglagningu sem Vesturverk hyggst ráðast í á svæðinu. Nýi vegurinn myndi ekki liggja að öllu leyti í vegstæði þess gamla. Í Ingólfsfirði yrði hann t.d. lagður í hlíðinni fyrir ofan gömlu síldarverksmiðjuna og myndi spilla þessu einstaka umhverfi sem þar er.

Annar vegur er einnig fyrirhugaður í tengslum við framkvæmdirnar, línuvegur yfir Ófeigsfjarðarheiði. Enn er óvíst hvort hann verði uppbyggður að einhverju marki eða torfær fjallaslóði. Rætt hefur verið um veginn sem „samgöngubót“ fyrir heimamenn. Þeir geti þá ekið hann til að komast frá Árneshreppi og yfir í Djúp þó að leiðin þaðan inn í stærri byggðakjarna sé umtalsverð. Einnig hefur verið rætt um að hann geti orðið lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og myndað nokkurs konar hringtengingu á Vestfjörðum. Ljóst er að snjóþungt er á heiðinni og vegurinn yrði því aðeins fær í fáa mánuði á ári.

„Ég hef ekki heyrt að heimamenn hafi verið að kalla eftir þessum vegi. Þeir hafa viljað betri veg í hina áttina, það er suður með fjörðunum í átt að Hólmavík. Það væri raunveruleg samgöngubót,“ segir Tómas. „Það myndi líka bæta aðgengi ferðamanna inn á svæðið.“

Fögur fjallasýn frá Ófeigsfjarðarheiði.
Fögur fjallasýn frá Ófeigsfjarðarheiði. mbl.is/Golli

Byggt upp með séreinkenni að vopni

Ferðaþjónusta verður sífellt fyrirferðarmeiri á Vestfjörðum, þar með talið á Ströndum, þótt hún hafi ekki aukist nándar nærri jafnhratt og á sunnanverðu landinu. Það gefur hins vegar þann möguleika að vanda til verka og byggja upp þjónustu til framtíðar með séreinkenni svæðisins að vopni. „Möguleikar í ferðaþjónustu eru nær óþrjótandi á Ströndum og þá þarf að virkja,“ bendir Tómas á. Fjallasýnin sé engri lík, dýralífið fjölskrúðugt, þar megi oft sjá hvali, fullt af selum og iðandi fuglalíf. Búskapur og strandveiðar séu stunduð, sem geti einnig dregið ferðamenn að. Krossneslaug sé einstök sveitalaug og byggja mætti enn frekar upp í kringum jarðhitann á því svæði. „Þetta er algjör náttúruparadís,“ segir Tómas en bendir á að auðvelda þurfi ferðamönnum að komast á svæðið, helst allan ársins hring. Það hafi hins vegar setið á hakanum mjög lengi og skrifist á ráðherra og þingmenn kjördæmisins.

„Það er engum blöðum um það að fletta að ferðamenn eiga eftir að leita í auknum mæli að kyrrð og því sérstæða í mannlífi og náttúru. Árneshreppur hefur þetta allt, þessa miklu auðlind.“ Hann telur að með því að virkja á Ófeigsfjarðarheiði sé hreppurinn að „slátra sinni mjólkurkú“.

Botnlangi í raforkukerfinu

Að minnsta kosti tvær virkjanahugmyndir fyrir utan Hvalárvirkjun eru mikið í umræðunni um þessar mundir; Skúfnavötn og Austurgilsvirkjun. Þær myndu nota sama tengipunkt og Hvalárvirkjun í Ísafjarðardjúpi. „Þannig virðist plottið vera; að bæta sífellt fleiri virkjunum við til að réttlæta tengikostnaðinn.“ Þetta finnst Tómasi verða að vera uppi á borðum. Ræða þurfi svæðið í heild með tilliti til allra þessara möguleika.

Hvað hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum varðar segir Tómas að þótt Hvalárvirkjun verði að veruleika sé langt frá því að hringtenging komist á. Ekkert sé fast í hendi þar um, jafnvel þó að virkjanir verði tengdar við tengipunkt í Ísafjarðardjúpi. „Slík hringtenging mun taka áratugi og eftir Hvalárvirkjun verður Ísafjörður áfram eins konar botnlangi í raforkukerfi Vestfjarða.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Tómas bendir á að framkvæmdin í heild sé öll enn óljós og ekkert liggi til að mynda fyrir um lagningu jarðstrengja og lína. „Það heyrist að minnsta kosti ekki mikið í Landsneti sem á að sjá um framkvæmdina. Ég fæ ekki annað ráðið af lestri skýrslna um málið en að fyrst og fremst sé verið að leggja áherslu á tengingu rafmagnsins úr Hvalárvirkjun suður, með því að tengja hana við Vesturlínu í Kollafirði, en ekki beint inn á Ísafjörð og Bolungarvík þar sem þörfin á Vestfjörðum er mest. Vissulega er hringtenging æskileg og myndi bæta raforkuöryggið verulega en það væri hægt að bæta kerfið á Vestfjörðum án þess að fara í Hvalárvirkjun, til dæmis með því að styrkja línurnar inn á svæðið.“

Vestfirðingar eru innan við sjö þúsund talsins. Þar er engin stóriðja og raforkuþörfin er því ekki sérstaklega mikil, sé litið til annarra landshluta. „Ef allar þessar virkjanir sem nú eru á teikniborðinu á Vestfjörðum verða að veruleika erum við að tala um raforkuframleiðslu sem er um 300% meiri en Vestfirðingar þurfa sjálfir, eins og Pétur Húni, formaður náttúruverndarsamtakanna Rjúkanda, hefur bent á.“

Var varaður við harkalegri umræðu

Tómas hefur ekki farið varhluta af hörkunni sem getur einkennt umræðuna um virkjanir. Hann hefur verið kallaður „ríki athyglissjúki læknirinn að sunnan“ sem geti ekki sett sig í spor þeirra sem búa í afskekktum byggðum. Honum hafa ítrekað verið lögð orð í munn til að koma á hann höggi og gera lítið úr innleggi hans til málsins. „Ég vissi alveg út í hvað ég var að fara þegar ég hóf að segja mína skoðun, ég hafði verið varaður við,“ segir Tómas þegar hann er spurður um þetta. „Og ég kvarta ekkert þó að vissulega væri farsælla fyrir alla að komast upp úr skotgröfunum. Ég geri mér grein fyrir að þetta er viðkvæmt mál og hagsmunir geta verið miklir. En umræðan verður að fara fram. Mér er mjög umhugað um að allar skoðanir fái að heyrast, að öll sjónarmið komi fram og upplýst ákvörðun verði svo tekin að lokum um hvort af þessari framkvæmd verður.“

Hann segist bjartsýnn að eðlisfari og telji sig hafa góðan málstað að verja. Það haldi honum við efnið. „Þó að neikvæð ummæli í minn garð séu kannski áberandi þá eru hin jákvæðu margfalt fleiri. Við Ólafur Már höfum skrifað fjölda greina og fengið almennt mjög góð viðbrögð við þeim. Fólk stoppar okkur úti í búð, í fjallgöngum, á tónleikum og í sundi og talar um þetta við okkur.“

Nú um stundir hafi þrjú mál hvílt þungt á Vestfirðingum og þegar gremja vegna þeirra safnast saman verður umræðan stundum hvöss. Vestfirðingar telji sig hafa orðið útundan í innviða- og atvinnuuppbyggingu. Þar sé um að ræða veglagningu um Gufudalssveit (Teigsskóg), sjókvíaeldi í Ísafjarðardjúpi og rafmagnsöryggi. „Vestfirðingar upplifa því sterkan mótvind og það skil ég vel. En það má ekki gleyma því að þessi mál eru ótengd og Hvalárvirkjun verður ekkert betri hugmynd þó að veglagning um Teigsskóg sé enn í uppnámi.“

Börn að leik í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum.
Börn að leik í Trékyllisvík í Árneshreppi á Ströndum. mbl.is/Golli

Ímynd Íslands verði ekki sköðuð

Tómas er sammála því að á undanförnum árum hafi andstaða við virkjanir, og sérstaklega virkjanir til stóriðju, aukist. Ferðaþjónustan blómstri og hún byggist á náttúru landsins. Þó að ferðamenn fari ekki allir inn á ósnortnu víðernin séu þau engu að síður það sem laðar þá til Íslands. Geirinn sé í miklum vexti og fara verði gætilega til að skaða ekki ímynd hans. Á svæðum  þar sem atvinnuleysi var áður mikið, eins og á Suðurnesjum, hafi skapast hundruð starfa, m.a. í Leifsstöð, í tengslum við ferðaþjónustuna. „Vandræði United Silicon í Helguvík hreyfðu líka við þessari umræðu. Þar vöknuðu margir upp við vondan draum. Fólki finnst komið nóg af mengandi stóriðju. Það er til nóg af rafmagni í okkar kerfi, en mikill meirihluti af því fer til örfárra fyrirtækja. Það er augljóslega vitlaust gefið.“

Komið er að ákveðnum vendipunkti í umhverfisvernd að mati Tómasar. Víða um land sé fólk að mótmæla virkjanaframkvæmdum og línulögnum. „Forsendur eru breyttar. Við þurfum ekki fleiri stóriðjufyrirtæki. Fólk vill byggja upp ferðaþjónustuna og gera það vel og nýta náttúruna með sjálfbærum hætti til þess. Slík uppbygging hefur ekki skilað sér enn sem komið er almennilega inn á Strandir. En það gæti breyst, ef á það er stefnt.“

mbl.is