57% eru á leigumarkaði af nauðsyn

Aðeins 14% leigjenda vilja vera á leigumarkaði, en 57% leigjanda …
Aðeins 14% leigjenda vilja vera á leigumarkaði, en 57% leigjanda eru þar af nauðsyn. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Þriðjungur leigjenda greiðir meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í húsaleigu og meira en helmingur leigjenda segist vera á leigumarkaði af nauðsyn.

Þetta kemur fram í könnun hagdeildar Íbúðalánasjóðs, sem Una Jónsdóttir hagfræðingur í hagdeildarinnar, kynnti á húsnæðisþingi í dag.

Könnunin sýnir að sífellt stærra hlutfall Íslendinga er á leigumarkaði, en 80% leigjenda velja kaupa sér íbúð og að um 57% leigjenda segjast vera á leigumarkaði af nauðsyn. Þriðji hver leigjandi borgar meira en helming af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og fáir tekjulágir leigjendur geta safnað sér sparifé.

Mikill áhugi er á að búa í öruggu leiguhúsnæði sem er ekki rekið í hagnaðarskyni og þar sem húsnæðiskostnaði er haldið í hófi.

„Fólk á leigumarkaði virðist vera fast þar, gegn sínum vilja eins og staðan er í dag,“ er haft eftir Unu í fréttatilkynningu frá Íbúalánasjóði. 

„Fólk á leigumarkaði virðist vera fast þar, gegn sínum vilja …
„Fólk á leigumarkaði virðist vera fast þar, gegn sínum vilja eins og staðan er í dag,“ sagði Una Jónsdóttir hagfræðingur hjá Íbúðalánasjóði. Ljósmynd/Íbúðalánasjóður

Í erindi sínu lýsti Una áhyggjum af því að úrræði stjórnvalda, sem eiga að hjálpa fólki að kaupa sér íbúð og komast þannig af leigumarkaði, gagnist síður tekjulágum leigjendum. Sem dæmi nefndi hún að aðeins um helmingur leigjenda sé með séreignarsparnað. Eftir því sem tekjur leigjenda eru lægri, minnka líkur á því að viðkomandi sé að safna sér sparnaði. 

17% heimila á Íslandi í dag eru á leigumarkaði og eru ungt fólk, námsmenn og öryrkjar hópar sem eru sérstaklega líklegir til að leigja sér húsnæði. Athygli vekur að um 20% fólks á leigumarkaði leigir hjá ættingjum sínum eða vinum. Þetta fólk telur sig almennt búa við húsnæðisöryggi, ólíkt fólki á almennum leigumarkaði sem telur markaðinn ekki vera traustan.

Leigjendur borga að meðaltali 41% af ráðstöfunartekjum sínum í leigu og geta fleiri leigjendur nú safnað sér sparifé en árið 2015. Þrátt fyrir það er meirihluti leigjenda þó enn ekki í þeirri stöðu að geta safnað sér sparnaði. Þá vilja aðeins 14% leigjenda vera á leigumarkaði, en 57% leigjanda eru þar af nauðsyn.

Aðeins 14% leigjenda vilja vera á leigumarkaði.
Aðeins 14% leigjenda vilja vera á leigumarkaði. Ljósmynd/Íbúðalánasjóður

„Staðan á húsnæðismarkaði hefur verið býsna erfið upp á síðkastið. Hækkanir á fasteignaverði hafa tekið fram úr aukningu kaupmáttar og öðrum undirliggjandi stærðum með þeim afleiðingum að fólk sem er að reyna að komast inn á markaðinn kemst ekki að. Það er ánægjulegt að sjá að leigjendur geta í auknum mæli lagt til hliðar en aftur á móti sorglegt að sjá það ekki endurspeglast í aukinni kaupgetu. Fólk á leigumarkaði virðist vera fast þar, gegn sínum vilja eins og staðan er í dag,“ er haft eftir Unu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert