„Ætla alltaf að standa með sjálfri mér“

Birna Rún Eiríksdóttir, leikkona, greinir frá reynslu sinni af kynferðislegri …
Birna Rún Eiríksdóttir, leikkona, greinir frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni í færslu á Facebook-síðu sinni. Ljósmynd/Facebook-síða Birnu Rúnar

„Ég er engin Björk Guðmundsdóttir, og ekki heldur Angelina Jolie. Ég er aðeins lítil leikkona sem býr í Hafnarfirði. En einmitt þess vegna langar mig að tjá mig opinbert hvað varðar fréttir vikunnar um Weinstein, eftir að Björk setti hlutina í samhengi og veitti mér innblástur og skilning.“

Á þessum orðum hefur Birna Rún Eiríksdóttir, leikkona, stöðuuppfærslu sína á Facebook. Birna Rún hefur nú bæst í hóp fjölda kvenna sem hef­ur að und­an­förnu stigið fram og greint frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni. Fjöldi leikkvenna hefur komið fram síðustu daga og sakað kvik­mynda­fram­leiðand­ann Har­vey Wein­stein um kyn­ferðis­lega áreitni og kyn­ferðis­legt of­beldi. Yfir 30.000 konur hafa nú notað myllumerkið #metoo á samfélagsmiðlum til að greina frá reynslu sinni af kynferðislegri áreitni.

Birna Rún útskrifaðist frá leiklistardeild Listaháskóla Ísland í fyrra og hefur vakið athygli fyrir leik sinn, meðal annars í kvikmyndinni Óróa og sjónvarpsþáttunum Rétti. Birna Rún hlaut Edduverðlaun í fyrra sem besta leikkona í aukahlutverki fyrir leik sinn í Rétti. 

„Ég er 24 ára og útskrifaðist í fyrra sem leikkona. Ferill minn er því nýhafin og reynslan ekki mikil. Þrátt fyrir þessa litlu reynslu þá hef ég mikla þörf fyrir að tjá mig um kynbundið ofbeldi á þessu starfsviði,“ skrifar Birna Rún í færslu sinni.

Snýst um meira en Weinstein

Birna Rún hefur verið að leika frá 16 ára aldri og greinir hún frá upplifun sinni af andlegri og líkamlegri áreitni. „Það sem ég hef fundið kemur fram í mörgum mismunandi myndum. Sumt snýst um útlit og þörf leikstjóra fyrir því að ég sé kynþokkafull, eða sýni hold þegar það styður ekki við það sem við erum að gera. Annað eru leikstjórar sem eiga erfitt með það að ég standi með sjálfri mér og þarfnist þeirra ekki, og beita því andlegu ofbeldi. Það hefur tekið á í gegnum námið og eftir það, að elska mig eins og ég er. Að standa með mínum skoðunum og að skilja að ég sé klár leikkona burt séð frá því hvernig líkami minn lítur út,“ segir í færslu Birnu Rúnar.

Birna Rún vill vekja athygli á því að málið snúist um svo miklu meira en „bara einhvern Weinstein útí Hollywood.“ „Þetta er allstaðar og kemur fram í allskyns myndum. Jafnvel innan þeirra veggja sem ég trúði að færi fram ótrúlega fagleg vinna og þar sætu upplýstasta fólk Íslands. Fólkið sem er svo duglegt að gagnrýna hið ýmsa við okkar samfélag og hefur unnið við að endurspegla það á sviðinu. Jafnvel þar, er líka gröftur. Gamall skítur sem engum tekst að þrífa því að það eru allir svo hræddir, og halda bara áfram að gera sexy pósur ofan á öllun greftrinum.“

Birna Rún segist jafnframt vera þakklát fyrir að átta sig á því svo snemma á ferli sínum að kynferðisleg áreitni er til staðar í kvikmyndaheiminum. „Þakklát fyrir að skilja svona snemma að ég þarf ekki að leggjast lágt gagnvart sjálfri mér til að ná langt í því sem ég geri. Ég ætla alltaf að standa með sjálfri mér.“

Færsla Birnu Rúnar í heild sinni:  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert