Innihaldi upplýsingar um fjármál þúsunda

Í tilkynningu segir að nauðsynlegt hafi verið að grípa til …
Í tilkynningu segir að nauðsynlegt hafi verið að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða. Friðrik Tryggvason

Glitnir lagði fram kröfu um lögbann á frekari umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media, unna upp úr gögnum innan úr Glitni HoldCo ehf. vegna þess að taldar eru yfirgnæfandi líkur á því að í gögnum sé að finna upplýsingar um persónuleg fjárhagsmálefni þúsunda fyrrverandi viðskiptavina bankans. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Glitnir sendi frá sér nú fyrir skömmu.

Þar kemur jafnframt fram að bankinn hafi talið nauðsynlegt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að gæta hagsmuna viðskiptavina sinna.

Sýslumaðurinn í Reykjavík samþykkti fyrr í dag að lögbann yrði lagt við frekari umfjöllun sem unnin væri upp úr eða byggði á umræddum gögnum úr fórum eða kerfum Glitnis HoldCo ehf. sem bundnar væru bankaleynd. Ekki var hins vegar fallist kröfu um að hald yrði lagt á gögnin.

Jóhannes Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, sagði í samtali við mbl.is fyrr í kvöld að í hans huga væri um að ræða mjög grófa aðför að lýðræðinu í landinu

Hann sagði jafnframt að ef reynt hefði verið að leggja hald á gögnin þá hefði hann frekar látið handtaka sig en að láta þau af hendi. „Ef þeir hefðu reynt það, þá hefði ég neitað að láta þau af hendi og frek­ar látið handa­taka mig. Ég myndi aldrei láta nein gögn af hendi, því heim­ilda­vernd blaðamanna nær út yfir allt – líka gröf og dauða.“

Þá hefur Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, fordæmt lögbannið. „Þess­ar aðgerðir eru aðför að tján­ing­ar­frelsi fjöl­miðla og rétti blaðamanna að afla sér gagna og vinna úr þeim. Banka­leynd þjón­ar eng­um nema þeim sem hafa eitt­hvað að fela,“ sagði hann meðal annars um lögbannið.

Hér má sjá fréttatilkynningu frá Glitni HoldCo ehf. í heild sinni:

Fyrr í dag féllst embætti sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu á beiðni Glitnis HoldCo ehf. um að lögbann yrði lagt við tilteknum fréttaflutning Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. og Reykjavík Media ehf. Nánar tiltekið var þess krafist að lögbann yrði lagt þá þegar við birtingu Útgáfufélagsins Stundarinnar ehf. og Reykjavík Media ehf. á öllum fréttum eða annarri umfjöllun er byggði á eða væri unnin upp úr gögnum úr fórum eða kerfum Glitnis HoldCo ehf. sem bundnar væru bankaleynd samkvæmt 58. gr. laga nr. 161/2002. 

Nefnd krafa var lögð fram þar sem Glitnir HoldCo ehf. taldi yfirgnæfandi líkur á því að umfjöllun umræddra fréttamiðla byggði á gífurlegu magni gagna sem innihéldi upplýsingar um persónulega fjárhagsmálefni þúsunda fyrrverandi viðskiptavina Glitnis HoldCo ehf. Stjórn Glitnis HoldCo ehf. taldi því nauðsynlegt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að gæta hagsmuna sinna viðskiptavina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert