Ósnortin víðerni ein mesta auðlind þjóðarinnar

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, fer á hverju ári í …
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, fer á hverju ári í Árneshrepp á Ströndum. Ljósmynd/Páll Guðmundsson

Skilningur á gildi óbyggðra víðerna í útivist Íslendinga hefur verið að aukast hratt síðustu ár, segir Páll Eysteinn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. „Ósnortin víðerni og óspillt náttúra er ein mesta auðlind þjóðarinnar og við þurfum að varðveita hana til framtíðar.”

Hann segir að Ferðafélags Íslands leggi mikla áherslu á að óbyggðir landsins verði verndaðar. Í umhverfisstefnu félagsins er lagst gegn stórfelldum, manngerðum framkvæmdum í óbyggðum. „Þó að það hafi breyst mikið á undanförnum árum þá held ég að við höfum ekki ennþá áttað okkur til fulls á verðmæti ósnortinna víðerna og óspilltrar náttúru.“

Hann segir að í starfi Ferðafélagsins sé lögð áhersla á að náttúran fái að njóta vafans í samskiptum við manninn. Félagið gefi sig ekki út fyrir að vera á móti virkjunum en hvetur frekar til þess að þau svæði sem þegar hafa verið lögð undir slíkt séu nýtt betur sem og fleiri möguleikar til orkuöflunar skoðaðir eins og t.d. vindmyllur. „Svo eru alls konar framtíðarmöguleikar sem eru innan seilingar í þessum efnum, svo sem virkjun sjávarstrauma í sjávarföllum. Þess vegna borgar sig að flýta sér hægt í þessum efnum því það hljóta allir, hver svo sem skoðun þeirra er á frekari virkjunum, að vilja fara bestu leiðina til framtíðar litið.“

Náttúran sem auðlind aldrei verðlögð

Páll telur að sjálfbær ferðaþjónusta, með náttúruvernd og sátt við samfélagið að leiðarljósi, eigi eftir að vaxa enn frekar fiskur um hrygg. „Og í allri þessari umræðu sem verið hefur um virkjanir þá hefur náttúran sem auðlind í sjálfri sér aldrei verið verðlögð. Það er ekki gert ráð fyrir þeirri auðlind sem óspillt náttúra er í útreikningunum.“

Hann bendir á að náttúran sé auðlind þjóðarinnar og til framtíðar litið sé brýnt að vernda hana. „Ferðaþjónustan er farin að skapa okkur miklar gjaldeyristekjur. Atvinnugreinin er ung hér á landi og ég tel að við eigum mjög mikið inni enn hvað hana varðar.“

Í matsskýrslu um umhverfisáhrif fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar í Árneshreppi á Ströndum, kemur fram að framkvæmdin myndi hafa neikvæð áhrif á flesta þætti svo sem vatnafar, gróðurfar, dýralíf, náttúruminjar og fleira. „Um leið mun virkjunin skerða tækifæri til uppbyggingar út frá forsendum náttúrunnar.“

Páll segir að ýmis tækifæri séu fyrir hendi í Árneshreppi …
Páll segir að ýmis tækifæri séu fyrir hendi í Árneshreppi hvað ferðamennsku varðar. „Það væri hægt að bjóða upp á fuglaskoðun, hvalaskoðun og svo er gróðurfarið einstakt. Þróun og tækifæri í sjálfbærri ferðaþjónustu á svæðinu eru miklir.“ Myndin er af Krossneslaug. Ljósmynd/Páll Guðmundsson

Mörg tækifæri til uppbyggingar

Páll heimsækir Árneshrepp  á hverju ári. „Mér finnst alltaf eins og ég sé að keyra inn í nýjan heim.“ Hin óspillta og mikilfenglega náttúra spilar þar stórt hlutverk en hið einstaka samfélag þeirra sem þar búa ekki síður. „Og það er þetta sem dregur mann þangað aftur og aftur. Þetta er stóra auðlindin á svæðinu.“

Mikil fólksfækkun hefur átt sér stað í Árneshreppi síðustu áratugi. „Hvað framtíð samfélagsins þarna varðar þá væri miklu nær að skapa þar störf til framtíðar, til dæmis í ferðaþjónustu.“

Páll nefnir sem dæmi að mögulega væri heilsuhótel og náttúrusetur áhugaverðir kostir. „Dýralífið þarna er auðvitað fjölbreytt og stórkostlegt. Það væri hægt að bjóða upp á fuglaskoðun, hvalaskoðun og svo er gróðurfarið einstakt. Þróun og tækifæri í sjálfbærri ferðaþjónustu á svæðinu eru miklir. “

Virkjunin mun hins vegar ekki skapa nein störf til framtíðar. Hún verður mannlaus. Páll óttast að hún muni líklega hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á svæðinu. „Annars konar uppbygging, án virkjunar, myndi hafa miklu meiri áhrif á ferðamennskuna á þessum slóðum.“

Stórkostleg fossaröð

Ljóst er að verði virkjað á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi mun rennsli minnka í ánum þremur sem verða virkjaðar. Hlutar árfarveganna verða nánast þurrir á tímabilum ár hvert. „Ég efast ekkert um að framkvæmdaaðilar vilji vanda sig og sjá til þess mannvirki verði eins lítið sýnileg og frekast er unnt en það breytir ekki því að helstu áhrifin koma fram í vatnsmagninu í ánum. Stórkostleg fossa- og flúðaröð verður skemmd með þessari framkvæmd.“

„Mér finnst alltaf eins og ég sé að keyra inn …
„Mér finnst alltaf eins og ég sé að keyra inn í nýjan heim,“ segir Páll um samfélagið og náttúruna á Ströndum. Ljósmynd/Páll Guðmundsson

Til stendur að leggja bráðlega fram tillögu að breyttu aðal- og deiliskipulagi í Árneshreppi, þar sem gert er gert ráð fyrir veglagningu frá Trékyllisvík, um Ingólfsfjörð og inn í Ófeigsfjörð. „Þetta er vegur sem liggur um þessa tvo einstöku eyðifirði,“ segir Páll. Samkvæmt tillögunum á að byggja vegslóðann upp þannig að hann verði fjórir metrar á breidd og áhrifasvæði hans verði tólf metrar á breidd.

Veginum er ætlað að bera þungaflutninga. „Þessi vegur mun hafa verulega neikvæð sjónræn áhrif inn í þá einstöku náttúru sem finna má í þessum fjörðum.“

Einstakt land

Páll segir að bæta verði raforkuöryggi á Vestfjörðum, á því leiki enginn vafi. Hins vegar spyr hann hvort áherslan sé rétt, að byrja á að byggja stóra virkjun á Ófeigsfjarðarheiði sem skerða mun verulega óbyggð víðerni. „Fyrirhugað framkvæmdasvæði er á einstöku landi óspilltrar náttúru og tengist Hornströndum sem eru einstakar á heimsvísu og skipta Vestfirðinga miklu máli. Til eru aðrar leiðir til að tryggja afhendingaröryggi raforku til Vestfjarða en að ráðast í þessa virkjun. Hugmyndir um virkjanir í óspilltri náttúru í óbyggðum ættu að heyra sögunni til. “

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert