Þjóðgarður í stað Hvalárvirkjunar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir stóra verkefnið að móta …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar, segir stóra verkefnið að móta framtíðarsýn í orkumálum. mbl.is

Kúvending hefur orðið í umræðunni um stóriðju á Íslandi í kjölfar vandræða við rekstur kísilvers United Silicon í Helguvík að mati Guðmundar Inga Guðbrandssonar, framkvæmdastjóra Landverndar. „Eitt mál, þar sem heilsu fólks er ógnað, getur gjörbreytt afstöðu fólksins.“

Hann segir að á undanförum árum hafi umræðan verið að færast í þessa átt. Það staðfesti meðal annars skoðanakannanir á viðhorfum fólks til álvera. Um 60% aðspurðra vilja nú þjóðgarð á miðhálendinu, svo annað dæmi sé tekið.

Þessi breytta sýn samfélagsins kallar að mati Guðmundar Inga á nýja stefnu stjórnvalda í málaflokknum.

„Ég stend í þeirri meiningu að það hafi margt breyst í náttúruverndar- og umhverfismálum frá því að deilan um Kárahnjúka stóð sem hæst,“ segir hann. „Það er tilfinning mín að við séum að þokast í rétta átt. En svo koma upp einstök mál þar sem umræðan verður mjög hörð.“

Eitt nýjasta dæmið er fyrirhuguð Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Í Ófeigsfirði stendur til að reisa 55 MW virkjun og nýta til þess rennsli þriggja áa; Hvalár, Rjúkanda og Eyvindarfjarðarár. Þrjú uppistöðulón yrðu búin til á Ófeigsfjarðarheiði með því að koma upp fimm stíflum við stöðuvötn sem þar eru. Rennsli í öllum ánum mun minnka og stundum verulega á ákveðnum árstímum.

Hið fyrirhugaða virkjanasvæði er auk þess í óbyggðu víðerni samkvæmt skilgreiningu náttúruverndarlaga. Þaðan er langt í allar tengingar við meginflutningsnet raforku og því þarf að leggja háspennulínu um langan veg. Framkvæmdaaðilinn VesturVerk vill að hann verði lagður í jörð. „VesturVerk hefur hreinlega ekkert um það að segja hvort jarðstrengur eða loftlína verði lögð, því lögum samkvæmt er það Landsnets að ákveða það,“ bendir Guðmundur á.

Fossinn Drynjandi í Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum.
Fossinn Drynjandi í Hvalá í Ófeigsfirði á Ströndum. mbl.is/Golli

En hvort sem slíkt verður gert eða loftlína reist þá munu uppstöðulón, efnistaka, rask, vegir lagðir til rannsókna og línuvegur valda skerðingu á víðernunum. Samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar munu óbyggð víðerni skerðast um 12,5-19% eftir því hvort línan er lögð í jörð eður ei.

Á svipuðum slóðum eru nú einnig uppi hugmyndir um aðra virkjun, Austurgilsvirkjun og ef af henni yrði myndi skerðingin nema 530 km2 eða um 35% af víðernum svæðisins. Sá ferkílómetrafjöldi er tuttugufalt meiri en stærðarviðmið náttúruverndarlaga fyrir víðerni.

Hvalárvirkjun var sett í orkunýtingarflokk rammaáætlunar á Alþingi árið 2013. Rökstuðningurinn var sá að um væri að ræða eina virkjunarkostinn á Vestfjörðum sem metinn var af öllum faghópum. „Virkjun á Vestfjörðum skiptir miklu máli fyrir raforkuöryggi þar,“ stóð í rökstuðningnum.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Landvernd mótmælti því að Hvalárvirkjun færi í nýtingarflokk en Guðmundur Ingi viðurkennir að Landvernd og önnur náttúruverndarsamtök hefðu mátt leggjast betur yfir þessa virkjunarhugmynd á þeim tímapunkti. Mjög margar hugmyndir víða um land hafi verið til umfjöllunar á sama tíma vegna rammaáætlunar. „Þó svo að virkjunarhugmynd sé sett í nýtingarflokk þá þýðir það alls ekki að þar með verði sjálfkrafa og án allrar umfjöllunar virkjað þó að það virðist vera upplifun margra á þessu ferli. Í þessu tilviki átti til dæmis eftir að vinna mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og það leiddi síðan í ljós mjög neikvæð áhrif á náttúruna. Slíkt mat á auðvitað alltaf að hafa áhrif á lokaákvörðun um hvort virkjað verði eða ekki.“

Landvernd voru einu félagasamtökin sem gerðu athugasemdir við frummatsskýrslu framkvæmdaaðilans Vesturverks á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar og gerðu líka alvarlegar athugasemdir við aðalskipulag Árneshrepps árið 2010.

Í apríl gaf svo Skipulagsstofnun út álit sitt á matsskýrslunni. Niðurstaðan var sú að virkjunin myndi hafa neikvæð áhrif á flesta þá þætti sem voru til skoðunar.

Í álitinu er fjallað ítarlega um óbyggð víðerni og stöðuvötnin og fossana á heiðinni sem njóta sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Samkvæmt lögunum má ekki raska þeim nema að brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi.

„En svo má spyrja, hver er þessi brýna nauðsyn? Eins og málin líta út núna þá mun Hvalárvirkjun og tengingar hennar við flutningsnetið engu máli skipta hvað varðar raforkuöryggi á Vestfjörðum nema ráðist verði í hringtengingu rafmagns á Vestfjörðum sem kæmist sennilega aldrei á fyrr en að 15-20 árum liðnum ef vel gengi,“ segir Guðmundur Ingi.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Rafmagnið á að leiða yfir Ófeigsfjarðarheiði og niður í Djúp og þaðan líklega í Kollafjörð á Barðaströnd og í Vesturlínu sem flytur rafmagn inn á Vestfirði. „Það sem næst með þessu er að setja meira rafmagn á línuna og þá mögulega á leiðina til Ísafjarðar. En raforkuöryggið snýst ekki um að það vanti rafmagn heldur að það geta verið tíðar bilanir á loftlínum á leiðinni frá tengivirkinu í Geiradal [við Gilsfjörð], að Mjólkárvirkjun og þaðan inn á suðurfirðina og til Ísafjarðar. Þannig að ef menn vilja bæta afhendingaröryggið á Vestfjörðum þá setja menn þessar línur, sem útsettar eru fyrir bilunum, í jörð sem allra fyrst. Það ætti að taka mun skemmri tíma en að bíða eftir öllum þessum virkjunum.“

Guðmundur Ingi veltir líka fyrir sér kostnaðinum við að koma upp nýjum tengipunkti í Djúpi sem til þarf vegna Hvalárvirkjunar og raflínu þaðan og á Barðaströnd. „Það er líklegt að þessi kostnaður verði hár og Landsnet hefur ekki aðrar bjargir en þær að velta honum yfir á gjaldskrá sína sem þýðir að raforkuverð til almennings myndi hækka.“

Hann bendir ennfremur á að orkufyrirtækin, sem selja stóriðjufyrirtækum rafmagn, þyrftu að taka umframkostnað vegna uppbyggingarinnar á sig þar sem stóriðjan sé varin fyrir slíku í raforkusamningum sínum. „Þá erum við farin að tala um að almenningur og fyrirtæki í eigu almennings yrðu farin að niðurgreiða einkaframkvæmd. Og hvernig hljómar það?“

Guðmundur Ingi segir að umræðan um Hvalárvirkjun minni um margt á þá sem varð í kringum Kárahnjúka. Byggðapólitíkinni sé enn beitt af afli til að réttlæta óafturkræfar framkvæmdir. Kárahnjúkavirkjun naut stuðnings stjórnmálamanna sem vildu snúa byggðaþróun við með mikilli innspýtingu í atvinnulífið á Austurlandi. En hvorki Árneshreppur né Vestfirðir fái neina innspýtingu með Hvalárvirkjun til lengri tíma litið.

„Eitt hefur hins vegar ekki breyst frá því að umræðan um Kárahnjúka stóð sem hæst og það er að enn eru þau rök sett fram hvað varðar Hvalárvirkjun að fáir komi á svæðið og því sé betra að virkja það. Ferðamennska hefur enn sem komið er ekki verið mikil á þessum hluta landsins en það gerir svæðið ekkert minna verðmætt. Það eru þarna stór víðerni. Með Kárahnjúkavirkjun voru stór víðerni klofin í herðar niður. Það er eitthvað sem við ættum að varast að gera aftur. Við berum líka alþjóðlega ábyrgð þegar kemur að vernd þeirra. Einfaldlega vegna þeirrar staðreyndar að á Íslandi eru ein stærstu ósnortnu víðerni Evrópu. Þetta setur okkur í þá stöðu að þurfa að standa sérstaklega vörð um þau. Þessi fyrirhugaða framkvæmd er augljóslega í mótsögn við það.“

Í Árneshreppi á Ströndum búa rétt innan við fimmtíu manns og þar af hafa þar um þrjátíu vetursetu. „Yngsti bóndinn er rúmlega fimmtugur,“ segir Guðmundur um samfélagið á Ströndum. „Tvær barnafjölskyldur fluttu úr hreppnum í fyrra og alls tíu manns. Þetta er sárt að horfa upp á og eðlilega vill fólk fá eitthvað til að reyna að bjarga samfélaginu. En ef fólk á þessu svæði hefur raunverulegan vilja til að byggja upp samfélagið og laða að sér ungt fólk, eins og ég veit svo sannarlega að það hefur, þá er þessi virkjun ekki svarið. Hreppsbúar vilja tvennt; fleira fólk og bættar samgöngur árið um kring. En það fær hvorugt með Hvalárvirkjun.“

Guðmundur Ingi ásamt hópi fólks við Rjúkandafoss í Rjúkanda á …
Guðmundur Ingi ásamt hópi fólks við Rjúkandafoss í Rjúkanda á Ófeigsfjarðarheiði í sumar.

Á aðalfundi sínum í vor setti Landvernd fram hugmynd um þjóðgarð á svæðinu. Hún var svo kynnt fyrir heimamönnum á íbúafundi í júní. Miðað við reynslu af öðrum þjóðgörðum á Íslandi myndu skapast 1-2 heilsársstörf í upphafi auk þess sem ráða þyrfti töluverðan fjölda til landvörslu og fleiri starfa yfir sumartímann. „Það væri því mjög öflug byggðaaðgerð,“ segir Guðmundur um möguleika til uppbyggingar í Árneshreppi. „Það er hægt að beita friðlýsingum til að bæði vernda náttúruna og búa til fjölbreytt atvinnutækifæri. Svo hún getur vissulega verið arðbær.“

Hægt væri að tengja svæðið friðlandinu á Hornströndum. Mögulegt væri að hafa byggðina í Árneshreppi inni á verndarsvæðinu eða utan þess. „Þetta er byggð við ysta haf með fjölbreyttar minjar um búsetu, atvinnuhætti og sögu þjóðarinnar,“ segir Guðmundur Ingi, „og þarna liggja tækifæri í ferðaþjónustu framtíðarinnar þar sem sífellt er leitað að einhverju sem er öðruvísi og sérstakt.“

Það tekur tíma að stofna þjóðgarð. En það sama má segja um að byggja virkjun, t.d. gera áætlanir varðandi Hvalárvirkjun ráð fyrir alls fjórum og hálfu ári, einu í undirbúningsframkvæmdir og vegagerð og þremur í byggingartíma virkjunarinnar sjálfrar. Þá er ekki talið með rannsóknaundirbúningur, mat á umhverfisáhrifum eða skipulagsbreytingar. „Það tók hins vegar fjögur ár að koma Þjóðgarðinum Snæfellsjökli á koppinn eftir að undirbúningsnefnd að stofnun hans skilaði lokaskýrslu sem var grunnur að stofnun þjóðgarðsins,“ segir Guðmundur Ingi.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Í hvert sinn sem nýr áfangi rammaáætlunar er tekinn fyrir bætist í orkunýtingarflokk hennar. Á sama tíma vantar stefnu um í hvað eigi að nota orkuna, verði hún virkjuð. „Því komast margar hugmyndir í umferð; frekari stóriðja, sæstrengur til Evrópu, uppbygging gagnavera og kísilvera og svo það nýjasta: Orkuskiptin,“ segir Guðmundur Ingi. „Við getum ekki gert þetta allt saman og því þurfum við skýra sýn og forgangsröðun. Við erum með auðlind sem er takmörkuð því hún er eftirsóknarverð í mörgum geirum. Á meðan það er ekki stefna um í hvað eigi að nota orkuna eða hve mikla orku við ætlum að framleiða, og á sama tíma er dælt inn í nýtingarflokkinn, þá þjónar rammaáætlun aðallega hagsmunum þeirra sem vilja virkja meira.“

Guðmundur Ingi segir þetta stóra verkefnið, að marka stefnu til framtíðar. „Og um hana þarf að skapast sátt.“

Hann vonar að sú óánægja sem skapaðist í kjölfar vandræða kísilvers United Silicon í Helguvík eigi eftir að vekja samfélagið og stjórnvöld til umhugsunar um framhaldið. „Við Íslendingar þurfum kannski að hugsa þetta svolítið upp á nýtt. Í hvað á orkan okkar að fara?“

mbl.is