Allar þjóðlendur á einum stað

Hér má sjá hvar þjóðlendurnar eru á landinu. Hægt er …
Hér má sjá hvar þjóðlendurnar eru á landinu. Hægt er að þysja mikið inn á kortið, til að glöggva sig á mörkunum með nákvæmari hætti. Til að fá þekjuna upp þarf að smella á „sérkort“ og velja „Eignamörk LM“. Skjáskot/Loftmyndir

„Þetta eru gögn sem við höfum safnað héðan og þaðan,“ segir Daði Björnsson, landfræðingur hjá Loftmyndum, um nýja þekju sem bætt hefur verið við kort fyrirtækisins á vefnum map.is. Þar má í fyrsta sinn sjá á einum stað upplýsingar um þjóðlendur landsins. Skotveiðimenn fagna kortinu.

Daði segir að sumt á kortinu sé nákvæmt en annað ágiskun eða gróf áætlun. Kortið hafi enga lagalega stöðu en unnið hafi verið að því að afla þessara gagna í tíu til fimmtán ár. Þar hafi margir aðilar lagt hönd á plóg.

Fram kemur þegar kortið er opnað á vefnum að gögnin á þessari þekju séu af ýmsum uppruna. „Helstu heimildir eru Nytjalandsverkefnið, Gróðurkort RALA, úrskurðir Óbyggðanefndar (grænt), lóða- og landamerkjaþekjur sveitarfélaga, skipulagsuppdrættir og landeignaskrá Þjóðskrár. Drjúgur hluti á einnig uppruna sinn í eigin gagnaöflun Loftmynda ehf (LM) þá mest eftir landamerkjabókum, dómum og fyrirsögn staðkunnugra,“ segir þar.

Þjóðlendur grænmerktar

Fram kemur að öll gögnin séu aðlöguð, samsett og leiðrétt af Loftmyndum svo þau mynda heildræna þekju yfir landið. Þjóðlendur eru grænmerktar. Rauðlituð eru svæði þar sem upplýsingar um skiptingu lands vantar og óska Loftmyndir eftir ábendingum þar að lútandi. Þá er ítrekað að víða leynist villur í kortinu, þegar kemur að skilum á milli jarða.

Blá svæði eru nokkur á Vesturlandi en Daði segir að í þeim tilvikum sé um að ræða kröfur um þjóðlendur sem fjármálaráðherra hefur sett fram fyrir hönd ríkisins.

Óbyggðanefnd hefur úrskurðað um mörk þjóðlenda á stærstum hluta landsins en Vestfirðir, Austfirðir, Dalir og Snæfellsnes er eftir. Því kann að vera að fleiri landsvæði verði úrskurðuð þjóðlendur þegar fram í sækir.

Á kortinu má sjá línur á milli eignalanda á landinu öllu en Daði áréttar að ekki sé um fullmótað verk að ræða. „Mjög mikið af þessum línum eru umdeildar eða óljósar. En þetta gefur fólki betri hugmynd en áður.“

Veiðumaður á rjúpnaslóð. Kortið getur nýst þeim sem vilja veiða …
Veiðumaður á rjúpnaslóð. Kortið getur nýst þeim sem vilja veiða til fjalla, þó upplýsingunum þurfi að taka með fyrirvara. mbl.is/Golli

Kætir skotveiðimenn

Skotveiðimenn hafa tekið kortinu, sem sett var í loftið fyrir helgi, fagnandi en rjúpnaveiðitímabilið hefst eftir 11 daga. Indriði Grétarsson, formaður SKOTVÍS, segir við mbl.is að félagið sé að skoða í samstarfi við Loftmyndir að koma á laggirnar grunni sem sýni nákvæmari línur þjóðlenda og GPS punkta. En hann segir að það kosti tíma og peninga. „En það sem er komið hjálpar fólki að átta sig gróflega á því hvar má veiða,“ segir hann við mbl.is.

Daði tekur fram að alls ekki sé hægt að líta svo á að veiða megi á grænu svæðunum, enda sé þekjan ekki til þess fallin. Hann nefnir sem dæmi að ekki megi veiða í þjóðgörðum, á hafnarsvæðum og víðar, svo sem suðvesturhorninu. Hann segir þó aðspurður að kortið geti gagnast veiðimönnum til að átta sig á því hvar landamerki liggi.

Ábendingar um það sem betur má fara má senda á loftmyndir@loftmyndir.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert