Björt framtíð fordæmir lögbannið

Björt framtíð hefur áhyggjur af stöðu lýðræðis á Íslandi.
Björt framtíð hefur áhyggjur af stöðu lýðræðis á Íslandi. mbl.is/Árni Sæberg

Björt framtíð lýsir þungum áhyggjum af stöðu lýðræðis í landinu í kjölfar þess að lögbann var sett á fréttaflutning af tengslum stjórnmálafólks og viðskiptalífs, þar sem hindruð hefur verið miðlun upplýsinga er varðar almannahag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Bjartri framtíð. „Fyrir réttum mánuði síðan tók stjórn Bjartrar framtíðar ákvörðun um ríkisstjórnarslit, í kjölfar trúnaðarbrests og leyndarhyggju þar sem flokkurinn sem fór með forsætisráðuneytið varð uppvís að eiginhagsmunagæslu á kostnað fólks í viðkvæmri stöðu, þolenda ofbeldis,“ segir í tilkynningunni.

Björt framtíð lagði fram frumvarp um vernd uppljóstrara og miðlun upplýsinga veturinn 2014-15 en frumvarpið var ekki samþykkt. „Brýnt er að þeir sem uppljóstra um spillingu njóti efnahagslegrar og félagslegrar verndar og verndar gegn málsóknum. Spilling skilgreinist sem misbeiting á opinberu valdi til persónulegs ávinnings. Mikilvægt er að vernda þá sem uppljóstra um misgerðir sem varða almannahag. Björt framtíð mun áfram berjast fyrir því að tryggja vernd uppljóstrara í íslenskum lögum,“ kemur fram í tilkynningunni.

Flokkurinn fordæmir þetta inngrip í starfsemi fjölmiðla og aðhald með stjórnmálum sem felst í lögbanni sem hefur verið lagt á fjölmiðlana Stundina og Reykjavík Media. Almenningur eigi rétt á því að vera upplýstur um fjárlagsleg og viðskiptaleg hagsmunatengsl stjórnmálamanna.

Sérlega alvarlegt hlýtur að teljast að binda hendur fjölmiðla í aðdraganda kosninga til Alþingis, ekki síst í ljósi þess að afleiðingar lögbannsins munu vara fram yfir kosningar.“

mbl.is