Í varðhaldi vegna lífshættulegrar árásar

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur staðfesti í dag að karlmaður muni sæta gæsluvarðhaldi til 7. nóvember vegna hnífstungu­árás­ar í Æsu­felli í Breiðholti 3. október.

Í úrskurði Hæstaréttar kemur fram að kærði viðurkenni að hafa stungið brotaþola. Hann sagðist hafa farið að húsi mannsins sem hann stakk í þeim tilgangi að hitta brotaþola og stinga hann.

Fyrst voru þrír menn í varðhaldi vegna málsins en tveimur þeirra hefur verið sleppt. Sá þriðji, sem hand­tek­inn var síðast­ur þre­menn­ing­anna, situr í gæsluvarðhaldi til 7. nóvember.

Vitni greindi frá því að 4-5 menn hafi ruðst inn og sprautað „meisi“ framan í vitnið. Samkvæmt vitninu voru tveir úr hópi árásarmanni með kjöthnífa á lofti. Þeir hafi farið að brotaþola, sagt að hann skuldaði þeim pening og í framhaldinu stungið hann með hnífunum.

Brotaþoli lýsti því svo að hann hafi verið heima hjá félaga sínum þegar fjórir menn hafi ruðst inn. Tveir menn hafi ráðist á hann og annar þeirra stungið hann.

Við skoðun á slysadeild hafi brotaþoli verið stunginn með löngum hníf fyrir neðan nafla. Samkvæmt vakthafandi lækni hafi hnífurinn farið inn í kviðarholið og hafi verið um lífshættulegan áverka að ræða. Brotaþoli hafi farið í aðgerð eftir komu á slysadeild og hafi í kjölfarið legið á gjörgæslu vegna áverka sinna,“ kemur fram í úrskurðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert