Nefndin fundar vegna lögbannsins

Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.
Jón Steindór Valdimarsson, þingmaður Viðreisnar og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. mbl.is/Eggert

„Ég hef móttekið beiðni þeirra um fund og hef ákveðið að verða við þeirri beiðni,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Þingmenn Pírata og VG í nefndinni óskuðu í gær eftir fundi vegna lögbanns sýslumannsins í Reykja­vík á um­fjöll­un Stund­ar­inn­ar og Reykja­vík Media unna úr gögn­um inn­an úr Glitni.

Jón Steindór stefnir á að fundurinn verði haldinn á fimmtudagsmorgun, þó hann hafi ekki enn boðað til hans. Hann segir að það sé mikið umhugsunarefni að störf fjölmiðils séu stöðvuð með þessum hætti.

„Fjölmiðillinn er að vinna að því að koma upplýsingum á framfæri sem manni sýnist að varði mjög almannahag,“ segir Jón.

Auðvitað vegast þarna á hagsmunir þeirra sem þessi gögn fjalla um og réttur almennings til upplýsingar. Mér sýnist nú að rétturinn til að upplýsingar eigi að vega þyngra í þessu tilviki,“ segir Jón en honum sýnist að lögbannið sé býsna víðtækt.

Mér finnst alveg meira en full ástæða til að ræða þessi mál sem að varða almannahagsmuni. Það er útgangspunktur minn að það sé nauðsynlegt að ræða þetta og átta sig á því hvað er að gerast og hvort það þarf að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að svona komi upp aftur með þessum hætti.

mbl.is

Bloggað um fréttina