„Setur málin í undarlegt samhengi“

Bjarni Benediktsson segir eðilegt að menn spyrji hvort sé verið …
Bjarni Benediktsson segir eðilegt að menn spyrji hvort sé verið að þjóna honum. mbl.is/Eggert

„Ég fór hvorki fram á lögbannið sjálfur, né átti aðild að þessu,“ segir Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, um lögbann sem sett var frekari umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media, upp úr gögnum innan úr Glitni.

Glitnir HoldCo ehf. fór fram á lögbann síðastliðinn föstudag og féllst sýslumaður það í gær. Höfðu fjölmiðlarnir tveir, í samstarfi við breska fjölmiðilinn The Guardian, meðal annars fjallað ítarlega um sölu Bjarna á öllum eignum sínum í Sjóði 9 hjá Glitni dagana fyrir fall íslenska bankakerfisins.

„Ég hef aldrei nokkru sinni, eftir öll þessi ár í stjórnmálum, eftir alla þá umræðu sem hefur átt sér stað og allar þær fréttir sem hafa verið fluttar af mér, sem hægt er að telja í hundruðum, látið mér detta í hug að láta skerða tjáningarfrelsi manna eða vega að fjölmiðlafrelsinu til að fjalla um opinberar persónur eins og mig.“

Bjarni segist þvert á móti hafa tekið þá afstöðu fyrir löngu síðan að það fylgi einfaldlega starfinu að þola opinbera umfjöllun um nánast hvaðeina. „Það þýðir ekki að maður sé alltaf sáttur við það sem skrifað er. Þá verður maður að bregðast við og skýra og leiðrétta. Ég tel reyndar að margt hafi verið illa framsett eða slitið úr samhengi og svo framvegis, en jafnvel þótt svo sé, þá er það réttur manna og hluti af fjölmiðla- og tjáningarfrelsi í landinu að skrifa, meira að segja vondar fréttir.“

Ertu þá að segja að þetta séu vondar fréttir sem hafa verið skrifaðar upp á síðkastið?

„Ég hef gagnrýnt skrif í gegnum tíðina. Ég tel mig hafa þurft að leiðrétta margt sem hefur verið sagt að undanförnu og skýra. Hlutir hafa verið slitnir úr samhengi, það hafa verið ýmsar dylgjur látnar fjúka - hálfsannleikur. Slíkar fréttir hef ég þurft að leiðrétta og setja í rétt samhengi, en ég er ekkert að kvarta undan því í sjálfu sér. Það er leiðin fyrir opinberar persónur til að bregðast við ef menn eru ósáttir. Ég hef aldrei aldrei valið þá leið að fara í lögbann.“

„Í raun og veru er verið að veita mér högg“

Hann segir að eftir alla þá umfjöllun sem átt hefur sér stað síðustu daga um gögnin innan úr Glitni, sem um ræðir, þá sé mjög einkennilegt að lögbann sé sett á þau á þessum tímapunkti. „Það er eiginlega alveg út í hött að það komi lögbann á þessum tímapunkti. Ég hef sjálfur verið þátttakandi  í umræðu um þessi gögn. Það er búið að flytja tugi frétta úr gögnunum um mig. Það gerir ekkert nema að koma aftan að mér og kemur sér illa fyrir mig á þessum tímapunkti að fá lögbann á þessa fjölmiðlaumfjöllun. Það setur málin í undarlegt samhengi og menn spyrja spurninga hvort það sé verið að þjóna mér, þegar í raun og veru er verið að veita mér högg með því.“

Þannig þú áttir enga aðkomu að því að þessa lögbanns væri krafist?

„Þetta er algjörlega að frumkvæði Glitnis að fara fram með þetta lögbann.“

Það er semsagt ekki þægilegt fyrir þig að þetta gerist á þessum tímapunkti?

„Þvert á móti, en ég get látið það fylgja að ég ætla ekki að gerast dómari í máli allra hinna sem mér heyrist að verið sé að reyna að vernda með þessum aðgerðum. Það er út af fyrir sig mjög alvarlegt mál ef gögn hafa lekið út úr fjármálakerfinu í stórum stíl um fjárhagsmálefni þúsunda Íslendinga. Það er ekki mál sem mér finnst að eigi að tala um að einhverri léttúð um, en ég á ekki aðild að því máli.“

Þú ert þá ekki hlynntur lögbanninu sem slíku?

„Það kemur sér illa fyrir mig.“

En burtséð frá því hvernig þetta kemur sér fyrir þig, hvað finnst þér um að lögbann sé sett á umfjöllun um svona gögn?

„Af hverju ætti ég að hafa mikla skoðun á því? Ég er ekki aðili að þessum málarekstri og hef ekki verið að kynna mér öll rökin í þessari lögbannskröfu. Ég hef ekki verið að sökkva mér ofan í lögfræðina um þessi mál. Það verður bara að leysa úr því á grundvelli laga og það er alveg fráleitt að forsætisráðherra sé að tjá sig um það mál á meðan það stefnir til dómstóla, hvernig það eigi að klárast. Ég get bara talað fyrir mig.“

Aðspurður hvort hann telji að lögbanninu verði hnekkt segist Bjarni ekki hafa neina skoðun á því. Málið verði einfaldlega að hafa sinn gang.

Sammála því sem aðrir Sjálfstæðismenn hafa sagt 

Bjarni segist ekki hafa lesið það sem Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins, hafa skrifað um lögbannið á Facebook-síðum sínum en þegar blaðmaður les upp ummæli þeirra segir hann þau hljóma vel. Hann geti verið sammála þeim.

Meðal þess sem Kristján sagði á síðu sinni var að fjölmiðlar ættu ekki að þola inngrip af hálfu ríkisvaldsins vegna ritstjórnarstefnu, efnistaka eða heimildamanna sinna. Slíkt væri „óviðunandi í lýðræðisríki.“.

Áslaug sagði að fyrst og fremst þyrfti að tryggja tjáningarfrelsi og rétt fjölmiðla til að fjalla um mál. Þá sagði hún jafnframt að tímasetning lögbannsins hjálpaði ekki Sjálfstæðisflokknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert