Hjúkrunarfræðideild á þolmörkum

Herdís Sveinsdóttir.
Herdís Sveinsdóttir. mbl.is/Þórður

„Við erum gjörsamlega komin að þolmörkum hvað varðar fjölda nemenda sem við tökum inn en þeir eru 120 núna. Í þessu samhengi skiptir auðvitað námspláss á spítalanum máli þar sem að klínísk kennsla er mjög mikilvæg fyrir hjúkrunarfræðinema,“ segir Herdís Sveinsdóttir, forseti hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands. 

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um hjúkrunarfræðinga sem birt var í gær segir að skortur á klínískum plássum á heilbrigðisstofnunum landsins takmarki möguleika háskólanna til að fjölga nemum í hjúkrunarfræði. Þar segir jafnframt að fjöldi nemenda ráðist einkum af möguleikum heilbrigðisstofnana til að taka á móti nemum og handleiða þá en klínísk kennsla hafir að mestu leyti verið í höndum starfandi hjúkrunarfræðinga. Ónóg mönnun og mikið álag hefur staðið í vegi fyrir því að stofnanir eða einstakar deildir þeirra geti tekið á móti nemum en þessir þættir geta einnig haft mikil áhrif á gæði kennslunnar því að hún bætist ofan á daglegar starfsskyldur þeirra sem sinna henni.

„Við höfum staðið að uppbyggingu á prógrammi til að mennta hjúkrunarfræðinga á klínískum sérsviðum hjúkrunar til þess að taka á móti nemendum. Það er náttúrulega mjög mikið af hæfum hjúkrunarfræðingum sem starfa á spítölunum en það kemur nú fram í skýrslunni að álagið á þeim er mjög mikið og þeir hafa verið að hlaupa til annarra starfa þannig að okkur vantar kennara í klínísku kennsluna. Það er alltaf verið að auka álag á starfandi hjúkrunarfræðinga því þeir eru með nemendur undir sinni umsjá liggur við að verða allt árið sem er auka álag og við erum í erfiðri aðstöðu hvað þetta allt saman varðar,“ segir Herdís. 

Landspítali háskólasjúkrahús í Fossvogi.
Landspítali háskólasjúkrahús í Fossvogi. Ómar Óskarsson

Ranglega flokkuð í reiknilíkani

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir jafnframt að háskólarnir eigi erfitt með að bregðast við samfélagslegri þörf fyrir fjölgun hjúkrunarfræðinga þar sem að þeir eiga ekki rétt á auknu framlagi fari fjöldi ársnema umfram forsendur fjárlaga. 

Allt frá árinu 1992 þegar reiknilíkan menntamálaráðuneytisins var tekið upp hefur hjúkrunarfræðinám verið ranglega flokkað í líkaninu. „Þetta hefur verið svona frá 1992 og það er rakið í skýrslunni, á þeim tíma var ég nú líka í forsvari hérna í deildinni og þá mótmæltum við þessari flokkun mjög mikið af því að það var ekki gert ráð fyrir klínískri kennslu úti á deildum. Það hefur vægt til orða tekið gengið mjög hægt að fá leiðréttingar á því hjá menntamálaráðuneytinu,“ segir Herdís.

„Þetta þýðir að fjármagnið sem við höfum til að reka stóru námskeiðin er mjög takmarkað ef við viljum vera með einhverja fjölbreytni í kennslunni. Ef við tökum bara sem dæmi erfitt fag eins og lífeðlisfræði sem er algjört grundvallarfag og leggur grunninn að því að hjúkrunarfræðingar geti metið líkamlegt ástand sjúklinga þá er hægt kenna það á margvíslegan máta með ýmsum tölvulíkönum og verklegum æfingum en okkur skortir fé til að geta stuðst við þær kennsluaðferðir. Fjármagnið fyrir hverja einingu sem við fáum er svo lágt þannig að við endum með þetta að miklu leyti í fyrirlestraformi en það er algjörlega gegn okkar eigin stefnu og stefnu háskólans.“

„Í hjúkrunarfræðideildinni erum við náttúrulega að kenna ungu fólki að vinna með sjúklingum og það skiptir gífurlega miklu máli að það sé hægt að kenna nemendum í litlum hópum þannig að við getum tengt saman klíníkina, einstaklinginn og sjúklinginn við það sem er verið að gera í kennslustofunni. Það er mjög mikilvægt að geta gert það í kennslustofunni en þegar við erum með 120 manns þá er það mjög erfitt. Við þurfum að geta skipt hópnum niður í smærri einingar til að geta haft umræðuhópa og þess háttar en við höfum einfaldlega enga peninga í það.“

Frétt mbl.is Bæta þarf laun, starfs­um­hverfi og vinnu­tíma

Breytt skipulag minnkar aðsókn

Skipulagi hjúkrunarfræðideildarinnar var breytt fyrir tveimur árum á þá leið að svokölluð samkeppnispróf, sem áður voru kölluð klásus, voru felld niður en í dag þurfa stúdentar að taka svokölluð A-próf sem eru inntökupróf í deildina. „Við höfum fjölgað þeim sem við tökum inn en staðreyndin er hins vegar sú að eftir að við tókum A-prófin upp hefur dregið aðeins úr aðsókninni í deildina þannig að það er eins og að stúdentar virðist vera smeykir við inntökuprófin en gamla fyrirkomulagið þótti ekki gott og var kostnaðarsamt þar sem stór hópur ungs fólks eyddi heilu misseri í námskeiðum en féll síðan úr námi um áramótin,“ segir Herdís. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert