Grátbiðja um að fá að vera hér áfram

Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim.
Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim. mbl.is/Árni Sæberg

„Við viljum bara búa á Íslandi,“ segir Nasr Mohammed Rahim. Blaðamaður hittir hann, eiginkonu hans, Sobo Anwar Hasan, og ungt barn þeirra í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem þau dvelja. Dvölinni lýkur þó eftir nokkra daga en umsókn þeirra um hæli á Íslandi var endanlega hafnað fyrir tveimur vikum.

Litla fjölskyldan kom hingað til lands 20. mars en þá hafði beiðni þeirra um hæli í Þýskalandi verið hafnað. Nasr er 26 ára gamall, Sobo verður 24 ára í næsta mánuði og sonur þeirra Leo fæddist í maí í fyrra.

Þau líta á sig sem Kúrda en Nasr er með írakst ríkisfang og Sobo með íranskt. Faðir Sobo er háttsettur íslamskur klerkur og var fjölskylda hennar algjörlega á móti því að hún giftist Nasr. „Ég þótti ekki sannur múslimi en ég fékk mér til að mynda stundum bjór,“ segir Nasr til útskýringar en öll neysla áfengis er stranglega bönnuð í múslimatrú.

Kúrdar eru þjóðarbrot sem býr í fjallahéruðum Tyrklands, Íraks og Írans og í minna mæli í Sýrlandi og Armeníu. Þeir eru um 30-35 milljónir og eru þar með stærsta ríkislausa þjóðarbrot heims. Í síðasta mánuði fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði sjálfstjórnarhéraðs Kúrda. Íbúar hérðasins vilja sjálfstæði en það vilja stjórnvöld í Írak ekki.

Kúrdar í Írak veifa fána og fagna í tengslum við ...
Kúrdar í Írak veifa fána og fagna í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu í lok september. AFP

Fá annaðhvort vernd eða deyja

Þrátt fyrir óánægða fjölskyldu gengu Nasr og Sobo í það heilaga. Þau óttuðust samt reiða ættingja Sobo og flúðu til heimaborgar Nasr í Írak. Þar reyndu hryðjuverkasamtök að fá Nasr til að ganga til liðs við sig og á sama tíma heyrðu þau af því að reiðir fjölskyldumeðlimir Sobo hefðu elt þau frá Íran og hótað þeim lífláti. Þannig hófst flótti þeirra til Evrópu.

„Ef ég hefði getað lifað eins og manneskja í heimalandi mínu hefði ég ekki farið til Evrópu. Ef ég hefði fengið vernd í Þýskalandi hefði ég ekki komið til Íslands. Núna erum við á Íslandi, eigum enga peninga og getum ekkert farið. Annaðhvort fáum við vernd eða deyjum,“ segir Nasr. Samkvæmt upplýsingum sem þau fengu frá yfirvöldum verða þau send úr landi á næstu tveimur vikum. Fyrst þarf Sobo að gangast undir læknisskoðun og skoðun sálfræðings en hún er ólétt og þjáist af miklum kvíða.

Nasr þótti niðurstaða yfirvalda í Þýskalandi ekki sanngjörn en einhver ástæða synjunar þar kann að vera vegna þess að Sobo þóttist vera frá Írak til að geta verið með eiginmanni sínum við komuna til Evrópu.

Ber Þjóðverum ekki vel söguna

„Barnið okkar fæddist í Þýskalandi en við fengum 30 daga til að yfirgefa landið eftir að hafa verið synjað um dvalarleyfi,“ segir Nasr og er mikið niðri fyrir. „Það er ekki hægt að tala við þá eða útskýra hluti fyrir þeim, öllum er sama um aðra.“

Nasr skilur ekki af hverju þýsk yfirvöld skoðuðu ekki lögregluskýrslur frá Írak. Þar kom hann til skýrslutöku vegna þess að hann átti að vinna með hryðjuverkamönnum. Hópur í heimabæ Nasr vildi fá hann til að þjálfa unga krakka í kung fu, sem nota átti í hernaði, en hann er þrautreyndur þjálfari í bardagaíþróttinni.

Fjölskyldunnar bíður dauðarefsing ef þau verða send aftur til Írans en þangað verða þau send vegna þess að þeim hefur verið hafnað í Þýskalandi. „Ég grátbað yfirvöld um að fá að dvelja hérna. Okkur hafa borist hótanir í gegnum Facebook eftir að við vorum skírð til kristni. Mér hefur verið hótað því að ég verði drepinn,“ segir Nasr en hann og Sobo voru skírð til kristni í sumar.

Frá götum Teheran, höfuðborgar Íran. Þangað vilja Nasr og Sobo ...
Frá götum Teheran, höfuðborgar Íran. Þangað vilja Nasr og Sobo alls ekki verða send. AFP

Þau lýsa því að Kúrdar eigi undir högg að sækja, bæði í Íran og Írak. Þar fyrir utan sé klerkasamfélagið í Íran gríðarlega strangt; annaðhvort fylgirðu reglunum eða hlýtur grimmilega refsingu. Nasr tekur dæmi um að hér á landi fari fólk í kirkju ef þegar því sýnist. „Ef fólk sleppir því að sækja mosku í Íran er það lamið.“

Leo er talinn tilheyra Evrópu

Nasr hefur miklar áhyggjur af eiginkonu sinni. Hún situr þögul nánast allan tímann á meðan heimsókn blaðamanns stendur en augu hennar eru full af tárum. Á meðan leikur sonur þeirra, hinn eins og hálfs árs gamli Leo, á als oddi og gerir sitt besta til að breyta upptökutæki blaðamanns í snuð.

„Hún hefur miklar áhyggjur af ástandinu. Sobo grætur mikið og hefur sokkið niður í djúpt þunglyndi og kvíða,“ segir Nasr og bætir við að Sobo hafi varla farið út úr húsi síðustu daga.

Leo fæddist eins og áður sagði í Þýskalandi en er samt í raun ríkisfangslaus, enda hefur hann verið á flótta allt sitt líf. Foreldrar hans segja að samkvæmt siðum í Íran sé barnið talið tilheyra Evrópu af því að þar er fæðingarland þess.

„Ef við förum aftur til Íran teljum við líklegt að hann verði grýttur til dauða. Þau munu segja að hann sé trúlaus eða kristinn og eigi enga framtíð í Íran, eins og foreldrar hans,“ segir Nasr og bætir við að það sé vitað mál að þetta séu hinar ströngu reglur í Íran.

Vilja bara eðlilegt fjölskyldulíf

„Hér viljum við vera en við vitum að Ísland er lítið land, ólíkt Þýskalandi. Íslendingar eru ekki rasistar og ég hef áhyggjur af fjölskyldunni minni. Ég vil bara lifa eðlilegu fjölskyldulífi og mér finnst samfélagið gott hérna,“ segir Nasr og grefur andlitið í höndum sér.

„Núna grátbiðjum við fólk um að fá að vera áfram, alla sem geta hjálpað,“ bætir hann við.

Sobo hefur að mestu setið þögul á meðan eiginmaður hennar hefur rætt um stöðu fjölskyldunnar. Hún vill lítið segja þegar blaðamaður beinir orðum að henni. „Ég vil bara grátbiðja yfirvöld um að bjarga mér. Takk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Innlent »

Kólnar smám saman í veðri

20:51 Það gengur í norðan og norðaustan 8-13 m/s með rigningu eða slyddu á austanverðu landinu seint í kvöld og nótt, að því er Veðurstofa Íslands greinir frá. Það mun snjóa á fjallvegum og því má búast við versnandi færð þar. Meira »

Aldrei fóru fleiri vestur

20:20 „Það var ekkert drama, allt gekk upp og meira til, og aðsóknin hefur aldrei verið meiri,“ segir Kristján Freyr Hall­dórs­son, rokk­stjóri tón­list­ar­hátíðar­inn­ar Aldrei fór ég suður. Meira »

Innnes hækkar ekki vöruverð

18:49 Engar verðhækkanir vegna nýrra kjarasamninga eru í farvatninu hjá Innnesi, segir forstjóri fyrirtækisins. Hann segir samningamenn hafa sýnt skynsemi og að hinn nýi kjarasamningur sé góður. Meira »

Fiskeldi svar við risavöxnum áskorunum

18:23 Útflutningsverðmæti fiskeldis á ársgrundvelli hér á landi gæti komið til með að slaga hátt upp í útflutningsverðmæti þorskaflans, þegar okkur tekst að nýta burðarþol fjarðanna samkvæmt fyrirliggjandi burðarþolsmati Hafrannsóknastofnunar. Meira »

Ekki hótun hjá ÍSAM

18:03 „Ég skil vel að þetta hafi vakið eftirtekt, en ég skil ekki að menn skuli líta á þetta sem einhverja hótun eða klofning hjá SA. Þá er búið að snúa hlutunum svolítið á hvolf,“ segir Hermann Stefánsson, forstjóri ÍSAM. Meira »

Humarpizza er ekkert pizza!

17:30 Á Glóð á Egilsstöðum má nú fá eldbakaða pizzu sem að sögn eigandans er nákvæmlega eins og þú myndir fá hana í Róm. Hann flutti inn menntaðan pizzubakara, sem tekur sér 50 klukkustundir í að gera deigið. Meira »

Klifraði ölvaður upp á þak

17:25 Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft í einu og öðru að snúast á þessum páskadegi. Snemma í morgun barst lögreglu tilkynning frá fjölbýlishúsi í Hlíðunum í Reykjavík um að ölvaður ungur maður hefði farið út á svalir á fjórðu hæð og þaðan upp á þakið. Meira »

Skelfileg sjón blasti við eigandanum

16:55 „Eigandi þessarar bifreiðar lenti í því að hjólbarði sprakk á bifreiðinni í gærkvöldi. Bifreiðin var skilin eftir á Stapavegi rétt hjá Stofnfiski í Vogum á Vatnsleysuströnd. Er eigandinn kom að bifreiðinni í morgun blasti þessi sjón við honum,“ skrifar lögreglan á Suðurnesjum í færslu á Facebook. Meira »

Íslendingar á Sri Lanka óhultir

14:58 Nokkrir Íslendingar sem staddir eru á Sri Lanka hafa sett sig í samband við borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins til þess að láta vita af sér. Ráðuneytið veit ekki betur en að allir Íslendingar sem staddir eru ytra, þar sem yfir 200 eru látnir eftir hryðjuverkaárásir, séu heilir á húfi. Meira »

Slökkvistarfi lokið við Sléttuveg

14:11 Vettvangur eldsins sem braust út í bílakjallara við Sléttuveg 7 á tíunda tímanum í morgun var afhentur lögreglu rétt fyrir hádegi í dag. Meira »

Atli Heimir Sveinsson látinn

14:06 Atli Heimir Sveinsson er látinn, áttræður að aldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjölskyldu tónskáldsins.  Meira »

Íslendingar í Sri Lanka láti vita af sér

14:00 Utanríkisráðuneytið hefur óskað eftir því að Íslendingar í Sri Lanka láti aðstandendur vita af sér eftir hryðjuverkaárásirnar í morgun. Þá er þeim sem þurfa á aðstoð að halda bent á að hafa samband við neyðarsíma borgaraþjónustunnar +354-545-0-112. Meira »

„Verðum að breyta um lífsstíl“

12:05 Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, minntist á eldsvoðann í Notre Dame-kirkjunni í París og þau David Attenborough og Gretu Thunberg í páskapredikun sinn í Dómkirkjunni þar sem vandamál tengd loftslagsmálum voru henni hugleikin. Meira »

Tæknideild rannsakar vettvanginn

11:42 Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu rannsakar í dag vettvanginn þar sem eldsvoðinn varð í Dalshrauni í Hafnarfirði í gær. Meira »

„Hún flýgur aldrei aftur“

11:25 „Það væsir ekkert um hana hjá mér, hún virðist hafa það mjög gott,“ segir Halldór Jónsson um brandugluna sem hann bjargaði úr girðingu skammt frá Þórshöfn ásamt félaga sínum á dögunum. Meira »

„Það var mikill reykur“

11:06 „Hér kom upp eldur í bílageymslu, í einhverju dóti sem var geymt í bílageymslunni,“ segir Sverrir Björn Björnsson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is. „Það var mikill reykur og þá hlýtur að vera töluverður eldur í þessu líka.“ Meira »

Allt tiltækt slökkvilið við Sléttuveg

10:13 Allt tiltækt slökkvilið á höfuðborgarsvæðinu sinnir nú útkalli við Sléttuveg í Reykjavík vegna mikils reyks í bílakjallara húsnæðisins. Útkallið barst kl. 9:56 samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni. Meira »

Logn í skíðabrekkum á páskadag

09:47 Landsmenn ættu að geta unað sér vel í skíðabrekkum víða um land í dag, en það stefnir í fínasta færi í brekkum víðast hvar og logn. Meira »

Messað við sólarupprás

09:17 „Kristur er sannarlega upprisinn,“ sagði séra Kristján Valur Ingólfsson, prestur við guðsþjónustu í Þingvallakirkju nú í morgun, páskadag. Eins og hefð er fyrir var upprisumessa sungin á Þingvöllum á þessum degi, og hófst hún kl. 5:50 eða nærri sólarupprás. Meira »