Fatlaðir út í samfélagið

Hjá Krumma í Grafarvogi vinna Sibbi og Ingimundur á fimmtudögum …
Hjá Krumma í Grafarvogi vinna Sibbi og Ingimundur á fimmtudögum í tvo tíma við að verðmerkja. Hér eru þeir ásamt starfsmanni Krumma, Lindu Huldarsdóttur. mbl.is/Ásdís

Í Gylfaflöt koma á hverjum degi þrjátíu fatlaðir einstaklingar til að vinna í smíðastofunni og í listasmiðjunni, allt eftir getu og vilja hvers og eins. Nýtt verkefni hefur verið sett á laggirnar sem gerir fólki kleift að vinna utan Gylfaflatar og taka þannig beinan þátt í samfélaginu.

Unnið með leir og textíl

Forstöðumaðurinn Melkorka Jónsdóttir útskýrir starfsemina. „Við leggjum upp með að allt sem við gerum hérna sé eins og vinnuþjálfun en einstaklingar sem hingað koma fá ekki greidd laun. Einkunnarorð Gylfaflatar eru: Öll virkni er vinna,“ segir hún.

Melkorka Jónsdóttir, forstöðumaður Gylfaflatar, vill fá fleiri fyrirtæki með sér …
Melkorka Jónsdóttir, forstöðumaður Gylfaflatar, vill fá fleiri fyrirtæki með sér í lið að gera fötluðum kleift að taka þátt í samfélaginu með beinum hætti. mbl.is/Ásdís

„Þegar Gylfaflöt var opnuð árið 2002 var þetta hugsað fyrir einstaklinga frá sextán ára og var þá frekar tómstundamiðað. Í dag eru þau frá tuttugu ára og flest á aldrinum 20-30. Þetta er ungt fólk með fötlun og mjög fjölbreyttur hópur. Það eru allir með einhvers konar þroskahömlun og margir með einhverfugreiningu og þráhyggju- og áráttuhegðun. Þau þurfa öll þó nokkuð mikla aðstoð,“ segir Melkorka. Í dagþjónustunni vinna þrjátíu starfsmenn í 27 stöðugildum og er Gylfaflöt rekin af Reykjavíkurborg og tilheyrir velferðarsviði.

„Það eru þrjár deildir í húsinu, Vogur, Vík og Harpa, og það eiga allir sína heimadeild. Svo erum við með Smiðjuna, sem er stór listasmiðja, og þar er mikið unnið með leir og textíl. Þangað koma allir á einhverjum tímapunkti en auðvitað er mismunandi hvað fólk getur gert. Svo er hér líka smíðaverkstæði. Smiðjan er sjálfbær og við seljum varning sem búinn er þar til; bolla og skálar og fleira.“

Strætóþvottur slær í gegn

Gylfaflöt er fyrir ungt fatlað fólk sem ekki getur farið út á almennan vinnumarkað. „Það er oft lítið sem tekur við þegar fatlaður einstaklingur útskrifast úr framhaldsskóla. Það er til atvinna með stuðningi en það hentar ekki öllum. Við byrjuðum í fyrra með skemmtilegt verkefni. Það hefur verið draumur minn lengi að reyna að koma okkur meira út í þjóðfélagið. Það kemur svo mikið af ungu fólki til okkar sem manni finnst að ætti að fá fleiri tækifæri í lífinu, það getur oft svo miklu meira. Ég fór af stað og hafði samband við fyrirtækin í hverfinu og spurði hvort þau mættu koma í starfsþjálfun, í fylgd starfsmanns frá okkur. Til að prófa að vinna. Þau fara í Krumma, sem framleiðir leikföng, en þau eru bæði með búð og smíðaverkstæði, svo í Sorpu þar sem þau fara í mötuneytið og skrifstofuna, og síðast en ekki síst til Strætó. Hjá Strætó eru þau í þvottastöðinni og það hefur slegið í gegn, sérstaklega hjá strákunum. Þeir eru mjög ánægðir þar og finna að þeir gera gagn í þjóðfélaginu. Svo eru ýmis flokkunarverkefni sem henta kannski þeim vel sem eru með einhverfu en það er í skoðun enn þá,“ útskýrir Melkorka en unnið er tvo tíma í senn, nokkra daga í viku.

Það er kátt á hjalla í kaffitímunum með körlunum í …
Það er kátt á hjalla í kaffitímunum með körlunum í Krumma. mbl.is/Ásdís

Virðing á milli einstaklinga

„Svo fá þau sér kaffi með starfsfólkinu en stór hluti af reynslunni eru samskipti við starfsmennina í fyrirtækjunum, að spjalla saman. Þeim hefur verið tekið alveg rosalega vel, það er ánægja á báða bóga. Oft hefur starfsfólkið ekki kynnst fötluðum áður eða umgengist, þannig að þetta er nýr heimur og ekkert nema jákvætt og ótrúlega skemmtilegt. Maður sér virðinguna sem skapast á milli einstaklinga,“ segir Melkorka.

„Það er að verða dálítið úrelt fyrirbæri í dag að reka dagþjónustu eins og Gylfaflöt; safna saman fólki sem er fatlað til að sinna alls konar vinnu eða tómstundum á einum stað, þetta verður dálítið einangrað. Ég myndi vilja sjá svona staði þróast þannig að einstaklingar kæmu fyrst hingað á morgnana, fengju sitt kaffi og hittu starfsfólkið, og svo væri farið út. Út í samfélagið. Með sínum starfsmanni því þau munu alltaf þurfa þessa leiðbeiningu, og mörg þeirra munu alltaf þurfa aðstoðarmann í lífinu. Svo eru alltaf einhverjir sem munu ekki geta gert þetta vegna mikillar fötlunar en mjög stór hópur þeirra sem eru hér í dag getur það. Maður sér líka hvað þau eflast og sjálfstraustið eykst; þau upplifa sig sem hluta af samfélaginu sem við búum í,“ segir Melkorka.

„Ég á mér þann draum að halda áfram að þróa þetta í þessa átt,“ segir hún og bætir við að hún sé opin fyrir að fá fleiri fyrirtæki inn í þetta verkefni.

Fá verðlaun að loknum vinnudegi

Góðvinirnir Sigurður Bjarki Brjánsson, kallaður Sibbi, og Ingimundur Ágústsson eru báðir 22 ára gamlir. Þeir vinna hjá Krumma, leikfangafyrirtæki í Grafarvogi, en þar koma þeir einu sinni í viku í tvo tíma í senn. Þeir eru duglegir að hjálpa þar til við að verðmerkja og raða í kassa. Þeir segja báðir að vinnan sé skemmtileg. „Við erum að verðmerkja dót,“ segir Sibbi og Ingimundur bætir við að í lok vinnunnar fái þeir að velja sér dót í verðlaun. „Það er hægt að velja strumpa eða villt dýr eða risaeðlur,“ segir hann.

Þessir vösku menn, Garðar Reynisson, Elmar Sigurðsson og Granit Veselaj, …
Þessir vösku menn, Garðar Reynisson, Elmar Sigurðsson og Granit Veselaj, eru hér komnir í gul vesti og tilbúnir í slaginn. Hjá þeim eru starfsmenn Gylfaflatar, Margrét Elísabet Eggertsdóttir, Heimir Guðmundsson og Rakel Bærings Halldórsdóttir. mbl.is/Ásdís


Hvað er skemmtilegast við vinnuna?

„Mér finnst skemmtilegast að spjalla við mennina í kaffitímanum,“ segir Ingimundur og Sibbi tekur undir það. „Það eru alltaf kræsingar, veisla. Fólkið er mjög skemmtilegt, þau segja brandara og við tölum um hvað við gerðum um helgina og ýmislegt,“ segir Sibbi sem segir þá vera búna að eignast nýja vini meðal karlanna.

„Það er líka mjög spennandi að koma hingað og skoða allt fallega dótið,“ segir Sibbi. „Svo höfum við verið að pumpa í bolta. Þetta er ekki erfitt. Það er allt svo gaman.“
Linda Huldarsdóttir hjá Krumma hefur haft það fyrir venju að taka á móti strákunum og láta þá hafa verkefni.

„Það er gaman að fá að taka þátt í þessu og þetta hefur gefið okkur öllum ótrúlega mikið. Að kynnast þessum strákum og hugsa aðeins út fyrir kassann, ég held við höfum öll gott að því. Þeir eru rosalega duglegir og jákvæðir. Svo fara þeir í kaffi með körlunum sem vinna á verkstæðinu,“ segir Linda, sem hefur ekki undan að láta strákana hafa nýja bunka til að verðmerkja.

„Þetta er komið til að vera, við ætlum að halda þessu áfram. Ég held að flest fyrirtæki hefðu einhver verkefni sem væri hægt að nýta fólk í. Svo er mikilvægt að þau fái að hitta nýtt fólk og fá tilbreytingu í lífið.“

Ingimundur og Sibbi eru ánægðir að fá verðlaun og ekki …
Ingimundur og Sibbi eru ánægðir að fá verðlaun og ekki langt að sækja fallegt dót, enda vinna þeir í leikfangaverslun. mbl.is/Ásdís
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert