Lögregla brást íslenskum brotaþola

Lögreglan í New York er sögð hafa brugðist fórnarlömbum kynferðisbrota …
Lögreglan í New York er sögð hafa brugðist fórnarlömbum kynferðisbrota í fjölda tilfella. AFP

Mál íslenskrar konu, sem var nauðgað í New York árið 2009, er notað sem dæmi um vanhæfni lögreglufulltrúa í New York, Rafael Astacio, sem sakaður er um að hafa brugðist starfsskyldum sínum á ýmsan hátt.

Þetta kemur fram í umfjöllun Newsweek, sem unnin er upp úr minnisblöðum frá lögreglunni í New York, sem bandaríski miðillinn hefur undir höndum.

Íslenska konan var ung að aldri er hún fór í ferðalag til New York. Þar fór hún á skemmtistað og var í ölvunarsvefni er maður kom að henni, byrjaði að kyssa hana og teymdi hana svo heim til sín. Þar vaknaði konan við það að maðurinn var að nauðga henni.

Síðan skutlaði nauðgarinn henni hálfa leiðina að íbúðinni og lét hana hafa tuttugu dali fyrir leigubíl heim. Konan vildi fyrst ekki aðhafast neitt, en vinir hennar hvöttu hana til þess að fara á spítala, þar sem heilbrigðisstarfsfólk kallaði til kynferðisafbrotadeild lögreglunnar í New York.

Reyndi ekki að fá myndefnið

Áðurnefndum Astacio var falin rannsókn málsins og lauk hann rannsókninni án ákæru, þar sem hann sagði að íslenska konan hefði verið ósamvinnufús, auk þess sem hann hélt því fram að ekki hefði verið hægt að fá upptökur af skemmtistaðnum til þess að bera kennsl á nauðgarann.

Það reyndist hins vegar ósatt. Meira en mánuði eftir atvikið fór annar lögreglufulltrúi á stúfana og fékk svörun á lífsýni nauðgarans. Þá fór sá fulltrúi og fékk myndbandsupptökur af skemmtistaðnum, þar sem nauðgarinn og íslenska konan sáust greinilega.

Í ljós kom að Astacio hafði aldrei reynt að fá myndbandsupptökurnar afhentar. Mál íslensku konunnar fór alla leið og gat hún borið kennsl á nauðgarann af ljósmyndum. Hann var síðar handtekinn og dæmdur í rúmlega þriggja ára fangelsi.

Í umfjöllun Newsweek segir að mál íslensku konunnar sé einungis eitt dæmi af mörgum um það hvernig rannsóknarlögreglumenn innan kynferðisafbrotadeildarinnar í New York hafi brugðist starfsskyldum sínum og þar með brotaþolum.

Umfjöllun Newsweek

Lögreglumenn að störfum í New York.
Lögreglumenn að störfum í New York. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert