Varahlutir Herjólfs stóðust ekki gæðakröfur

Viðgerð á Herjólfi seinkar þar sem varahlutir stóðust ekki gæðakröfur.
Viðgerð á Herjólfi seinkar þar sem varahlutir stóðust ekki gæðakröfur. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Varahlutirnir sem nota átti í Herjólf stóðust ekki kröfur flokkunarfélags Herjólfs, DNV-GL í Noregi, og því þarf að endursmíða varahlutina frá grunni, en hersla á stáli var ekki nægileg að mati DNV-GL. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Eimskipafélaginu, sem segir dapurlegt að í fréttaflutningi af seinkun viðgerðar sé skuldinni alfarið skellt á Eimskip þrátt fyrir að „aðilum sé fullljóst hvernig í pottinn er búið“.

„Eimskip sem núverandi rekstaraðili skipsins getur illa tekið ábyrgð á verksmiðjugalla og töfum eða mistökum við smíði á varahlutum þegar umsjónaraðili verksins er framleiðandi vélarinnar og þar með þeir aðilar sem best þekkja til málsins,“ segir í fréttatilkynningunni.

Við reglulega slipptöku Herjólfs sl. vor hafi komið í ljós skemmd á gír skipsins vegna galla. Herjólfur var sérhannaður og smíðaður árið 1992 til að sigla á Þorlákshöfn. „Þegar um svo gamalt skip er að ræða eru margir varahlutir í skipið ekki lagervara sem hægt er að ganga að sem vísum þegar bilun eða skemmd kemur upp.“

Bilunin sem varð í Herjólfi nú og staða varahluta sé þannig að hvorki Vegagerðin, sem er eigandi skipsins, né framleiðandi vélbúnaðar skipsins, eigi á lager þá hluti sem þurfi til viðgerðar og því þurfi að smíða viðkomandi varahluti frá grunni.  Fyrstu fréttir frá framleiðanda hafi verið þær að framleiðsla og ísetning gæti tekið allt að sex mánuði.

„Frá því Eimskip tók við rekstri Herjólfs árið 2006 hefur ferjan fengið fyrsta flokks viðhald sem unnið hefur verið af reyndum og sérhæfðum starfsmönnum Eimskips og einnig m.a. með framleiðendum vélabúnaðarins sem er danskt útibú þýska fyrirtækisins MAN og svo var einnig nú.“

Þetta sé gert til að tryggja að þegar komi að jafnmikilvægum þætti og vélbúnaði farþegaferju sem sigli við verulega krefjandi aðstæður séu alltaf kallaðir til færustu sérfræðingar.  

mbl.is