Góður hundur er á við marga menn

Tveir af efstu hundum mótsins. T.v. Aðalsteinn Aðalsteinsson með Doppu …
Tveir af efstu hundum mótsins. T.v. Aðalsteinn Aðalsteinsson með Doppu frá Húsatóftum, sem varð stigahæst með 136 stig, og Halldór Sigurkarlsson með Smala frá Miðhrauni, sem varð hæstur karlhunda og í fjórða sæti í heildina með 104 stig. Í öðru sæti í heildina urðu Elísabet Gunnarsdóttir og Panda frá Daðastöðum með 120 stig. mbl.is/Kristín Heiða Kristinsdóttir

Góður fjárhundur er gulli betri fyrir fjárbónda, hann getur hlaupið langar vegalengdir og sótt fé og haldið því saman. Slíkur hundur getur verið á við marga menn í smalamennskum. Border Collie hundar búa yfir einstökum hæfileikum til að vinna með sauðfé.

Landskeppni Smalahundafélags Íslands var haldin um liðna helgi í Biskupstungum, þangað sem bændur allsstaðar af landinu mættu með Border Collie-hunda sína sem kepptu í færni við að vinna með kindur.

Í landskeppni fáum við að sjá marga bestu hunda landsins, en keppnin er haldin árlega og hún flakkar á milli landshluta. Fólk kemur allsstaðar að af landinu með hunda sína til að taka þátt, hér er fólk sem kemur alla leið frá Langanesi. Þetta er hugsað fyrir bændur sem koma með sína vinnuhunda og sýna hvað þeir geta og keppa við aðra hunda í færni. Núna tóku fimmtán hundar þátt, en það er keppt í þremur flokkum, unghundum, í B flokki og A flokki. Margir eru að taka þátt í fyrsta sinn og B flokkur er hugsaður fyrir hunda sem eru reynsluminni og þá er brautin styttri og þrautirnar færri heldur en í A flokknum, þar eru hundar sem hafa keppt áður og brautin erfiðari,“ segir Trausti Hjálmarsson, bóndi og fjárhundaræktandi, en keppnin var haldin að þessu sinni heima hjá honum og konu hans Kristínu Sigríði Magnúsdóttur bónda í Austurhlíð í Biskupstungum.

Rækta hæfileika en ekki útlit

„Það eru tvö rennsli, eitt hvorn daginn, og úrslitin ráðast af samanlögðum stigafjölda eftir báða dagana. Hundeigandinn sér um að stýra hundi sínum í þrautabrautinni, ýmist með eigin rödd eða með flautu, eða bæði. Hundeigandinn þarf að standa kyrr á palli á ákveðnum stað, þar til hundurinn hefur klárað að reka fjárhópinn í gegnum hliðin þrjú, þá má hann stíga niður og opna réttina til að hundurinn geti komið kindunum þangað inn,“ segir Trausti og bætir við að Smalahundafélagið sé frábær félagsskapur. „Fólk sem ræktar og á smalahunda hefur heilmikil samskipti sín á milli. Smalahundafélag Íslands heldur utan um landið og landskeppnina, og samskiptin tengjast auðvitað ræktuninni líka. Svo er alltaf ákveðin pólitík í hundarækt, eins og annarri ræktun, fólk hefur misjafnar áherslur í því hvernig það vill hafa hundinn sinn,“ segir Trausti, og einn nærstaddur, Sverrir Möller frá Langanesi sem mætti með hundinn sinn Gutta til keppni, bætir við að fólk hafi sjálfstæðar skoðanir á ræktuninni, þar sé engin ein lína. „Flestir eru sammála um að rækta hæfileika en ekki útlitið hjá smalahundum, þeir keppa í því hvað þeir geta en ekki hvernig þeir líta út á sýningarpöllum. Það er magnað að fylgjast með þessum hundum, þeir eru misjafnir rétt eins og við mannfólkið. Ég hef verið í þessu undanfarin fimmtán ár, en ég er yfirleitt alltaf með rakka en ekki tíkur. Ég kaupi góða hvolpa og tem þá sjálfur, reyni að næla mér í það sem mér finnst vera það besta sem til er, vel ræktaða hunda. En ég á líka hunda undan mínum eigin hundum. Það er þónokkuð um að fólk hafi verið að flytja inn hunda til að fá nýtt blóð í ræktunina, þá eru þeir allsráðandi fyrstu tvö árin, en svo kemur í ljós með framræktun hvort þeir gefi vel. Með góðri þjálfun geta flestir hundar orðið góðir smalahundar, segir Sverrir.“

Íslensku ærnar erfiðar

Trausti segir að Smalahundafélag Íslands vinni eftir alþjóðlegum stöðlum. „Við erum í alþjóðlegum félagsskap, ISDS, International Sheep Dog Society, og þau samtök útveguðu okkur löggiltan dómara frá Englandi til að dæma í keppninni núna, Anthony Boggy Warmington. Það er frábært fyrir okkur að fá slíkan aðila til landsins til að efla þekkingu okkar, því hann heldur líka námskeið fyrir okkur.“

Anthony segist vera glaður að hafa fengið að koma til Íslands að dæma hundana. „Mig hafði lengi langað til að komast til Íslands, og ég sá norðurljós í gærkvöldi og hvaðeina og er ákveðinn í að koma aftur, “ segir Anthony sem fer víða til að dæma smalahundakeppnir, til dæmis til Kanada, Hollands og Þýskalands, auka heimalandsins Bretlands. „Munurinn á milli þessara landa liggur ekki í hundunum, heldur í kindunum og hvernig hundarnir þurfa að vinna með þessar ólíku kindur. Það er meira að segja mikill munur á kindum innan Englands, en ég get sagt þér það að íslensku kindurnar eru mjög erfiðar fyrir hundana, þær eru harðar og þrjóskar, svo hundurinn þarf að hafa mikið fyrir vinnunni með þær. Auk þess vinna hundarnir hér á Íslandi ekki með kindur á hverjum degi eins og raunin er með fjárhunda heima á Englandi,“ segir Anthony og bætir við að langflestir fjárbændur á Englandi noti hunda við vinnu með fé sitt. „Það er ekki auðvelt að halda fé án þess að hafa góðan hund.“

Ein stór fjölskylda

Þegar Anthony er spurður að því hvað geri hund að góðum fjárhundi segir hann að bæði þurfi að koma til meðfæddir hæfileikar og góð þjálfun. „Hundurinn verður að búa yfir getunni en eigandinn þarf líka að búa yfir hæfileikanum til að ná þeirri getu fram.“ Besti smalahundur sem Anthony hefur séð heitir Sweep sem gæti útlagst Bursti eða Kústur á íslensku. „Eigandi hans er Ricky Hutchinson á Englandi, og það er magnað að sjá hundinn hans að verki, hann er fljótur, hugrakkur, hlýðinn og viljugur. Hann getur nánast gert hvað sem er,“ segir Anthony og bætir við að hundeigandi þurfi að vera gríðarlega þolinmóður til að ná góðum árangri í þjálfun sinni með fjárhund.

Anthony á sjálfur fjóra Border Collie hunda heima á Englandi þar sem hann heldur 600 fjár og 60 kýr. „Hundarnir mínir vinna með mér á hverjum einasta degi, mest með kindurnar, en einstaka sinnum líka með kýrnar.“

Hann segir samfélag smalahundaeigenda í Bretlandi vera frábært og með tilkomu Facebook geti fólk haft samband og samráð hvar sem er í heiminum. „Samfélagsmiðlarnir hafa fært okkur nær hvert öðru, við erum eins og ein stór fjölskylda.“

Hægt er að horfa á myndband frá keppninni um liðna helgi á YouTube, undir heitinu: Landskeppni Smalahundafélags Íslands. Gaman er að sjá hvernig hundarnir vinna með kindurnar.

Svona fer keppnin fram

Keppt var í þremur flokkum, unghundum (sem eru þriggja ára og yngri), í B flokki og A flokki.

Hundurinn vinnur í ákveðinni braut, fyrst er hann sendur af stað þónokkra vegalengd til að sækja kindahóp og hann þarf að fara með hópinn í gegnum þrjú hlið. Að því loknu þurfa hundarnir í A flokki að skipta hópnum og síðan reka hópinn inn í rétt. Þetta þarf að gera innan ákveðins tíma.

Kindahópurinn sem hundurinn vinnur með er stærri í A flokki, þá eru þær fimm í stað fjögurra kinda í B flokki og hjá unghundum. Brautin er líka lengri í A flokknum og þar þurfa hundarnir að skipta hópnum tvisvar, taka tvær ómerktar kindur út úr hópnum og halda valdi á þeim, sameina hópinn svo aftur og reka hann inn í litla rétt, taka hópinn síðan aftur út úr rétt og þá á hundurinn að taka eina bleikmerkta kind út úr hópnum.

Hundurinn þarf að klára brautina og hann þarf að halda kindunum innan brautar, en hún er sjö metra breið.

Í B flokki þarf hundurinn ekki að skipta hópnum og ekki taka hópinn aftur út úr réttinni. Hundarnir þurfa að leysa þrautirnar á ákveðnum tíma. Hundurinn leggur upp með ákveðinn stigafjölda en hann fær mínusstig fyrir ýmis atriði, t.d ef hann missir kindur út fyrir braut, glefsar í kind eða ef honum tekst ekki að gera eitthvað af því sem honum ber.

Hluti þeirra kinda sem hundarnir unnu með, nokkuð skrautlegar.
Hluti þeirra kinda sem hundarnir unnu með, nokkuð skrautlegar. mbl.is/Kristín Heiða Kristinsdóttir
Svanur Guðmundsson gefur hér tík sinni Korku frá Miðhrauni skipanir …
Svanur Guðmundsson gefur hér tík sinni Korku frá Miðhrauni skipanir þar sem hún vinnur með 5 kindur. mbl.is/Kristín Heiða Kristinsdóttir
Dómarinn Anthony og tíkin Kát sem er í eigu Trausta …
Dómarinn Anthony og tíkin Kát sem er í eigu Trausta og Kristínar. mbl.is/Kristín Heiða Kristinsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert