Aldrei fleiri á biðlista eftir meðferð

Yfir 300 manns eru nú á biðlista eftir því að …
Yfir 300 manns eru nú á biðlista eftir því að komast í meðferð. Heiðar Kristjánsson

Aldrei hafa fleiri verið á biðlista hjá SÁÁ eftir því að komast í vímuefnameðferð, eða yfir 300 manns. Forstjóri sjúkrahússins Vogs segir stöðuna alvarlega. Stundum sé ekki hægt að sinna fólki í lífshættulegri neyslu sem þurfi virkilega á aðstoð að halda.

Í skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra um skiplagða glæpastarfsemi, sem kom út í gær, er fullyrt að fíkniefnaneysla hafi aldrei verið meiri í Íslandssögunni. Þá kemur fram að spurnin eftir fíkniefnum hér á landi hafi aldrei verið meiri og að vísbendingar séu um að innflutningur á sterkum fíkniefnum, á borð við kókaín, sé að færast í vöxt.

Valgerður Á. Rúnarsdóttir, forstjóri sjúkrahússins Vogs, segir þessar lýsingar lögreglu á ástandinu í takt við það sem þau upplifa á Vogi. „Við höfum aldrei verið með eins mikið af fólki á biðlista. Við tökum alltaf inn sama fjölda af fólki, en ef það er almennt meiri neysla í samfélaginu þá lengist biðlistinn. Það hafa yfir 300 manns verið á biðlista hjá okkur allt þetta ár. Okkur fannst mikið fyrir nokkrum árum þegar það voru undir 200, þannig að það er talsverð aukning á biðlista og það er meiri aðsókn að okkur.“

Finnur fyrir aukinni neyslu kókaíns

Hún segir algengast að fólk sé í blandaðri neyslu örvandi efna og lyfseðilsskyldra lyfja. „Hérna á Íslandi hafa þetta verið örvandi efni, ýmist amfetamín, ritalín, kókaín og kannabis, þá aðallega gras, það fer svona eftir því hvaða ár er. Svo eru það lyf sem fara á markað, koma úr lyfjafyrirtækjum, og verða ólögleg í viðskiptum. Þetta er það sem blasir við á hverjum degi hjá okkur.“

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.
Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Valgerður segist hafa fundið fyrir aukningu í neyslu kókaíns, en líkt og áður sagði eru vísbendingar um að innflutningur á kókaíni sé að færast í vöxt. Kann gott efnahagsástand að hafa þar eitthvað að segja. „Þessi örvandi efni eru áberandi, en það er mismunandi hvort það er amfetamín eða kókaín. Nú er það kókaínið.“

Valgerður segir þá sem nota kókaín vera að mestu leyti sama hóp og notar amfetamín. Þó séu alltaf einhverjir sem séu eingöngu að nota kókaín. „Það eru samt mjög fáir í mikilli slíkri neyslu án þess að vera sjálfir í einhverju braski. Þetta getur verið fólk sem er ágætlega sett. Það er allt litrófið í þessu.“

Stærsti hópurinn sem sækir í þjónustuna á Vogi er ungt fólk. „Þetta eru ungir sjúklingar, fólk á besta aldri sem skiptir gríðarlega miklu máli að sinna, og það er allt eftir.“

Þegar neyslan verður almennt meiri í samfélaginu þá tefur það fólk í að leita sér aðstoðar, að sögn Valgerðar. „Um leið og þú ferð að stangast á við umhverfið þá kemurðu og leitar þér aðstoðar. Ef þetta er hins vegar í umhverfinu og þú getur verið í síneyslu án þess að vinna, þá er minni fyrirstaða. Þá er auðveldara að halda neyslunni áfram,“ útskýrir hún.

Komin á slæman stað að geta ekki sinnt fólki

„Við viljum að hjá okkur séu opnar dyr og það er það sem SÁÁ stendur fyrir. Við viljum að það sé auðvelt að leita sér aðstoðar – að það sé létta valið. Ef við getum ekki sinnt fólki af því það eru of margir að biðja um aðstoð þá erum við á slæmum stað. Fólk sem er í síneyslu á örvandi vímuefnum, tala nú ekki um þá sem sprauta sig, er komið í lífshættulega neyslu út af hvatvísi, slysum, sýkingum og dauðsföllum,“ segir Valgerður, en um helmingur af þeim sem notar örvandi efni að staðaldri sprautar sig.

Neysla á kókaíni virðist hafa aukist samhliða bættu efnahagsástandi.
Neysla á kókaíni virðist hafa aukist samhliða bættu efnahagsástandi. AFP

Valgerður segist búast við því hvenær sem er að heróíns verði vart hér á landi. Hún bendir á að hér á landi sé til staðar töluverður vandi vegna lyfseðilsskyldra verkjalyfja sem innihaldi ópíóíð, en í skýrslu ríkislögreglustjóra segir að reynslan í Bandaríkjunum sé sú að neytendur sterkra verkjalyfja leiðist oft út í neyslu ódýrari efna, eins og heróíns.

„Það er svolítið öðruvísi útlit á þeirri neyslu heldur en örvandi efnanna. Örvandi neyslan er algjört skaðræði og hefur svo slæmar afleiðingar á virkni einstaklingsins og hvernig hann stendur sig í samfélaginu. Ef fólk með fíknisjúkdóm fer inn í slíka neyslu þá getur það orðið algjörlega bremsulaust og félagslegu afleiðingarnar hrannast upp. Morfínefnin og heróínið er hins vegar mjög hættulegt sé litið til ofskammta og dauðsfalla.“

Vildi óska að meiri skilningur væri til staðar 

Hún segir stjórnvöld ekki hafa sýnt ástandinu mikinn skilning og að engin aukning hafi orðið á fjárveitingum í nokkur ár.

„Mér finnst þetta mjög alvarlegt og ég vildi óska þess að það væri betri skilningur hjá stjórnvöldum á því að ef það væri veitt meiri peningum í þessa meðferð, svo við gætum aðstoðað fleiri, þá myndi það sjálfsögðu hafa jákvæð áhrif. Það hefur ekki komið neitt svar við slíkum áköllum í mörg ár þrátt fyrir að umsvifin séu miklu meiri og útlitið alvarlegt. Þegar einstaklingur fer í meðferð er ekki verið að setja plástur. Í því felst forvörn og með því er hægt að breyta gangi mála.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert