Svartárvirkjun bíði ákvörðunar um rammaáætlun

Hólmasvæði Svartár og þrengslin Glæfra þar upp af. Stífla Svartárvirkjunar …
Hólmasvæði Svartár og þrengslin Glæfra þar upp af. Stífla Svartárvirkjunar yrði neðan túna efst í hægra horni myndarinnar. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Verndarfélags Svartár og Suðurár

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri Þingeyjarsveitar, segir eðlilegt að bíða með ákvörðun um framkvæmdir við fyrirhugaða Svartárvirkjun í Bárðardal þar til niðurstaða liggi fyrir varðandi þingsályktunartillögu rammaáætlunar þar sem lagt er til að Skjálfandafljót og vatnasvið þess, sem Svartá tilheyrir, fari í verndarflokk. Þá segir hún að engar ákvarðanir verði teknar, hvorki hvað varðar skipulagsbreytingar eða útgáfu framkvæmdaleyfis, fyrr en umhverfismat liggi endanlega fyrir sem gerist með áliti Skipulagsstofnunar. Gera þurfi breytingu á gildandi aðalskipulagi Þingeyjarsveitar sem og nýtt deiliskipulag fyrir mannvirki fyrirhugaðrar virkjunar. Öll sú vinna sé eftir.

Rúmlega 70 athugasemdir bárust Skipulagsstofnun við frummatsskýrslu virkjunarinnar sem Verkís vann fyrir SSB Orku. Að auki bárust umsagnir frá níu lögbundnum umsagnaraðilum.

„Þessi fjöldi athugasemda kemur á óvart,“ segir Dagbjört. „Við reiknuðum alltaf með athugasemdum en kannski ekki svona mörgum.“

Hún segir að sveitarstjórnin hafi verið jákvæð gagnvart framkvæmdinni í upphafi en hins vegar hafi forsendur breyst og sveitarstjórn komið ýmsum athugasemdum á framfæri í skipulags- og matsferlinu. Hún segir að Þingeyjarsveit hafi ekki gert athugasemd við efnistök í frummatsskýrslunni en hafi þó áskilið sér rétt ef til framkvæmda kæmi og við útgáfu framkvæmdaleyfis að setja nánari skilyrði um vöktun umhverfisþátta, t.d. varðandi lágmarksrennsli í ánni til að viðhalda staðbundnum fiskistofnum.

Fágæt lindá

Svartárvirkjun yrði skammt frá ármótum að Skjálfandafljóti og á um 3 kílómetra löngum kafla yrði rennsli árinnar verulega skert þar sem vatni yrði veitt úr farvegi og um aðrennslispípu að stöðvarhúsi. Framkvæmdaaðilinn, SSB Orka, segist ætla að tryggja lágmarksrennsli eða um 10-15% af náttúrulegu rennsli árinnar.

Svartá er lindá en slíkar ár eru fágætar bæði á lands- og heimsvísu. Rennsli þeirra og hitastig er nokkuð jafn yfir árið og lífríkið því fjölskrúðugt. 

Í umsögn Landverndar við frummatsskýrsluna kemur m.a. fram að þar sem Svartá tilheyri vatnasviði Skjálfandafljóts, sem lagt er til að fari verndarflokk rammaáætlunar, sé ljóst að ekki sé unnt að heimila þar virkjun. Dagbjört ítrekar að ekki sé komið að útgáfu framkvæmdaleyfis. Mikil skipulagsvinna sé enn fyrir höndum áður en endanleg ákvörðun um framkvæmdina verður tekin. „Telja má líklegt að innan áratugar verði litið á þessi áform sem jafn fráleit og fólki nú þykja hugmyndir manna á síðari hluta 20. aldar um að veita Skjálfandafljóti, Svartá og Suðurá í Mývatn og fylla Laxárdal af vatni,“ segir m.a. í umsögninni.

Finnst þér tilefni til að bíða með útgáfu framkvæmdaleyfis þar til þingið hefur afgreitt þingsályktunartillöguna?

„Jú, mér finnst það eðlilegt,“ svarar Dagbjört. „Það er vonast til þess að hún verði afgreidd á nýju þingi en hvort hún fari óbreytt í gegn er auðvitað ekki víst. Það getur vel verið að gerðar verði breytingar á henni í meðförum þingsins. Ég reikna með að samþykkt rammaáætlun liggi fyrir áður en endanlegar ákvarðanir um leyfi til framkvæmda kemur.“

Lítill fjárhagslegur ávinningur

Efnahagslegur ávinningur sveitarfélagsins af virkjuninni yrði lítill að sögn Dagbjartar. Einhverjar tekjur yrðu af fasteignagjöldum mannvirkja og sömuleiðis einhver fjárhagslegur ávinningur fyrir samfélagið í Bárðardal þar sem landeigendur hafa m.a. samið um vatnsréttindi við framkvæmdaaðila.

„Virkjunin yrði tengd inn á meginflutningskerfi raforku,“ bendir Dagbjört á. „Það sem við höfum verið að berjast fyrir í Bárðardal er þriggja fasa rafmagn og betri vegir. Það er ekkert sem segir til um að úr því verði bætt með tilkomu þessarar virkjunar. Þannig að ég get ekki sagt að hún myndi hafa mikinn fjárhagslegan ávinning fyrir sveitarfélagið.“

Enn á fyrstu stigum

Í athugasemdum Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn er bent á einstakt lífríki Svartár og m.a. að hún sé eitt af fáum vetrarathvörfum húsandar utan Mývatns og Laxár. Leggur stöðin til að Svartá og Suðurá verði friðlýstar.

Spurð út í þessa gagnrýni og fleiri sem telja að virkjun myndi ógna lífríki árinnar segir Dagbjört að framkvæmdin sé í umhverfismatsferli og þurfi að uppfylla öll skilyrði. „Við erum ekki að tala um neitt annað,“ segir hún og ítrekar að engar ákvarðanir verði teknar um framkvæmdir fyrr en niðurstaða umhverfismats liggur fyrir. „Þetta er enn á fyrstu stigum og mikil vinna er fyrir höndum hjá Skipulagsstofnun að vinna úr og svara þeim athugasemdum sem hafa borist.“

Svartárvirkjun er áformuð í landi Þingeyjarsveitar.
Svartárvirkjun er áformuð í landi Þingeyjarsveitar. mbl.is/Kristinn Garðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert