„Fólk deyr úr geðsjúkdómum“

„Á meðan geðheilbrigðiskerfið er eins og það er sé ég ekki fyrir mér að geta búið á Íslandi.“

Þetta segir Dísa Bjarnadóttir, sem greindist með geðhvörf fyrir tíu árum. „Ég greindist með geðhvörf árið 2007 þegar ég bjó í Bandaríkjunum. Þá var ég í geðhæð eða maníu og mamma kom út til að fara með mig heim,“ segir Dísa. „Hún fór með mig í geðmat, sem tók stuttan tíma, og eftir að ég tók skapofsakast var mér boðin innlögn á geðdeild.“

Dísa Bjarnadóttir
Dísa Bjarnadóttir

Dísa segir um þessa fyrstu innlögn sína að hún hafi engan veginn áttað sig á hvað var í gangi. „Ég var allt í einu komin inn í hvítt herbergi og ég heyrði fólk hrópa sem var greinilega í mikilli vanlíðan. Sjálfri leið mér svo illa, ég varð óörugg og vildi ekki vera þarna. En mér var sagt að ég mætti ekki fara út því ég hefði þegið innlögn. Ég yrði bara að taka það rólega yfir helgina. Sem betur fer komu vinir mínir og aðstandendur til mín og sögðu að ég væri heppin að vera þarna inni og fá hjálp. Þá leið mér betur. Síðar fékk ég að vita að mamma mín hefði skrifað undir sjálfræðissviptingu og þess vegna gat ég ekki farið neitt.“

Þegar hún lítur til baka segist Dísa átta sig á að það hafi verið sér fyrir bestu að leggjast inn. „Það var líka þá sem ég áttaði mig á því að ég væri veik. Ég las í sögu eftir Einar Kárason eitthvað á þá leið að fólk sem væri kannski pínku klikkað áður yrði fyrst alveg gaga þegar það væri lagt inn á geðdeild. Og það átti við um mig. En það var erfitt, eftir að ég fékk þá greiningu að ég væri með geðhvörf, að sætta sig við það.“

Ókeypis í Bandaríkjunum

Dísa fór síðan aftur til síns heima í Bandaríkjunum þar sem hún var við nám og störf, en hún var gift Bandaríkjamanni. „Ég var í raun heppin að búa í því ríki Bandaríkjanna þar sem félagsleg þjónusta er einna mest. Þar fékk ég ókeypis læknisþjónustu, sálfræðitíma einu sinni í viku og þurfti ekki að borga fyrir lyfin.“

Leiðir Dísu og eiginmanns hennar skildi árið 2011. Þá flutti hún heim til Íslands og segir það hafa komið sér á óvart hversu slæmt ástandið var í geðheilbrigðismálum.

Hún byrjaði á að leita að geðlæknum á já.is og hringdi í þá alla. „Alls staðar fékk ég sama svarið: Við tökum ekki við nýjum sjúklingum,“ segir Dísa. Að lokum komst hún að hjá lækni, en það tók nokkurn tíma og í millitíðinni var hún á geðlyfjum sem hún hafði fengið hjá geðlækni sínum í Bandaríkjunum og gat fengið þau endurnýjuð hjá heimilislækni.

Fannst ég vera alein

Næstu árin þurfti Dísa talsvert á geðheilbrigðisþjónustu að halda og segist oft hafa upplifað að þessi málaflokkur væri alger afgangsstærð í heilbrigðiskerfinu. „Til dæmis í eitt skiptið þegar ég leitaði á bráðamóttöku geðdeildar. Þá var ég mjög ör í maníu og hafði ekki sofið í marga daga. Ég fékk þau svör að þar væri svo mikið álag að það væri ekki hægt að gera neitt fyrir mig. Mér var sagt að fara heim. Ég gat ekki hugsað mér það, vissi ekki hvað ég átti að segja því ég var einfaldlega ekki með rétta orðaforðann til að lýsa ástandinu. Ég spurði þá hvort ég þyrfti að hóta því að drepa mig til að fá innlögn. Læknirinn hélt sínu striki um að vísa mér frá, ég fór þá grátandi fram á gang þar sem vinur minn beið. Hann bauðst til að tala við lækninn fyrir mig og á endanum var mér boðið pláss.“

Dísa segir að það hafi gerst nokkrum sinnum í viðbót að sér hafi verið vísað frá þegar hún leitaði aðstoðar. „Það er virkilega erfitt,“ svarar hún spurð hvernig hún hafi upplifað það. „Það er svo mikið vonleysi sem fylgir því að vera vísað frá. Manni finnst maður vera aleinn í heiminum. Ég var heppin, ég hafði haldreipi í geðlækninum mínum og fjölskyldunni minni. En sumir hafa ekkert slíkt og ég þekki nokkuð mörg dæmi um að svona aðstæður hafi ýtt fólki fram af brúninni.“

Eins og Villta vestrið

Geðlæknir Dísu reyndist henni einkar vel. „Þegar ég sagði honum að ég væri að flytja til Danmerkur sagðist hann ekki efast um að þar yrði ég í góðum höndum. Hann sagði að geðheilbrigðiskerfið á Íslandi væri eins og Villta vestrið – að fólk þyrfti að berjast fyrir öllu og vissi aldrei hverju það ætti von á.“

Dísa flutti utan í byrjun þessa árs og nokkrum mánuðum síðar fann hún á líðan sinni að hún þurfti á aðstoð að halda og með því að hringja í 1813, sem er nokkurs konar neyðarnúmer fyrir fólk sem þarf læknisaðstoð og upplýsingar um hvar hana er að finna, komst hún í samband við geðteymi á sjúkrahúsi í grennd við heimili sitt. „Þar hitti ég geðhjúkrunarfræðing og lækni og sagði þeim sögu mína. Þau spurðu mig hvernig ég teldi að hægt væri að hjálpa mér. Ég vissi satt best að segja ekki hvernig ég átti að svara því; á þeim tíu árum sem voru liðin frá því að ég var greind með geðhvörf hafði enginn spurt mig hvað mér fyndist.“ Þar sem Dísa var ekki komin með geðlækni var henni boðið í það sem er kallað milliteymi. Þar fékk hún viðtöl við lækni og geðhjúkrunarfræðing a.m.k. einu sinni í viku eða eftir þörfum þangað til hún kæmist að hjá föstum geðlækni. „Mér var síðan boðið að leggjast inn á sjúkrahúsið, sem ég þáði ekki, en mér var boðið að koma aftur nokkrum dögum síðar og það var það haldreipi sem ég þurfti á að halda.“

Við þessar móttökur í danska heilbrigðiskerfinu segist Dísa hafa fundið fyrir svo sterkri öryggistilfinningu að hún hafi farið að hágráta. „Þetta var í fysta skiptið frá því að ég fékk greininguna að mér leið svona. Það var svo mikill léttir að vita að það væri til áætlun fyrir mig.“

Eftir þessa fyrstu viðkomu sína í danska heilbrigðiskerfinu var Dísu vísað til sérstaks geðhvarfateymis sem starfar á Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn. Læknar teymisins mátu stöðu hennar sem svo, að þar sem talsvert var um liðið síðan hún var greind með sjúkdóminn myndu aðrir kostir henta henni betur. Þá var henni vísað á geðheilbrigðisþjónustu sem var nær heimili hennar og sérsniðin að þörfum fólks sem hafði verið með greiningu í nokkurn tíma og áður verið í meðferð. „Ég hef alls staðar fundið í Danmörku að mér er ekki sleppt úr einni þjónustu fyrr en búið er að finna aðra fyrir mig. Það er eins og það sé meiri skilningur á því í danska heilbrigðiskerfinu hvað geðsjúkdómar eru alvarlegir. Svo borga ég talsvert minna fyrir geðlyfin í Danmörku en á Íslandi.“

Eigum að geta gert miklu betur

Dísa leggur áherslu á að flestallt það heilbrigðsstarfsfólk sem hafi unnið að hennar málum á Íslandi hafi gert sitt allra besta við erfiðar aðstæður.„Við eigum mjög mikið af góðu fólki sem vinnur gríðarlega erfitt starf undir miklu álagi á lélegum launum. En það er ekki starfsfólkið sem ákveður hvernig þjónustan er, heldur stjórnvöld,“ segir Dísa og segir virkilega ánægjulegt að sjá hversu mikið hefur verið rætt um geðheilbrigðismálin í yfirstandandi kosningabaráttu. „Það verður áhugavert að sjá hvort flokkarnir standa við loforðin. Við erum svo fá og eigum að geta gert miklu betur. En til að svo megi verða þurfa fleiri að átta sig á því að geðsjúkdómar draga fólk til dauða, rétt eins og krabbamein eða hjartasjúkdómar. Því miður þekki ég mörg dæmi um fólk með geðsjúkdóma sem hefur tekið eigið líf. Fólk deyr úr geðsjúkdómum. Ég er ákveðin í að lifa minn geðsjúkdóm af og þess vegna finnst mér ég ekki geta flutt heim á meðan þjónustan er ekki betri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert