20 danslög valin af um 100

Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar, sem lengi lék undir í lögum Danslagakeppninnar …
Hljómsveit Hauks Þorsteinssonar, sem lengi lék undir í lögum Danslagakeppninnar á Sauðárkróki á sínum tíma. Í neðri röð f.v. eru Sigurgeir Angantýsson, Haukur og Hafsteinn Hannesson. Í efri röð f.v. eru Jónas þór Pálsson, faðir Huldu, og Sveinn Ingason. Hérna er hljómsveitin samankomin í Félagsheimilinu Bifröst á Sauðárkróki. Ljósmynd/Stefán Pedersen

„Hugmyndin að þessu öllu kviknaði þegar við pabbi fundum gamlar upptökur og nótur frá þessari keppni í skúrnum hjá honum, allt lög frá árunum 1957 til 1971,“ segir Hulda Jónasdóttir, þjónustufulltrúi í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ, ættuð frá Sauðárkróki.

Húnstendur fyrir tónleikum í Salnum í Kópavogi nk. laugardagskvöld í tilefni þess að 60 ár eru liðin síðan Danslagakeppni Kvenfélags Sauðárkróks hóf göngu sína.

Hulda hefur í grúski sínu undanfarin þrjú ár fundið um 100 lög úr keppninni en 20 þeirra voru valin til flutnings á tónleikunum, sem fyrst voru haldnir í Sæluviku Skagfirðinga sl. vor. Vegna mikillar eftirspurnar var ákveðið að endurflytja þá sunnan heiða og er Salurinn nánast orðinn fullur, aðeins örfáir miðar eftir. „Viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum og ég er hætt að hafa hnút í maganum og áhyggjur af því að dæmið muni ekki standa undir sér,“ segir Hulda.

Kvenfélagið átti frumkvæðið

Tónlistarunnandinn Hulda Jónasdóttir skipuleggur tónleikana.
Tónlistarunnandinn Hulda Jónasdóttir skipuleggur tónleikana.



Faðir hennar, Jónas Þór Pálsson, málarameistari á Sauðárkróki, lék á trommur í flestum danslagakeppnum á þessum árum, 1957-1971. Og móðir hennar, Erla Gígja Þorvaldsdóttir, samdi mörg lög í keppnina þegar hún var endurvakin 1994. Jónas lést fyrir tæpu ári og náði ekki að vera viðstaddur 60 ára afmælistónleikana sem dóttir hans skipulagði ásamt fleiri.

Hljómsveitarstjóri er Þórólfur Stefánsson, gítarleikari og tónlistarkennari í Svíþjóð, sem alinn er upp á Sauðárkróki. Með honum spila Jón Rafnsson á bassa, Halldór Hauksson á trommur og Daníel Þorsteinsson á píanó og hljómborð. Kynnir á tónleikunum er Valgerður Erlingsdóttir. Söngvarar koma flestir úr Skagafirði, m.a. þeir Geirmundur Valtýsson og Óli Ólafsson, sem einnig komu fram í Danslagakeppninni á sínum tíma. Meðal annarra flytjenda má nefna Álftagerðisbróðurinn Pétur Pétursson, Hreindísi Ylfu (dóttir Huldu), Maríu Ólafs, Eurovisionfara, og Guðbrand Ægi Ásbjörnsson. Sum lögin hafa orðið þekkt á landsvísu, eins og Útlaginn, Nú kveð ég allt, Bílavísur og Sjómannavísa. Höfundar laganna á tónleikunum eru m.a. Geirmundur, Jón Björnsson frá Hafsteinsstöðum, Eyþór Stefánsson og dóttir hans, Guðrún.

„Ég setti mig í samband við fjöldann allan af fólki sem kom nálægt þessu á sínum tíma. Ég fékk ómetanlega hjálp frá svo mörgum, þetta er búin að vera mikil vinna en ótrúlega skemmtileg. Þórólfur hljómsveitarstjóri er búinn að vera vakinn og sofinn yfir þessu með mér. Hann útsetti lögin og kom saman frábærri hljómsveit,“ segir Hulda.

Kvenfélag Sauðárkróks stóð fyrir danslagakeppninni, sem fjáröflunarleið fyrir félagið. „Fremst í flokki var kjarnorkukonan Guðrún Gísladóttir, sem hrinti þessu af stað. Hún sá bara sjálf um að semja texta við lögin ef þá vantaði og stundum bæði lag og ljóð. Ótrúleg kona. Það er líka gaman að sjá hversu margar skagfirskar húsmæður áttu lög í keppninni, þeim er greinilega margt til lista lagt,“ segir Hulda.

Hún vildi koma á framfæri sérstökum þökkum til þeirra sem hafa aðstoðað við tónleikahaldið, bæði fyrir norðan í vor, og nú í Salnum í Kópavogi 4. nóvember.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert