„Þetta snýst um mannúð og réttlæti“

Nasr Mohammed Rahim er frá Kúrdahéruðum Íraks.
Nasr Mohammed Rahim er frá Kúrdahéruðum Íraks. mbl.is/Kristinn Magnússon

Um 40 til 50 manns mættu á kynningarnámskeiði í kung fu til stuðnings flóttafólki frá Íran og Kúrdistan í taekwondo-aðstöðunni í Víkurhvarfi 1 í Kópavogi í kvöld. Nasr Mohammed Rahim, sem er frá Kúrdahéruðum Íraks, hélt námskeiðið. 

„Það var mikil stemning. Ég vissi ekki að það væru svona margir Kúrdar hér á landi sem hefðu áhuga á því að læra 1.500 ára gamla bardagalist,“ segir Sigursteinn Másson, sem hefur aðstoðað hann og konu hans við að reyna að fá hæli hér á landi. Þeim hefur verið neitað um hæli á Íslandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Sonur þeirra Leo, eins árs, er ríkisfangslaus. 

„Hann er greinilega góður þjálfari og það er áhugi á að fá hann til að þjálfa. Hann hefur sýnt fram á að hann er nýtur borgari. Það er það sem þau bæði vilja fá, að vera hér og taka þátt í samfélaginu,“ segir Sigursteinn. 

Mál þeirra hefur aldrei fengið efnislega meðferð hjá Útlendingastofnun. „Það er von mín að mál þeirra fái efnislega meðferð. Þetta snýst um mannúð og réttlæti,“ segir Sigursteinn. Hann bendir á að Rauði krossinn geti ekki gert meira fyrir þau eins og staðan er núna.

Konan er ólétt og er með ýmis einkenni þunglyndis, kvíða og sýnir merki áfallastreituröskunnar. „Hún þarf að fá viðeigandi meðferð,“ segir Sigursteinn og bætir við að það verði að hjálpa þeim.   

Nasr Mohammed Rahim er frá Kúrdahéruðum Íraks en eiginkonan, Sobo, er frá Íran. Sonur þeirra, Leo, eins árs, er ríkisfangslaus. Verði þau send aftur til Þýskalands, þar sem þau hafa þegar fengið neitun, eru allar líkur á að þau verði aðskilin, hann sendur til Bagdad en hún til Teheran með soninn Leo og ófætt barn þeirra hjóna. Þau tóku kristni og hefur verið útskúfað úr samfélögum sínum og fjölskyldur þeirra snúið við þeim baki. Það eru því allar líkur á að þau muni lenda í miklum hremmingum ef þau verða send til baka til heimalanda sinna. 

Hópurinn lagði sig greinilega allan fram.
Hópurinn lagði sig greinilega allan fram. mbl.is/Kristinn Magnússon
Nasr frá Írak með Kung fu kennslu.
Nasr frá Írak með Kung fu kennslu. mbl.is/Kristinn Magnússon
Fjölbreyttur hópur tók þátt.
Fjölbreyttur hópur tók þátt. mbl.is/Kristinn Magnússon
Fimur er hann.
Fimur er hann. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert