Vilja að málinu verði hraðað

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is

Mál Glitnis HoldCo ehf. gegn Stundinni og Reykjavik Media, um staðfestingu á lögbanni sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu gegn birtingu fjölmiðlanna tveggja á frétt­um upp úr gögn­um um viðskiptavini Glitnis, þar á meðal um Bjarna Benediktsson, starfandi forsætisráðherra, var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan tíu í morgun.

Glitnir HoldCo ehf. fer fram á að lögbannið verði staðfest á birtingu fjölmiðlanna á fréttum sem unnar eru upp úr fyrrnefndum gögnum og vísar þar meðal annars til þess að forsvarsmenn þeirra hafi lýst því yfir að þeir hafi ekki verið búnir að birta allar þær fréttir upp úr gögnunum sem þeir hefðu viljað þegar lögbannið hafi verið sett á notkun gagnanna.

Félagið lítur svo að birting frétta upp úr gögnunum fari gegn ákvæðum laga um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Umræddar upplýsingar um viðskiptavini bankans njóti enn fremur verndar 71. greinar stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs í samræmi við 8. grein mannréttindasáttmála Evrópu að mati þess.

Glitnir HoldCo ehf. segir frekari birtingu gagna geta mögulega leitt til skaðabótaskyldu félagsins og að útilokað hafi verið að tryggja hagsmuni þess og fyrrverandi og núverandi viðskiptamanna með öðrum hætti en lögbanni. Réttindi þeirra hefðu farið forgörðum ef ekki hefði verið fallist á lögbannið. Félagið beri skyldu til að lágmarka tjón sitt.

Starfsumhverfi frjálsra fjölmiðla ógnað

Lögmenn Stundarinnar og Reykjavík Media krefjast sýknu í greinargerð sinni og segja að ljóst sé að lögbannskrafan og aðrar kröfur í málinu séu of víðtækar og brjóti enn fremur í bága við tjáningarfrelsisrétt fjölmiðlanna og fjölmiðlafrelsi sem varið sé í stjórnarskrá Íslands, mannréttindasáttmála Evrópu og lögum um fjölmiðla.

Vísa lögmennirnir til þess að óskað hafi verið eftir því að lögbannið næði bæði til birtingar umræddra gagna í heild eða hluta og/eða upplýsinga úr gögnunum eða efnislegrar umfjöllunar um þær. Telja fjölmiðlarnir einsýnt að hafna hefði átt lögbanninu frá upphafi. Starfsumhverfi sjálfstæðra fjölmiðla sé ógnað með tilefnislausri málsókn.

„Ótækt er að refsa sjálfstæðum fjölmiðlum sem sinna skyldum sínum með tilefnislausum málssóknum og tilheyrandi málskostnaði sem alkunna er að stendur frjálsri fjölmiðlun fyrir þrifum hér á landi,“ segir enn fremur í greinarferðinni og lögð áhersla á að dómstólar verði að standa vörð um tjáningarfrelsi frjálsra og óháðra fjölmiðla, beint og óbeint.

Fjölmiðlarnir tveir leggja enn fremur áherslu á að málinu verði hraðað eins og kostur sé í ljósi þess að á meðan lögbannið sé í gildi sæti þeir ólögmætum takmörkunum á stjórnarskrárvörðu tjáningarfrelsi og upplýsingum sem erindi eigi við almenning sé haldið frá honum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert