„Ég braut lögin fyrir pabba minn“

Málfríður Þorleifsdóttir
Málfríður Þorleifsdóttir

„Ég hef alltaf verið löghlýðin og ég átti aldrei von á að vera í þessari aðstöðu. Ég er enginn glæpamaður.“ Þetta segir Málfríður Þorleifsdóttir, íslensk kona sem er sakborningur í einu mest umtalaða fíkniefnamáli síðari tíma í Danmörku, en það snýst um framleiðslu og sölu á kannabisolíu í lækningaskyni. Réttarhöld yfir Málfríði og fjórum öðrum fara nú fram fyrir héraðsdómi í bænum Holbæk á Sjálandi í Danmörku og verði þau fundin sek gæti margra ára fangelsi beðið þeirra.

Forsaga málsins er að faðir Málfríðar, Þorleifur Guðmundsson sjómaður, var greindur með krabbamein í maga og vélinda í febrúar 2014. Þau lyf, sem honum voru gefin, slógu ekki á þá verki og óþægindi sem veikindunum fylgdu. Hann fór að leita sér upplýsinga um aðra möguleika á netinu og sá þar ýmsar greinar og umfjallanir um að krabbameinssjúklingar hefðu neytt kannabisolíu sem verkjastillandi lyfs með góðum árangri.

Þorleifur vakti máls á því við Málfríði að hann vildi reyna kannabisolíu til að lina þjáningar sínar. Hann var búsettur á Íslandi en hún í Danmörku þar sem talsvert auðveldara er að nálgast efnið að hennar sögn. „Pabbi var með krabbamein í maga og hann hélt engu niðri. Um leið og hann borðaði eitthvað, kom það strax upp aftur. Mér fannst virkilega erfitt að vera beðin um að gera eitthvað ólöglegt, en á sama tíma hikaði ég ekki eina sekúndu þegar hann bað mig um þetta; ég hefði gert hvað sem er til að láta honum líða betur,“ segir Málfríður.

Þorleifur Guðmundsson faðir Málfríðar. „Ég efast um að pabbi hafi …
Þorleifur Guðmundsson faðir Málfríðar. „Ég efast um að pabbi hafi nokkurn tímann neytt slíkra efna fyrr en hann notaði kannabisolíuna,“ segir Málfríður.

Var mikið á móti fíkniefnum

Hún segist hafa alist upp við að fíkniefni, eins og kannabis, bæri að varast og því kom þessi beiðni föður hennar henni mikið á óvart. „Pabbi og mamma höfðu alltaf sterkar skoðanir á fíkniefnum og ég efast um að pabbi hafi nokkurn tímann neytt slíkra efna fyrr en hann notaði kannabisolíuna síðustu mánuði ævi sinnar,“ segir Málfríður.

Eftir að faðir hennar vakti máls á þessu las Málfríður sér til um áhrif kannabisefna á líðan krabbameinssjúklinga, en segist hafa verið „gjörsamlega græn“ hvað þetta varðaði og lítið velt kannabisefnum fyrir sér fram að þessu. „Það eru svo margar tilfinningar sem tengjast þessu. Þarna var maður, sem var mér afar kær með banvænan og kvalafullan sjúkdóm og ég var á leiðinni að brjóta lög. Ég leitaði lengi þangað til ég fann góða framleiðsluvöru, sendi pabba hana og þetta var það eina sem gat linað þjáningar hans.“

Þorleifur faðir Málfríðar lést síðla árs 2014 og hún segir að neysla olíunnar hafi gert síðustu stundir hans bærilegri.

Byrjaði eftir veikindi dóttur

Málfríður keypti olíuna af manni að nafni Claus Nielsen, sem hefur viðurnefnið „Moffe“ og er hann nú einnig fyrir rétti í Danmörku í sama dómsmáli og hún. Hún segir að Claus hafi byrjað að vinna olíu úr kannabisplöntunni þegar dóttir hans veiktist af krabbameini en olían var það eina sem sló á verki hennar. Í byrjun keypti fjölskyldan olíuna í Kristjaníu en þar var hún svo dýr að þau höfðu ekki ráð á því og Claus fór sjálfur að útbúa kannabisolíu fyrir dóttur sína. Í kjölfarið fór hann að selja öðrum sjúklingum olíuna og þannig hófust kynni þeirra Málfríðar.

Þau ákváðu að hefja samstarf um framleiðslu kannabissúkkulaðis, sem Málfríður útbjó í eldhúsinu heima hjá sér, og seldu það á facebooksíðunni „Moffes“ og á samnefndri vefsíðu. „Við pössuðum upp á að selja eingöngu sjúklingum, við vitum ekki til þess að við höfum selt olíuna til fólks sem vildi komast í vímu enda er miklu ódýrara að reykja kannabis ef tilgangurinn er að komast í vímu,“ segir Málfríður.

Claus „Moffe“ Nielsen „kannabismaðurinn frá Holbæk.“
Claus „Moffe“ Nielsen „kannabismaðurinn frá Holbæk.“ Skjáskot/dr.dk

Mikill áhugi fjölmiðla

Heimaframleiðsla og sala kannabisolíu er ólögleg í Danmörku, rétt eins og hér á landi. Lögregla stöðvaði starfsemina í september 2016, Málfríður og Claus voru handtekin og ákærð ásamt þremur öðrum fyrir stórfellt brot á fíkniefnalöggjöf Danmerkur, en viðurlög við þeim brotum sem þau eru ákærð fyrir gætu varðað allt að tíu ára fangelsi. Réttarhöld standa núna yfir, þau hófust 23. október, þeim lýkur 6. nóvember og búist er við því að dómur falli í málinu 21. nóvember.

Málið sjálft og réttarhöldin hafa verið mikið til umfjöllunar í dönskum fjölmiðlum og vakið upp ýmsar spurningar um hvort leyfa eigi kannabis til lækninga. Sakborningunum hefur borist stuðningur víða að, m.a. frá stjórnmálamönnum og ýmsum samtökum, enda er litið á málið sem nokkurs konar prófmál og stuðningsmenn þeirra Claus, Málfríðar og félaga þeirra hafa mætt fyrir framan dómshúsið og lýst yfir stuðningi sínum við þau. „Það er skelfilegt að eitthvað, sem hefur hjálpað öðru fólki svona mikið, skuli vera ólöglegt,“ hefur Danska ríkissjónvarpið, DR, eftir einum stuðningsmanninum.

Kannabismaðurinn frá Holbæk

DR gerði heimildamynd um Claus „Moffe “Nielsen og kannabisframleiðslu hans undir heitinu „Kannabismaðurinn frá Holbæk“. Þar segir hann m.a. að hann selji eingöngu krabbameinssjúklingum og öðrum sem líða kvalir sjúkdóma sinna vegna. „Ég veit að það sem við erum að gera er ólöglegt. En það er ekki rangt,“ segir Nielsen í myndinni.

Við réttarhöldin hafa margir kaupendur kannabissúkkulaðisins borið vitni, þeirra á meðal foreldrar barna með krabbamein og hvítblæði og athygli vakti í síðustu viku þegar í vitnastúku steig Pernille Vermund, sem er formaður danska Borgaraflokksins, en hún keypti kannabisolíu af Claus handa fársjúkri móður sinni.

Spurð hvers vegna þau hafi ákveðið að blanda olíunni saman við súkkulaði segir Málfríður að hún hafi áður búið til og selt lífrænt súkkulaði og kunnað til verka. Með því að blanda kannabisolíunni saman við súkkulaði og móta úr því litla dropa sé hægt að tryggja að hver og einn innihaldi hæfilegan kannabisskammt. „Svo virkar þetta líka betur andlega fyrir sjúklingana. Þeim finnst þeir síður vera að gera eitthvað ólöglegt.“

Ég er enginn glæpamaður, segir Málfríður Þorleifsdóttir sem er nú …
Ég er enginn glæpamaður, segir Málfríður Þorleifsdóttir sem er nú fyrir dómi í Danmörku í einu umtalaðasta fíkniefnamáli síðari tíma þar í landi, þar sem hún og fjórir aðrir eru ákærð fyrir brot á fíkniefna- og læknalögum.

Ekki gert í hagnaðarskyni

Í kæru málsins kemur fram að hópurinn hafi selt kannabisolíu og kannabissúkkulaði á netinu fyrir 2,7 milljónir danskra króna (um 44 milljónir ISK) á árunum 2014 - ‘16. Spurð hvort þau hafi hagnast mikið á sölunni segir Málfríður svo ekki vera. „Nei, það gerðum við ekki. Enda var það ekki tilgangurinn, heldur að hjálpa fólki. Við afhentum lögreglu öll gögn um málið og földum ekkert. Það er allt uppi á yfirborðinu.“

Hverjir keyptu kannabissúkkulaðidropana af ykkur? „Ég sá að mestu um framleiðsluna og var lítið í sölumálunum eða samskiptum við kaupendur. En þetta var aðallega fólk með krabbamein, margir sem voru í krabbameinsmeðferðum og notuðu kannabisolíuna til að slá á aukaverkanirnar og auka matarlystina. Þá var talsvert um MS-sjúklinga og fólk með gigtarsjúkdóma og ég man eftir lögreglumönnum sem keyptu af okkur, annaðhvort fyrir sjálfa sig eða aðstandendur. Það voru líka einhver börn. Til dæmis man ég eftir fimm ára stúlku í Álaborg sem hafði fengið krabbamein í móðurlífið og því fylgdi mikil vanlíðan. Súkkulaðidroparnir gjörbreyttu lífi hennar. Svona sögur skera mann í hjartað. Sögur af foreldrum, sem reyna allt sem þeir geta til að láta börnunum sínum líða betur, og þurfa að brjóta lög til þess.“

Málfríður segist hafa fundið fyrir talsverðum fordómum vegna aðildar sinnar að málinu. Hún segist hafa reynt að láta það ekki á sig fá, en vissulega sé erfitt þegar fólk henni nákomið sé ekki tilbúið til að veita henni stuðning.

Áttu von á að fá dóm? „Hugsanlega. En ég á ekki von á að hann verði þungur. Ég braut lögin upphaflega fyrir pabba minn, síðan til að hjálpa öðrum og ég er viss um að þetta endi allt saman vel.“

Manu Sareen, fyrrverandi jafnréttis- og kirkjumálaráðherra Danmerkur, hyggur á málsókn …
Manu Sareen, fyrrverandi jafnréttis- og kirkjumálaráðherra Danmerkur, hyggur á málsókn þar sem hann vill láta reyna á lögmæti þess að fleiri hópum sjúklinga standi til boða að fá kannabis í lækningaskyni

Deilt um kannabisefni í lækningaskyni

Notkun kannabisefna í lækningaskyni er lögleg í Danmörku hafi læknir skrifað upp á meðferðina. Það er aftur á móti ólöglegt að rækta eigið kannabis eða kaupa það af einkaaðilum í þessu skyni og með því athæfi er verið að brjóta bæði lyfja- og fíkniefnalög. Frá sjónarhorni laganna er ekki gerður greinarmunur á því hvort einkaaðilar selja kannabis sem vímugjafa eða til lækninga.

Um áramótin munu ný lög taka gildi í Danmörku sem kveða á um að næstu fjögur árin, fram til ársins 2022, verði tilteknum sjúklingahópum gefinn kostur á að fá kannabisolíu í lækningaskyni og verður grannt fylgst með framkvæmdinni og hvort tilefni sé til að fyrirkomulagið verði að varanlegum lögum. Nú hyggur Manu Sareen, fyrrverandi jafnréttis- og kirkjumálaráðherra Danmerkur, á málsókn þar sem hann vill láta reyna á lögmæti þess að fleiri hópum sjúklinga standi þessi valkostur til boða.

Í viðtali við danska dagblaðið Politiken um síðustu helgi sagði Sareen að notkun kannabis í lækningaskyni yrði líklega ekki lögleg fyrr en í fyrsta lagi árið 2024. „Ég er ekki tilbúinn til að bíða eftir því og heldur ekki danska þjóðin,“ sagði Sareen, sem sjálfur neytti kannabisefna í lækningaskyni í ráðherratíð sinni vegna alvarlegrar streitu.

Í umfjöllun Politiken segir að þó að læknum hafi verið heimilt frá árinu 2011 að ávísa kannabisefnum til MS-sjúklinga, þá sé það undir einstökum læknum komið hvort sú heimild sé nýtt. Sareen er nú í forsvari fyrir nýstofnuð samtök sjúklinga sem berjast fyrir lögleiðingu kannabisefna í lækningaskyni

51.659 kannabissúkkulaðidropar

Málfríður, Claus og þrír aðrir eru ákærð fyrir brot á 191. grein dönsku hegningarlaganna sem kveður á um sölu á fíkniefnum. Þá eru þau líka ákærð fyrir brot á 7. grein dönsku læknalaganna fyrir að hafa selt og auglýst varning sem lyf án þess að hafa til þess leyfi. Í ákærunni kemur m.a. fram að þau hafi framleitt 6,7 lítra af kannabisolíu og 51.659 súkkulaðidropa sem innihalda THC, sem er virka efnið í kannabis.

Málfríður er einnig ákærð fyrir að hafa tekið við kannabisolíunni, nýtt hana til súkkulaðigerðar og síðan selt afraksturinn.

Að auki er Nielsen ákærður fyrir að hafa haft barnaklám í tölvu sinni, en hann fullyrðir að hann hafi fengið það sent óumbeðið. Hann hefur aldrei dregið dul á að hann selji sjúklingum kannabisolíu, heldur þvert á móti verið fús til að ræða þessa iðju sína opinberlega og segir tilganginn aldei hafa verið að græða fé, enginn hagnist á þessu nema sjúklingarnir sem öðlist betri líðan og að það sé ekki tilgangur allra sem selja kannabis að gera fólk háð efninu og græða mikið af peningum.

Ábending barst á vef lögreglu

Danska ríkisútvarpið, DR, hefur fylgst grannt með réttarhöldunum. Í frétt DR segir að Lise Frandsen saksóknari hafi greint frá því við réttarhöldin að lögreglu hafi fyrst borist veður af málinu þegar ábending barst á vefsíðu dönsku lögreglunnar um að Claus Nielsen seldi kannabisolíu á Facebook. Skömmu síðar hafði talsmaður flutningafyrirtækisins GLS samband við lögregluna og sagðist hafa tekið eftir tíðum pakkasendingum Nielsens til sömu viðtakenda og samkvæmt reglum fyrirtækisins var einn pakkanna opnaður. Hann innihélt einnota sprautur með kannabisolíu og kannabissúkkulaði. Í kjölfar hóf lögregla rannsókn á málinu sem leiddi til ákærunnar og síðar dómsmálsins.

6.000 - 10.000 viðskiptavinir

Við réttarhöldin í héraðsdómnum í Holbæk í gær báru sakborningar vitni og þar kom m.a. fram að á milli 6.000 og 10.000 manns hefðu keypt kannabisolíu og kannabissúkkulaði af þeim.

Meðal annarra sem báru vitni í gær var danski læknirinn Tina Horsted, sem áður starfaði á Ríkissjúkrahúsinu í Kaupmannahöfn og veitti þar m.a. krabbameinssjúklingum kannabismeðferð. Nú rekur hún eigin læknastofu þar sem m.a. er boðð upp á meðhöndlun með virku efnunum úr kannabis og er hún einn þeirra u.þ.b. 70 lækna í Danmörku sem bjóða upp á slíkar meðferðir. Meðal þess sem saksóknari spurði hana að var hvort fólk kæmist í vímu af því að neyta kannabisefna. „Já,“ var svarið, en hún útskýrði síðan að það færi eftir því í hvaða formi efnisins væri neytt, mesta víman fengist við að reykja það. „En ef það er rétt skammtað í læknisfræðilegum tilgangi fer fólk ekki í vímu,“ sagði Horsted.

Nokkrar fréttir danskra fjölmiðla um málið:

Frétt dr.dk: „Sjúklingar geta ekki beðið eftir því að lögunum verði breytt“

Frétt dr.dk. Moffe seldi 52.000 súkkulaðidropa með kannabisolíu

Frétt bt.dk: Pernille Vermund keypti kannabis handa veikri móður sinni

Frétt tveast.dk: Kannabisolían bjargaði dóttur minni

Frétt tveast.dk: Frásögn af réttarhöldunum í gær

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert