Veruleg skerðing á víðernum

Fyrirhugað virkjunarsvæði er á Ófeigsfjarðarheiði. VesturVerk áformar að leggja vinnuvegi …
Fyrirhugað virkjunarsvæði er á Ófeigsfjarðarheiði. VesturVerk áformar að leggja vinnuvegi um heiðina í vor. mbl.is/Golli

Óbyggð víðerni innan Árneshrepps á Ströndum myndu skerðast verulega eða um allt að 180 ferkílómetra við gerð vinnuvega og efnisnáma um fyrirhugað virkjanasvæði Hvalárvirkjunar eins og þeim er lýst í tillögu að breytingu á aðalskipulagi hreppsins. Skerðing víðerna myndi aukast um 40-60 km² kæmi til uppbyggingar virkjunarinnar. Óbyggðum víðernum, sem standa skal vörð um samkvæmt náttúruverndarlögum, fer fækkandi og þar með ætti verðmæti þeirra svæða sem eftir eru að aukast í samræmi við það og ríkari áhersla að vera á lögð á vernd þeirra.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í umsögn Umhverfisstofnunar á tillögu að breyttu aðalskipulagi Árneshrepps. Breytingartillagan sem og deiliskipulagstillaga var auglýst í haust og rann frestur til athugasemda út 16. október. Athugasemdir bárust frá sextán aðilum og umsagnir frá ellefu stofnunum og sveitarfélögum. Umhverfisstofnun fékk frest til að skila sinni umsögn og barst hún skipulagsfulltrúa í vikunni.

Tillögurnar nú snúa fyrst og fremst að gerð vinnuvega um hið fyrirhugaða virkjunarsvæði á Ófeigsfjarðarheiði, efnisnámum og uppsetningu vinnubúða. Vegirnir eru hugsaðir til frekari rannsókna á svæðinu. Hvalárvirkjun er í orkunýtingarflokki rammaáætlunar. Gert var ráð fyrir hinni á aðalskipulagi Árneshrepps sem samþykkt var í byrjun árs 2014. Umhverfismat á framkvæmdinni hefur þegar farið fram og birti Skipulagsstofnun álit sitt á því í apríl. Framkvæmdaleyfi fyrir virkjunina hefur ekki verið gefið út og ákvörðun um hvernig hún verður tengd meginflutningskerfi raforku, ekki enn verið tekin.

Framkvæmdaaðilinn VesturVerk, sem er í meirihlutaeigu HS Orku, áformar að leggja vinnuvegina er snjóa leysir í vor. 

25 kílómetra langir vinnuvegir

Árneshreppur er 707 ferkílómetrar að stærð. Landslag innan hreppsins er víða stórbrotið, eins og segir í umfjöllun um forsendur skipulagsbreytinganna. Fyrirhugað virkjunarsvæði er 265,5 ferkílómetrar, auk helgunarsvæðis raflínu og Ófeigsfjarðarvegar. Innan hreppsins eru 370 km² landsvæði óbyggð víðerni. Stærstur hluti þessa svæðis er innan fyrirhugaðs virkjunarsvæðis samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Vinnuvegirnir yrðu samtals 25 kílómetrar að lengd. Þeir yrðu lagðir frá Ófeigsfjarðarvegi sunnan Hvalár að Neðra Hvalárvatni og þaðan að Neðra-Eyvindarfjarðarvatni annars vegar og ánni Rjúkanda hins vegar.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Þá er gert ráð fyrir nýjum efnistökusvæðum í tengslum við vegina. Tvö yrðu á láglendi við Hvalárósa og eitt vestan megin við Neðra-Hvalárvatn, þ.e. uppi á Ófeigsfjarðarheiðinni. Samkvæmt skipulagstillögunum nú er einnig gert ráð fyrir tímabundnum starfsmannabúðum fyrir þrjátíu manns.

Að mati Umhverfisstofnunar verður „umfangsmikil skerðing óbyggðra víðerna og neikvæð áhrif verða á ásýnd fyrirhugaðs framkvæmdasvæðis og landslag þess við gerð vinnuvega og verða neikvæðu áhrifin og skerðingin enn meiri þegar virkjanaframkvæmdirnar sjálfar eru áætlaðar.“

 Upp­haf­lega stóð til að gera sam­tím­is til­lögu að nauðsyn­leg­um end­ur­bót­um á vegi frá Tré­kyll­is­vík og inn í Ófeigs­fjörð vegna þunga­flutn­inga og lýsa bet­ur til­hög­un virkj­un­ar en gert er í gild­andi skipu­lagi. Frá því var horfið og ákveðið að skipta skipu­lags­breyt­ing­un­um í tvennt. Vinna við þær skipulagsbreytingar sem eftir eru hefst fljótlega.

Farið verði með gát

Í umsögn sinni bendir Umhverfisstofnun m.a. á að þegar fjallað er um einstaka hluta framkvæmdar hverju sinni geti það komið í veg fyrir eða takmarkað heildræna sýn á framkvæmdina. „Að mati stofnunarinnar er afar mikilvægt að við gerð vinnuvega, við efnistöku og við staðsetningu vinnubúða verði farið að með gát og leitast verði við að forðast all óþarfa rask þar sem svæðið er óbyggt og óraskað.“

Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks, sagði í samtali við mbl.is í byrjun október að um lág­marks­vega­gerð yrði að ræða og ein­göngu til þess gerð að koma bor til berg­rann­sókna og aðföng­um fyr­ir hann upp á heiðina.

 Hann sagði það að sínu mati túlk­un­ar­atriði hvort vinnu­veg­ir sem þess­ir skerði óbyggð víðerni, eins og þau eru skil­greind í nátt­úru­vernd­ar­lög­um. Bent hafi verið á að lög­in séu nokkuð óljós hvað veglagn­ing­ar varðar. Í þeim segi að upp­byggðir veg­ir skerði óbyggð víðerni en ná­kvæma skil­grein­ingu á upp­byggðum vegi vanti hins veg­ar.

Verði skipu­lags­breyt­ing­arn­ar samþykkt­ar mun Vest­ur­verk sækja um fram­kvæmda­leyfi fyr­ir veglagn­ing­unni til hrepps­nefnd­ar­inn­ar. Verði það samþykkt er stefnt á að hefja lagn­ingu veg­anna og rann­sókn­ir er snjóa leys­ir næsta vor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert